12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (4504)

60. mál, klakstöðvar

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég get yfirleitt tekið undir við hv. þm. Borgf. Hinsvegar vil ég ekki taka eins ákveðna afstöðu gegn málinu og hann gerði. Það byggist á því, að ég er ekki á móti þeim tilgangi, sem felst í upphaflega frv. Það má færa nokkur rök fyrir því, að rétt væri að setja löggjöf í þeim tilgangi, sem frv. segir til um. Sem sérstök grg. þessa frv. er tilfærður sá tilgangur að auka laxaklak í landinu. Er þessi tilgangur motiveraður með því, að á síðari árum hafi ýmsar ágætar laxár tæmzt, svo að til vandræða horfi. Í grg. frv. kemur það ekki fram, hverjar þær ár séu. Ég þykist því ekki geta tekið þessa staðhæfingu sem góða og gilda vöru, nema frekari rök séu fram færð.

Ef tilgangur frv. á að takmarkast við það, að viðhalda góðum laxám og koma í veg fyrir að þær tæmist, þá get ég verið þessum tilgangi samþykkur. En svo undarlega vill nú til, að eftir að frv. hefir verið til athugunar í n. í Ed., er því umsteypt þannig, að gert er ráð fyrir því, að ákveðnar ár skuli teknar eignarnámi.

Nú er það sitt hvað, að ríkið reisi klakstöðvar við ákveðnar ár og taki jafnvel gjald af laxveiðum í öðrum ám, til að standast kostnaðinn, eða að ríkið taki öll veiðiréttindi í þessum ám, hvort sem um er að ræða stangarveiði eða aðra. Í upphafl. frv., sem samið er af Rauðku og flutt eftir beiðni hæstv. landbrh., er í 3. gr. ákveðið, að eigendur vatnanna megi, með samþykki ríkisstj., veiða lax á stöng þann tíma, er heimilað er í gildandi l. En um það eru engin ákvæði, hvar klakstöðvar skuli reistar. Eftir að málið hafði verið til meðferðar í landbn. Ed., var frv. breytt og m. a. ákveðið, hvaða ár skyldu teknar eignarnámi, og þetta eignarnám var þar ekki einu sinni takmarkað við veiðirétt og aðgang að ánum. Inn í 4. gr. er sett ákvæði um, að öll veiðiréttindi í ánum megi taka eignarnámi. Þannig eru veiðiréttindin tekið af þeim mönnum, sem eftir fyrra frv. höfðu heimild til að veiða á stöng.

Í frv. eru 2 ár tilgreindar: Laxá í Kjós og Laxá úr Mývatni. Og í nál. segir: „Nefndin er sammála um, að nauðsyn beri til þess að reisa klakstöðvar við hentugar veiðiár og að þær beri að velja einnig með tilliti til þess, að sem auðveldast sé að flytja laxaseiði í sem flestar veiðiár á landinu.“ N. hefir nú komizt að þeirri niðurstöðu, að Laxá í Kjós sé sérstaklega hentug í þessu tilliti. Ég vil nú beina því til hv. landbn., að óheppilegt hlýtur að teljast að miða við sérstakar ár, því að bæði getur laxveiðin minnkað og vaxið í einstökum ám. Auk þess hefði efalaust mátt velja hentugri ár. Ég efast um, að landbnm. séu sérstaklega hæfir til að meta þetta. Laxá í Kjós t. d. liggur þannig, að ef flytja á seiði þaðan í aðra landshluta, þá liggur önnur leiðin norður í Borgarfjörð, en hin suður um Elliðaárnar og aðrar veiðiár hér fyrir austan fjall. Í Elliðaánum er nú klakstöð, sem framleiðir mikið af laxaseiðum, og við Ölfusá er líka klakstöð. Hinsvegar eru í Borgarfirði margar framúrskarandi laxár, og eins í Dalasýslu. Held ég því, að ekki sé hægt að kalla Laxá í Kjós eða Bugðu sérlega heppilegar ár, þar sem til annarar handar eru tvær klakstöðvar, en til hinnar yfir fjallveg að fara, en handan við hann margar sérstaklega góðar laxár. Ég vil beina því til hv. n. að athuga, hvort ekki megi finna heppilegri á í Borgarfirði eða Dalasýslu.

Eins og fram kemur í nál. og grg. fyrir frv., er tilgangur frv. aðeins sá, að koma á fót klakstöðvum á stöðum, sem liggja vel við flutningi seiðanna í aðra landshluta. Kunnugir hafa nú sagt mér, að þessu megi ná án þess að af mönnum séu tekin réttindi til að veiða á stöng. Enda sé ég ekki, að samkv. stjskr. sé heimilt að taka þennan rétt. Í 62. gr. stjskr. segir svo:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Ef hægt er að reka klakstöðvar við veiðiár með fullum árangri án þess að taka af mönnum réttinn til að veiða með stöng, þá sé ég ekki ástæðu til að hafa þetta ákvæði, sem brýtur í bága við 62. gr. stjskr. Ég geri ráð fyrir því, að Rauðka, sem annars er ekki hrædd við eignarnám, hafi séð þetta, að slíkt bryti í bága við stjskr., og hafi því ekki sett þetta ákvæði.

Þá hefir landbn. Ed. sett í frv. ákvæði um að taka eignarnámi veiðimannahúsið Árnes við Laxá. Það er einkaeign; eigandi þess er maður í Reykjavík, og húsið kemur þessu máli yfirleitt ekkert við. Mér skilst, að Laxá og Bugða séu til samans svo langar, að meðfram þeim mætti reisa 25 þúsund slík hús. Ég beini því til hæstv. forseta, hvort hann vilji ekki skjóta því til hv. landbn. að lagfæra þetta. Það er ekkert til, sem réttlæti, að þetta hús sé tekið eignarnámi, fremur en hvert annað hús, hvar á landinu sem væri. Þetta hús getur ekki að neinu leyti verið þessu máli til hjálpar en það getur verið, að þeim hafi þótt rauði liturinn á þaki þess girnilegur. Það er það eina, sem er hugsanlegt, að hafi vakað fyrir hv. þm. S.-Þ., þegar hann beitti sér fyrir þessu.

Ég get tekið undir með hv. þm. Borgf., að það er ekki lítið gjald, að þurfa að borga allt að krónu fyrir hvern lax, sem veiðist. Ég gæti hugsað mér, að þau þægindi og sá ávinningur, sem að öðru leyti yrðu samfara klakstöðinni, gætu ekki vegið upp á móti þessum skatti.

Þetta er 1. umr. og ber því að tala um frv. almennt, og ég get vel fellt mig við tilganginn í frv., en vil vera þess fullviss, að ákvæðið um eignarnám verði, samkv. stjskr., takmarkað við það, sem er nauðsynlegt fyrir ríkisvaldið að fá í sínar hendur til þess að geta rekið klakstöðvarnar.

3. gr. ber þess ljósan vott, að Rauðka hefir ekki talið nauðsynlegt að taka stangarveiðirétt eignarnámi, því þar er sagt í b-lið gr.: „Heimilt skal þeim (þ. e. eigendum laxveiðiréttindanna), með samþykki ríkisstj., að veiða lax á stöng þann tíma, sem heimilað er í gildandi lögum.“ Það er þá tvennt, sem um er að ræða. Annarsvegar rekstur klakstöðvar og hinsvegar réttur til þess að veiða á stöng, og þetta tvennt fer ekki saman. Til hins fyrrnefnda má taka eignarnámi, ef samningar fást ekki við rétta hlutaðeigendur, en hið síðara liggur fyrir utan. Hv. þm. Borgf. minntist á, að hér hefði verið sent til Alþ. erindi frá eigendum Laxár og Bugðu. Þetta erindi er sent 24. nóv. s. l., og vil ég ekki þreyta hv. þdm. á því að lesa það hér upp, en vil benda hv. form. landbn. á það, að þar kemur greinilega fram, að þessir menn eru ekki mótfallnir upphaflega tilgangi frv., en telja ónauðsynlegt og óheimilt samkv. stjskr. að blanda saman veiðirétti og rétti til að reka klakstöðvar. Ég vil benda á, að eigendur veiðiréttarins lýsa því yfir í þessu bréfi, að þeir séu fúsir til að veita viðkomandi yfirvöldum fullkominn réttlátan aðgang að þessum veiðiám til þess að reka þar klakstöðvar, svo þar virðist engin þvingunarlög þurfa til að koma. Frá mínu sjónarmiði er það ekki svo lítið atriði, að ekki beri að keppa að því að ná frjálsum samningum við þá menn, sem þennan rétt hafa. Ég álít það svo mikilvægt, að þeir menn, sem hafa þennan helga rétt, eignarréttinn, láti frá sér með frjálsu móti það, sem nauðsynlegt er fyrir tilgang frv., að ég mælist fastlega til þess, að hv. landbn. taki þetta sérstaklega til athugunar.