29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (4514)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki amast neitt við því, að hv. þm. S.-Þ. afli sér þeirra upplýsinga, sem þarf, um þetta mál. En ég vil benda á, að eftir nokkra daga mun eiga að fresta þingi, og sé ég ekki neina ástæðu til að stöðva málið þannig alveg í byrjun vegna slíkrar rannsóknar, eins og hv. þm. fer fram á. Það mætti að sjálfsögðu leyfa málinu að halda áfram; það hefir aðeins farið gegnum eina umr. í fyrri deildinni, — ekki eins og það sé á förum úr þinginu. Vil ég því mælast til, að því verði hleypt gegnum þessa umr. fyrir það fyrsta, og þó að það komist héðan til Nd., þá er tækifæri til að láta það hægja á sér meðan rannsókn fer fram. En öll varanleg töf er bagaleg, því að það er meiningin að byrja að vinna í skjóli þessa frv. þegar í sumar.

Eins og þm. er kunnugt, er farið fram á einkaleyfi fyrir stuttan tíma til að flytja út hrafntinnu til múrhúðunar, aðeins einum manni og til 1940. Það fylgir þessari tilraun náttúrlega töluverður kostnaður. Það þarf að kaupa nokkuð dýrar vélar til að mylja þau efni, sem hér er um að ræða. Það er ekki til nokkurs hlutar að fara út í svona tilraunir, nema gera þær þegar frá byrjun alveg eins vel og mögulegt er, því að annars verkar tilraunin frekar til skaða fyrir sölumöguleika þessarar vöru. Er því varla von, að menn leggi út í þennan kostnað, nema þeim sé tryggður árangur a. m. k. um nokkurt árabil, ef hann getur orðið einhver. Þar að auki fylgja þessu venjulegir byrjunarörðugleikar. Það þarf að komast í verzlunarsambönd ytra, gera húsameisturum vöruna kunna, en þeir ráða oft og einatt, hvaða múrhúðun þeir nota.

Annars er það alls ekki lítils virði, ef hér er til virkilega betra efni til múrhúðunar en hægt er að fá annarsstaðar, a. m. k. í nánd. Mönnum kann að þykja undarlegt, ef þessu er svo varið og ekki hafi verið gerðar meiri tilraunir með það. En þetta stafar af því, að sementssteypa er ekki eins algengt byggingarefni víða erlendis og hér, og líklega er Ísland með fremstu löndum í notkun hennar, en stál og múrsteinn er notað víða úti um heim. Margir útlendir fagmenn í byggingarlist hafa dáðst að því, hve langt við erum komnir í að nota steinsteypu í húsin öll, loft og hvað sem er. Og það væri ekki í sjálfu sér neitt óeðlilegt við það, að Íslendingar væru nokkuð á undan í því að finna gott efni til múrhúðunar. Okkar tíðarfar gerir það að verkum, að hér hefir verið leitað betur að efni til múrhúðunar en flestar aðrar þjóðir gera, þar sem minna er undir komið, að múrhúðun sé vatnsheld og verulega varanleg.

Ég held það væri ákaflega mikils virði, ef hægt væri að koma þessu máli verulega áleiðis, og ég sé ekki, að það verði gert á handhægari hátt eða ódýrari fyrir landið en með því að veita einhverjum einstakling möguleika til að brjótast fram í þessu með sínu framtaki og þeim möguleikum, sem hann getur sjálfur skapað sér. Það eina, sem ég gat álitið vera á móti því að veita þetta stutta sérleyfi, var það, ef maðurinn, sem um það sækir, dygði ekki til starfsins og leyfið lægi ónýtt í höndum hans. Nú er ég persónulega ókunnur honum og hefi leitað mér upplýsinga. Er mér sagt, að hann sé líklegur til að vinna með dugnaði að þessu máli og til að reka það með þeim krafti, sem nauðsynlegt er.

Að lokum vil ég endurtaka ósk mína um það, að málið fái að halda áfram — upplýsinga má afla sér jafnframt —, svo að það geti helzt fengið afgreiðslu á þessum parti þingsins, ef ekkert mælir sérstaklega þar á móti.