01.04.1935
Efri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (4523)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég hefði viljað mælast til þess sem minni hl. fjhn., að máli þessu verði ekki hraðað svo, að það verði tekið fyrir nú á þessum fundi. Ég hefi átt tal um þetta frv. við húsameistara ríkisins, og telur hann mjög athugavert að veita þetta einkaleyfi einstökum manni að svo lítt athuguðu máli sem nú er, einkum vegna þess, að hann telur, að hér geti e. t. v. verið um óvenjulega mikið verðmæti að ræða, sem numið geti stórum fjárhæðum. Og meðan hér hefir ekki verið gerð nein fullnaðarrannsókn á þessu verðmæti, sem fundið er í raun og veru af þessum manni sem embættismanni ríkisins, og auglýst þannig og tekið í notkun, að einstakir menn hafa nú fengið áhuga fyrir málinu, þá virðist mér rétt, að Alþingi hrapi að engu og vænti, að hæstv. forseti gefi mér það tillit sem minni hl. í fjhn. að taka mál þetta ekki fyrir nú á þessum fundi.