09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í C-deild Alþingistíðinda. (4554)

125. mál, lax- og silungsveiði

Páll Zóphóníasson:

Eins og hv. frsm. tók fram, hefi ég skrifað undir með fyrirvara. Það er sérstaklega eitt atriði, og þó reyndar tvö, sem ég er ekki samþykkur í brtt. — Fyrra atriðið er að setja „áll“ í staðinn fyrir „straumlína“. Straumlína er orð, sem ekki verður um deilt, ef til er tæki á staðnum til að mæla með strauminn. Áll er meira í munni alþýðu, en óljósara hugtak, og má oft deila um, hvar aðalállinn sé, eins og vötn falla hér á landi. Ég vil því halda orðinu straumlína, en ekki taka „áll“, því það er að fara frá hugtaki, sem hægt er að ákveða nákvæmlega, og yfir í hugtak, sem að vísu er meira í munni alþýðu, en alveg óákveðið. Þetta er sameiginlegur fyrirvari okkar allra, sem skrifuðum undir með fyrirvara.

Hitt atriðið í brtt., sem ég er ekki heldur samþykkur, er að minnka möskvastærðina. Ég tel það til hins verra að minnka möskvana frá því, sem nú er, og er því líka á móti þeirri till. Að öðru leyti er ég brtt. samþykkur, en hvort hinir tveir, sem skrifuðu undir með fyrirvara, eru það, skal ég láta ósagt. Það er eingöngu þetta tvennt, sem ég er ósamþykkur. En ég legg áherzlu á að halda orðinu straumlína. Það á að halda því, sem minnst er hægt að deila um, og um straumlínu verður ekki deilt, ef tæki eru til að ákveða hana, en um ál er hægt að deila óendanlega.