07.03.1935
Efri deild: 19. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (4439)

43. mál, yfirstjórn nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Flm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er sama efnis og frv., sem flutt var á haustþinginu og afgr. frá n., en dagaði þá uppi. Nú flytur meiri hl. n. frv. með breytingum meiri hl. allshn. Frv. fjallar um sérstaka yfirstjórn yfir nokkrum ríkiseignum í Ölfusi og inniheldur auk þess nokkur ákvæði um meðferð þeirra.

Þessar ríkiseignir eru sérstæðar að því leyti, að hér er að ræða um mikil náttúrugæði, sem framtíðarvonir eru tengdar við. Því virðist rétt að setja þær undir sérstaka yfirstjórn, þótt deila megi um, á hvern hátt það skuli gert, en ég ætla þó, að tillögur nefndarinnar bendi á heppilegustu leið í málinu. Óska ég, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og allshn.