29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (4516)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég álít, og vil strax taka það fram, að ástæðan til þess, að komið er með þessa hugmynd, er sú, að einn af starfsmönnum landsins, sem sé húsameistari ríkisins, er búinn að gera þá uppgötvun, sem mun reynast þýðingarmikil fyrir byggingarlistina. Húsameistarinn hefir byrjað þessa aðferð á þjóðleikhúsinu, og hefir hún unnið sér þar almenna viðurkenningu. Mér þykja líkindi til, að það mundi borga sig fyrir ríkið að fara á sama hátt með aðrar opinberar byggingar, t. d. landsbókasafnið, sem er illa útleikið. Mér finnst, að ekki ætti að reka mikið á eftir þessu máli, þar sem svo vill til, að sá, sem uppgötvunina gerði, er í þjónustu landsins. Ég skil ekki í því, hvers vegna n. hefir ekki leitað til þessa manns. Meðan gengið er framhjá manni þeim, sem gert hefir þessa uppgötvun fyrir landið, sem ef til vill gæti orðið því mikil tekjugrein, þá álít ég ekki rétt að afhenda þetta verðmæti í hendur ókunnugra manna, og þess vegna held ég fast við þá tillögu, að málið verði tekið út af dagskrá, því ég tel ósæmilegt að leita ekki upplýsinga hjá þeim manni, sem bezt veit um þetta.