02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

3. mál, verðtollur og bráðabirgðaverðtollur

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil alvarlega mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti atkvgr. Þar sem sýnt er, að Sjálfstfl. er farinn að taka upp þá aðferð að reyna að koma fyrir kattarnef málum, sem hann er á móti, með því að greiða ekki atkv., þá er eðlilegt, að það sé beðið þangað til svo margir eru viðstaddir, að meiri hluti dm. taki þátt í atkvgr. Það er vitanlegt, að þessir menn hafa oft lýst yfir afstöðu sinni til þessa máls, og hafa því ekki aðra ástæðu til að sitja hjá við atkvgr. en þá, að þeir hafa ekki atkvæðamagn til þess að fella frv. og vilja þessvegna reyna að koma því fyrir kattarnef á annan hátt.