09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í C-deild Alþingistíðinda. (4559)

125. mál, lax- og silungsveiði

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Það er líklega hálfgerð synd að þreyta hv. þm. á lengri umr. En ég þarf að segja aðeins örfá orð við hv. þm. Borgf., til þess að leiðrétta tvö atriði í ræðu hans.

Það er misskilningur eða misminni hjá hv. þm., að frv. hafi í upphafi miðað við 1. sept. Frv. hafði 15. sept., en því var breytt í Ed. og tíminn færður aftur til 1. sept. En þetta skiptir ekki máli. Hitt skiptir meira máli, að menn, sem ofar búa, sjá ekki lax fyrr en hætt er að veiða neðar í ánum. Ég get um það borið, að menn, sem búa við Stóru-Laxá, sjá nú ekki lax nema hann sé svo snemma genginn, að hann sé kominn framhjá, þegar veiðivélarnar eru settar í árnar. Ég lét í ljós þá skoðun, að helzt ætti ekki að leyfa annað en stangarveiði, en meðan það er ekki gert, þykir mér nokkuð harðleikið að haga þessu svo, að engin branda veiðist í þveránum. Ef sú veiði veldur rýrnun á stofninum, gildir það sama um alla laxveiðina, engu síður þó neðar sé í ánni. En það er annað, sem ég get tekið undir, að í smáám er hættara við, að netaveiði gangi of nærri stofninum. Því ættu þeir, sem er þetta áhugamál og komið hafa auga á, hve miklar tekjur þjóðin getur af veiðiskap haft, að vinna að því, að ekki verði leyfð nema stangarveiði. En sú breyt. tekur nokkurn tíma, og því er ekki rétt að svipta einstaka menn veiðihlunnindum fyrr en hún er komin í kring. Ef ég ætti að ráða, mundi ekki standa á mér að fella úr l. aðrar veiðiaðferðir en stangarveiði.

Út af því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um, að löggjöfin væri óskýr og gæti valdið misskilningi fremur en áður var, vil ég segja, að það er ekki rétt. Síðan 1886, er gömlu l. voru sett, hefir margt breytzt. Og með nýju l. er flest skýrara ákveðið og ríkari skorður settar en áður tíðkaðist, sem leggja meiri hindrun á notkun ýmsra veiðitækja en áður var. Það leikur grunur á, að tæplega sé eðlilegt, ef fylgt væri settum veiðireglum, að lax skuli ekki veiðast uppi hjá Selfossi. Í sumar veiddist þar ekki meira allt sumarið en rúmlega eins og veiddist á einum degi í fyrra. Þetta sýnir, að ástandið hefir breytzt, og þessar nýju veiðiaðferðir eru varasamar.

Ég hygg, að æskilegast væri að hafa félagsveiði meðan veiðiaðferð er ekki breytt og eigi ekki að svipta einstaka menn hlunnindunum, sem þeir hafa notið, eða yfirleitt að láta sig nokkru skipta, hvaða meðferð þeir sæta, sem eru svo óheppnir að búa ofar við árnar.