11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (4420)

36. mál, prentsmiðjur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég get verið stuttorður. Hv. 4. landsk. tók fram í sinni ræðu það, sem ég vildi hafa sagt. Ég álít það gott að styðja bókasöfn meðal almennings. En þegar athuga skal, hve vítt á að dreifa bókunum, verður að fara eftir vissum reglum. Ég geri ráð fyrir, ef frv. verður samþ., einkum ef brtt. verður samþ., að þá fari aðrir kaupstaðir að rísa upp, t. d. Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar og Nes í Norðfirði. Hér á að láta samkvæmt frv. tvö eintök í sama kjördæmi, en þessi kjördæmi fá ekkert. við erum fjölmennari, munu þessir kaupstaðir segja, og ég geri fastlega ráð fyrir, að ef Siglufirði verða veitt þessi hlunnindi, þá muni kaupstaðir þeir, er ég hefi áður minnzt á, koma á eftir. Það eru a. m. k. 10 eintök, sem hver bókaútgefandi á þennan hátt verður að láta af hendi, og út til annara ríkja eru það fjögur eintök.. Nú vil ég skjóta því til hv. menntmn., hvort hún geti ekki séð sér fært að fækka þessum eintökum, ef ekki koma önnur gæði á móti. Eins vildi ég spyrja hv. frsm., hvernig þessu er varið í öðrum löndum, hvort þar séu látin eins mörg eintök til bókasafna eins og hér — einkum til erlendra ríkja. Ég verð að taka undir með hv. 4. landsk., sem sagði, að bókaútgáfa gæti orðið örðug, ef bætt væri á hana þessum þunga skafti, sem gæti orðið allt að 20 eintökum. Maður veit, að það er örðugt undir fæti með bókaútgáfu, og ekki er líklegt, að kaupgeta almennings batni á næstu árum.