30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í C-deild Alþingistíðinda. (4484)

60. mál, klakstöðvar

Jónas Jónsson:

Fjvn. gerði eina brtt. við þetta frv., og nm. héðan úr d. bera hana fram. Er hún á þá leið, að heimild 4. gr. um kaupin skuli aðeins notuð með samþykki fjvn. Alþingis. Hefir ekki unnizt tími til að undirbúa þetta mál nógu rækilega. Upphaflega var gert ráð fyrir því, að tvær ár yrðu leigðar, en þar sem það hefir nú orðið ofan á, að ríkið kaupi Laxá í Kjós, þykir ekki óeðlilegt, að fjvn. hafi úrskurðarvald um þetta. Það er alltaf auðvelt að ná til fjvn. og í henni eru alltaf menn úr öllum flokkum. Kostnaðaráætlun hefir enn ekki verið hægt að gera, og um kostnaðinn er ekkert hægt að segja, fyrr en ýtarleg athugun hefir farið fram.