30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (4359)

194. mál, áveita á Flóann

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Úr því að það er komin fram till. um það frá öðrum, að málinu sé vísað til landbn., þá mun ég ekki setja mig á móti því. En það, sem ég sagði um landbn., var sagt í varúðarskyni. Og það, að málin koma seint frá landbn., er sumpart vegna þess, að n. hefir mikið að gera, og sumpart vegna geðþótta hv. nm., og hafa ýmsir kvartað í sambandi við hið síðarnefnda. — Viðvíkjandi fúlegginu vil ég segja það, að hv. þm. er það kunnugur eggverum og eggjatöku, að hann veit, að til þess að hægt sé að komast hjá fúleggjum, þarf fuglinn að hafa þurra þúfu til þess að verpa á, og vænti ég því þess, að hann sé því fylgjandi að ræsa Flóann, svo að bændurnir hafi þar þurrt land til afnota og fuglar himinsins til að verpa eggjum sínum.