03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (4372)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. hefir nú svarað fyrirspurn minni, og mér skilst, að hann skjóti sér undir það, að þetta sé gert sem gjaldeyrisráðstöfun. Hann hélt því fram, að hér væri um slíkt fyrirtæki að ræða, sem gæti losað landsmenn við að greiða gjaldeyri, sem ella yrði ekki komizt hjá að greiða. Hann sagði, að það væri öðru máli að gegna með hafnargerðir. Hann kom þó inn á, að það væri ekki útilokað, að þær gætu orðið til þess að auka gjaldeyrinn. Það er kunnugt, að þar, sem hafnargerðum hefir verið komið upp, er um möguleika að ræða til aukinnar framleiðslu í stórum stíl að því er sjávarafurðir snertir, og hlýtur slíkt að veita aukinn gjaldeyri. Það má kannske segja, að eins og nú standa sakir sé nokkuð mikið fyrir af sjávarafurðum á markaðnum, og því tvísýnt um ábatann af aukinni framleiðslu.

En það, sem ég tel mestu skipta í svari hæstv. ráðh., er það, að hann lýsti því yfir, að það væri stefna stj. að ganga ekki í ábyrgð og að forðast erlendar lántökur. En með því að flutt er að tilhlutun stj. frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að stj. taki f. h. ríkissjóðs 11/2 millj. kr. lán erlendis, þá er það sýnt, að svar stj. til Skagfirðinga var ekki sprottið af getuleysi, eins og ég og margir aðrir álitu, og töldum við ekkert athugavert við það, og síður en svo, að stj. væri ámælisverð fyrir að gera ekki hlut, sem hún gæti ekki gert. En nú sé ég, að þetta hefir ekki verið af getuleysi, heldur af viljaleysi. Ef stj. getur nú tekið 11/2 millj. kr. lán erlendis, þá gat hún eins gengið í ábyrgð fyrir 270 þús. kr. til hafnargerðar á Sauðárkróki.