18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (4383)

197. mál, fóðurtryggingarsjóður

Jón Pálmason:

Það er út af fyrir sig rétt, sem hv. frsm. tók fram og getið er um í nál., að ekki hefir verið farið gegnum þetta frv. til hlítar á fundi. En ég vildi ekki láta þetta mál fara svo gegnum þessa umr., að ég ekki minntist á það örfáum orðum, vegna þess að því aðeins skrifaði ég undir nál., að ég hefi farið talsvert rækilega sjálfur yfir frv. og athugað, hvað það er, sem hér er um að ræða.

Nánast tiltekið er þetta frv. þannig vaxið, að það eru heimildarlög, sem í sjálfu sér eru byggð á því, að sýslunefndirnar, og svo hinir einstöku bændur í hverju sýslufélagi, hafa heimild til þess samkv. ákveðnum reglum að stofna hjá sér fóðurtryggingarsjóði með styrk frá ríkinu. Hér er því ekki um neitt valdboð að ræða. En grundvöllurinn er náttúrlega sá, að hér er um ákaflega mikið vandamál að ræða fyrir íslenzkan landbúnað, sem er það atriði, hvernig búpeningurinn verður tryggður fyrir harðindum. Á þessu sviði hefir alla tíð síðan land þetta byggðist verið heldur tregt með tryggingar, og það hefir jafnan komið í ljós, þegar harðindi hefir borið að höndum, að víðast hvar hefir þannig verið um búið, að fyrirhyggja hefir ekki verið eins og þurfti. En ég fullyrði, að þrátt fyrir það, að þetta hafi verið illt á undanförnum áratugum, þá hafi það versnað nú upp á síðkastið, og það af þeirri einföldu ástæðu, hvað fólkseklan í sveitunum er orðin mikil. Enda hefir það komið í ljós, að á hinum góðu vetrum, sem nú hafa verið hver á fætur öðrum, hafa í flestum héruðum fleiri eða færri bændur orðið að gefa upp fóðurforða sinn. Sér hver maður, að með þeim hætti er voði fyrir dyrum, hvenær sem harðindi ber að höndum. En ég hefi satt að segja ekki sterka trú á því, að þetta verði fullnægjandi ráðstafanir til þess að girða fyrir þann háska, sem hér er um að ræða, en einhverja umbót kann af því að leiða, og þetta frv. er með þeim hætti sniðið, að ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu, að það geti orðið að l. í þeirri eða svipaðri mynd, sem það nú liggur fyrir.