09.03.1935
Efri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í C-deild Alþingistíðinda. (4445)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég vil ekki fullyrða að tekizt hafi að orða gr. frv. svo skýrt, að skilningur á þeim geti ekki orkað tvímælis: Þá finnst mér liggja ljóst fyrir það atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Dal. gerðu að umtalsefni. Er það að sjálfsögðu meining frv., að það nái ekki til annara sjóða en gjafa- eða sjálfseignarsjóða, sem ekki eru eign ákveðins aðilja. Kemur því ekki til mála, að hér undir. geti heyrt félagasjóðir, svo sem kvenfélaga, sem hv. þm. Dal. virtist helzt bera fyrir brjósti, eða sjóðir verkalýðsfélaga, sem hv. 4. þm. Reykv. lét sér aftur á móti sérstaklega. annt um. Ef þetta þykir ekki nægilega skýrt í frvgr., er sjálfsagt, að n. sú, sem málið fær til meðferðar, kveði þar skýrt á um. — Sama má t. d. segja um fjallskilasjóði í sveitum, sem skoða má sem grein af sveitarsjóðum.

Hv. þm. Dal. talaði um, að frv. eða grg. þess væri skrifuð í fjandsamlegum anda við frv. það, sem hann flutti í fyrra og nú er orðið að l. Það get ég ekki séð. Þetta frv. er eðlilegt framhald af frv. hans. Hann á hugmyndina að þessu máli, þó að aðrir hafi nú tekið við og aukið þar við, er hann gekk frá. Er í slíka enginn fjandskapur. Það má segja, að þetta frv. sé ekki fram sett til að „afnema lögmálið og spámennina, heldur til að fullkomna það“.

Ég get ekki annað en tekið undir það, sem hv. þm. Dal. sagði um þá þrjá menn, sem kosnir voru til að hafa eftirlit með sjóðunum, að þetta eru allt ágætir menn og vel til starfsins hæfir. En þessir menn hafa öðrum störfum að gegna, og hefir víst aldrei verið til þess ætlazt, að þeir ynnu þetta verk öðruvísi en í hjáverkum. Ég ímynda mér, að hv. þm. Dal. hafi ekki heldur ætlazt til þess, eins og sést á launaupphæð þeirri, sem hann ætlaði þeim í frv. sínu. Býst ég við, að Alþingi muni kjósa þessa sömu menn áfram, ef einn þeirra verður þá ekki framkvæmdarstjóri.

Þá fann hv. þm. Dal. frv. það sérstaklega til foráttu, að látið er skína í, að fé sjóðanna megi verja til kaupa á ríkisskuldabréfum og öðrum verðbréfum. Ég tel þetta einmitt kost á frv. Eru að því mikil vandræði hér á landi, hve illa gengur um alla verðbréfasölu. Fyrir sjóði, sem á að ávaxta, eins og ýmsa gjafasjóði (og suma þessa sjóði á að ávaxta í 100 ár, jafnvel 150 ár) — fyrir slíka sjóði væri eins gott að eiga trygg verðbréf eins og að geyma féð í sparisjóðum, sem ekki eru alltaf sem tryggastir.

Að því er kemur til þess, að stofna eigi nýtt embætti með 6000 kr. launum, þá er það að nokkru leyti rétt, Annars liggur hér líka fyrir að afnema embætti með miklu hærri launum, og gæti þá þetta tvennt gengið upp. Og þó að núgildandi l. gildi áfram, held ég, að reka hlyti að því, að n. yrði að fá aðstoð við daglega afgreiðslu starfanna. Nú þegar eru hærri upphæðir en hér er farið fram á greiddar fyrir vörzlu örfárra sjóða, og er því ólíklegt, að hér verði um veruleg ný útgjöld að ræða.

Annað það, sem hv. þm. Dal. minntist á, heyrir fremur undir 2. umr. málsins, og mun ég geyma að svara því þangað til.