30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í C-deild Alþingistíðinda. (4486)

60. mál, klakstöðvar

Jónas Jónsson:

Ég held, að hv. 4. landsk. skjátlist, er hann segir, að fjvn. sýni af sér yfirlæti. Hún hefir verið auðmjúk og eljusöm, eins og allir vita. Í þessari till. hennar kemur aðeins fram umhyggja fyrir málinu, sem hv. þm. mega ekki misskilja. Hv. þm. finnur, að það er hinn veiki punktur, að ekki er hægt að segja, hvað Laxá í Kjós muni kosta. Mér hefir líka dottið í hug að stinga upp á lánsheimild. En ef kaupin eiga að ganga fram í vor, þá finnst mér auðveldast og eðlilegast, að fjvn. sé spurð um þetta atriði. Er það ekki óalgengt í l., að n. geri ákvarðanir um svipuð mál. T. d. var það svo um tíma, að landbn. átti að kjósa menn í stj. Búnaðarfélags Íslands og sömuleiðis kreppulánasjóðs. En ef þessi till. verður felld, þá er ekkert við því að segja. Við þremenningarnir höfum ekkert gert til að agitera fyrir henni.

Ég get fyrir mitt leyti fallizt á, að málið verði tekið af dagskrá.