09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í C-deild Alþingistíðinda. (4553)

125. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Jón Pálmason):

Eins og hv. þdm. muna, kom frá Ed. snemma á þessum þinghluta frv. til l. um breyt. á l. um lax- og silungsveiði. Það var ekki nema ein gr. og fór fram á, að fundir í veiðifélögum væru fulltrúafundir. Frv. var vísað til landbn., og hefir það fengið þar afgreiðslu, sem kemur í ljós á þskj. 686. Það er nú svo, að á síðasta þingi, 1934, flutti landbn. þessarar d. frv. til l. um breyt. á lax- og silungsveiðil., og náði það samþ. þessarar d., en var sent Ed. og dagaði þar uppi. Þetta frv. hefir ekki síðan verið tekið fyrir af Ed., en hefir í þessum brtt. verið tekið upp að svo miklu leyti, sem hægt var.

Laxveiðil. voru sett á Alþingi 1932. Hefir nú fengizt nokkur reynsla fyrir þeim, og hefir komið í ljós, að á l. eru nokkrir annmarkar, sem lagfæra þarf, ýms ákvæði, sem ekki eru nægilega skýr. Til þess að lagfæra þetta, hefir landbn. lagt fram breyt. þær, sem hér liggja fyrir.

Í gr. þeirri, sem n. ætlast til, að verði 1. gr., eru skilgreiningar á orðum, sem deilum hafa valdið víða um land. M. a. hefir mikið verið um það deilt, hvað skuli teljast til ósa, hvað skuli teljast vötn, hvað ár o. s. frv. N. hefir gert þá breyt., að í stað þess, að í l. er miðað við stórstraumsflóð og stórstraumsfjöru, þá skuli nú miða við smástraumsflóð og smástraumsfjöru.

Þá er atriði, sem valdið hefir nokkrum ágreiningi í n., sem sé það, að strika skuli úr gr. hugtakið „straumlína“, en setja í staðinn orðið „áll“. Venjulega er þægilegra að mæla dýpi en að ákveða straumlínu.

Þá er skilgreint orðið „kvísl“, og fer ég ekki frekar út í það. Líka eru skilgreind orðin „stöðuvötn“ og „straumvötn“. Þar hefir n. farið eftir leiðbeiningum Pálma Hannessonar.

Fyrir utan þetta eru ekki í breyt. n. mörg atriði, sem ekki voru í frv. því, er lagt var fyrir þessa d. í fyrra, auk 1. gr., sem hér er 8. gr. Þar er tekið fram, að ekki sé heimilt að hafa fastar veiðivélar, nema lögnin sé löggilt af hlutaðeigandi lögreglustjóra. Út af því hafa risið miklar deilur víða um land, hve langt út væri heimilt að hafa lagnir. Hefir þetta sprottið af mismunandi skilgreiningu á þeim hugtökum, sem ég hefi nefnt. Ætlazt er til, að nánari ákvæði um löggildingu lagnanna verði sett af landbrh. Þarf þá ekki um að villast, við hvað er átt hvert sinn, svo að það þurfi ekki að valda óánægju.

Viðvíkjandi breyt. þeim, sem lagt er til, að gerðar verði á 84. gr. h, er það að segja, að þær eru í samræmi við frv. það, er ég gat um áðan. Þar er ákveðið, að þeir eigi kost á skaðabótum, sem tapað hafa veiðiréttindum af því, að þeir hafa ekki getað notað sömu veiðiaðferðir og áður.

Út í þetta ætla ég ekki að fara nánar að öðru leyti en því að geta þess, að þeir þrír meðnm. mínir, sem skrifuðu undir með fyrirvara, munu gera grein fyrir, í hverju hann liggur, en ég hygg, að hann liggi í því, að þeir urðu mér og form. n. ekki sammála um að strika út orðið „straumlína“ og setja „áll“ í staðinn. — Það liggur frammi önnur brtt. á þskj. 702. en um hana skal ég ekki tala fyrr en hv. flm. hefir gert grein fyrir henni. Ég vænti, að hv. þdm. athugi till., sem liggja fyrir, og séu tilbúnir að taka afstöðu til þeirra í heild.