12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í C-deild Alþingistíðinda. (4506)

60. mál, klakstöðvar

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að tala langt mál um þetta frv., en vil þó ekki láta þessa umr. líða hjá án þess að því fylgi nokkur orð frá mér.

Eins og frv. ber með sér, er aðaltilgangurinn sá, að koma upp klakstöðvum, og frv. kveður nánar á um það, hvaða ár teljist sérstaklega hentugar til klaks. Þetta er það, sem sérstaklega er látið koma fram, en samt er það ljóst, að það er allt annað, sem á bak við býr. Þetta frv. er ofið sem hjúpur utan um löngun hæstv. forsrh. til að taka Laxá í Kjós eignarnámi, svo að ríkið geti boðið gestum sínum þangað til að stunda veiði. Hæstv. ráðh. hefir orðað það við mig, hvort ég vildi samþ. þetta frv., ef það væri stutt með þessum rökum. Að setja þetta í samband við klak og klakstöðvar er því einskonar skákbragð, sem hefir verið fundið upp og á að gera skákina auðunnari.

Ég skal nú fúslega viðurkenna, að það er alls ekki eins hlægilegt eins og hv. þdm. kann að finnast við fyrstu athugun, að ríkið ráði yfir svona veiðiám til þess að veiðigjarn forsrh. geti lyft sér upp og fengið sér frí frá vandasömum og þreytandi störfum, og til þess að stjórn íslenzka ríkisins geti boðið þeim erlendu gestum, sem koma í heimsókn hingað til lands, nokkrar ánægjustundir við veiðar. Ég veit, að það er freistandi fyrir okkur Íslendinga, sem erum fátæk þjóð, en eigum því láni að fagna, að valdamönnum okkar er vel tekið, þegar þeir sækja aðrar þjóðir heim. Ég veit, að það er freistandi fyrir okkur að geta veitt þeim, sem heimsækja landið, einhverja þá ánægjustund, sem geti orðið þeim ógleymanleg, og eitt það allra bezta og ánægjulegasta er að koma í indæla sveit eins og Kjósin er og stunda þar laxveiði eða horfa á aðra veiða. En þetta raskar ekki hinu, að samkv. stefnu míns flokks og samkv. mínu eigin hugarfari og samkv. stjskr. vorri verður þetta að gerast með samþykki þeirra manna, sem eignirnar eiga. Enda engin þjóðarnauðsyn, að valdhafarnir geti boðið heimsækjendum þessa ánægju frekar en að sýna þeim dýrðlega náttúrufegurð, eins og er á Þingvöllum, eða aðra eins náttúruprýði eins og Geysi. Hv. þm. Borgf. minntist á, að hægt mundi verá að fá að kasta fyrir lax í þessum ám, með fullu samkomulagi við eigendur veiðiréttarins. En þó samningar við ríkið geti tekizt, þá kemur auðvitað ekki til mála, að þetta verði gert án samþykkis hlutaðeigandi manna.

Ég skal upplýsa það nú, að allir eigendur veiðiréttarins mótmæla eignarnámi, og er það mjög eðlilegt. Ég er ekki í neinum vafa um, að bændur þeir, sem hlut eiga að máli, geta horft fram til þess tíma, að sú eign, sem þeir nú eiga, en ríkið ágirnist og vill slá kló sinni á, verður eftir nokkur ár orðin margfalt hærri í verði. Með vaxandi ferðamannastraum hingað til lands hlýtur aðsókn að þessari veiðiá að aukast, með hliðsjón af því, hvar hún liggur. Upp í Kjós geta menn komizt á einum klukkutíma, og eigendur ánna geta leigt þær út dag og dag og geta oft haft góðar tekjur af því. Það er því mjög eðlilegt, að bændur mótmæli þessu eignatjóni, og ég held, að allir þeir, sem hlut eiga að máli, hafi mótmælt því. Ég leyfi mér því að vona, að eftir að málið hefir þannig verið upplýst, þá fáist ekki samþ. Alþ. fyrir því að taka þessar eignir eignarnámi, þvert ofan í vilja hlutaðeigandi manna. Hitt er annað mál, ef að rannsökuðu máli verður talið sérstaklega heppilegt að hafa þarna klakstöðvar, þá er ég sannfærður um, að um þau atriði, sem þar að lúta, má ná samkomulagi við eigendurna. En klakið er aukaatriði í frv., og þess vegna hefir þetta ekki verið orðað við þá. Eftir því, sem þetta frv. hefir orðið hagvanara hér á Alþ., hefir það komið æ gleggra og gleggra í ljós, hvað undir býr. Allar þær breyt., sem hafa verið gerðar á því, hafa miðað að því að skýra, hvað það var, sem vakti fyrir hæstv. forsrh., sem sé það, að geta veitt sér og gestum sínum þessar ánægjustundir, sem ég talaði um áðan. Ég vil svo að lokum segja það, að ég treysti því, að hið háa Alþ. fari ekki að nauðsynjalausu að ráðast á eignarrétt hlutaðeigandi bænda, en um leið vil ég taka það fram, að með þessum orðum er ég ekki að kveða upp áfellisdóm yfir þeirri hugsun, að íslenzka ríkið eignist annaðhvort þessar ár eða einhverjar aðrar svo nálægt Rvík, að ríkisstj. geti boðið þangað þeim erlendum gestum, sem hún vill sýna sérstakan sóma; en frá mínum bæjardyrum séð er það grundvallaratriðið, að hvenær sem slík eignarheimild yrði ákveðin og hvaða á sem yrði fyrir valinu, þá yrði það aðeins gert að fengnu fullkomnu samþ. þeirra manna, sem væru eigendur að þeirri á, sem valdhafarnir kynnu að ágirnast.