14.12.1935
Neðri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (4569)

125. mál, lax- og silungsveiði

Magnús Torfason:

Því miður átti ég ekki kost á því að vera við 2. umr. þessa máls. Þótti mér það verra, því að þá hefði verið nægur tími til breyt. á þessu frv. og frekari athugunar, ef ég hefði getað komið með brtt. við þá umr. En við því verður ekki gert. Eins og menn vita, þá eru laxveiðil. afarmikill lagabaálkur og margþættur og erfiður viðfangs. Þau mega heita alveg ný löggjöf, sem sett var hér á Alþ. í stað laga frá 1887, en þau voru svo afarófullkomin, að það var fæst af því í þeim fram tekið, sem þarf í slíkum l. Það var gerður afarmikill undirbúningur að þeim l. af ýmsum laxveiðieigendum og málið var þætt lengi hér á þingi og loks eftir mikla mæðu komst á samkomulag um það. Þetta var ekki nema eðlilegt, að það gengi illa að setja l. um þetta efni. Það voru mörg sker, sem þurfti að synda framhjá. Þó að þetta hafi komizt í kring, þá var það sérstaklega erfitt að búa til ein l. um veiði í öllum ám á landinu, af því að munurinn á aðstæðum er svo geysimikill. Það getur átt við á einum stað, sem jafnvel er fráleitt á öðrum. Þessi l. voru því vitanlega, eins og þau voru samþ., nokkurskonar sáttalög eða sáttaákvæði milli þeirra einstöku hagsmuna, sem þar rákust á. — Nú er frá því að segja, að einmitt þau ákvæði, sem um ræðir í 1. gr. þessa frv., voru þau, sem erfiðast var að koma saman; og það var svo erfitt að koma þeim saman, að það varð að gefa yfirlýsingar um það úr ráðherrastóli, hvernig skilja ætti ýms ákvæði þessara l. Því er það með svona erfiðan lagabálk eins og hér er um að ræða, að það er engin von til, að hv. þm., hver um sig, geti sett sig inn í það, og að þeir verða að hafa laxal. við hendina og bera þau saman við þetta frv., og helzt að leita aðstoðar laxgengismanna um, hvað meint er með ákvæðum 1., og jafnvel leita í þingtíðindunum um það, hvernig ætlazt er til, að þau verði skilin. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel alveg óvíst, að menn rámi í, hver tilgangurinn er með þessum l., þ. e. a. s. þeim kafla, sem settur er inn í þessari hv. d. Til þess að skýra þetta lítið eitt, þá ætla ég að segja dálítið frá forsögu þessa máls. Þessar brtt. eru upprunnar í Árnessýslu út af ágreiningi um veiði í Ölfusá, og þá er rétt að byrja á því að lýsa, hvernig þarna er umhorfs. Neðri hluti árinnar, þegar kemur upp fyrir Óseyri, er afarbreiður, svo að talið er, að frá Kaldaðarnesbökkum út að Hamrendum sé míla vegar, og mun það víst áreiðanlega vera langbreiðasta fljót á landinu. Á þessu svæði var sama sem engin veiði þangað til nú fyrir nokkrum árum, að einn framfaramann á Eyrarbakka langaði til að vita, hvort ekki væri hægt að ná þar einhverri veiði í Eyrarbakkalandi, og til þess að hann gæti það, fékk hann leigð veiðiréttindin hjá Eyrarbakkahreppi, en Óseyri tilheyrir þeim hreppi. Hann fékkst við þessa veiði í tvö ár, en hún gekk ekki það vel, að hún gæti borið sig, meðfram af því, að hann hafði ekki afl til að koma upp þeim veiðivélum, sem með þurfti. Því var það, að hann leigði manni héðan úr Reykjavík réttindin það sem eftir var leigutímans, en rennur út næsta ár. Þessi maður setti þar upp allmiklar veiðivélar og veiddi sæmilega. Ég býst við, að hans veiði hafi oftast nær komizt upp í það að vera nálægt meðalveiði, þó að hún væri jafnan fyrir neðan Selfossveiðina, en þar í kring eru, svo sem kunnugt er, beztu veiðijarðir árinnar. Á móti þessum veiðivélum var ekkert haft, og menn veiddu á annan hátt eins og áður, og virtist heldur batna en versna veiði í ánni. Svo ber svo við í fyrra, að það þverr talsvert veiðin í ánni, svo að menn fá jafnvel ekki nema helming af því, sem þeir áður fengu — miklu færra að tölu til, en laxinn nokkuð stærri að meðaltali. Í fyrra komst veiðin svo upp undir 400 laxa í þessum veiðivélum, og svo kemur annað veiðileysisár nú í sumar, og þá fást upp undir 500 laxar í þessar veiðivélar. Og nú þegar veiðiþurrð er í ánni þetta ár líka, fór að aukast kurr í mönnum, og vilja þeir kenna þessum veiðivélum um. Ég fæ aldrei skilið það, að þegar veiðin var ekki meiri en þetta, þá hafi það getað verið henni að kenna, enda ýmsar getgátur um það, að það lægju blátt áfram eðlilegar ástæður til þessa, m. a. stórflóði um kennt, sem hafi þvælt seiðin burtu, og svo annað flóð, sem kom í ána og fór upp í hús á Selfossi. Það bendir til þess, að svo virðist, sem nokkrir árgangar af laxi séu gengnir til þurrðar í ánni, einir 4—5 árgangar, sem ekki sjást í ánni. Nú er þetta frv. komið fram og því er ætlað að rýra veiðina þarna niðri við ána. Nú veit ég ekki, hvort það muni vera rétt að gera slíkar ráðstafanir, og sérstakleg, þegar engin sannanleg ástæða væri til þess. Í því sambandi vil ég geta þess, að það er einmitt neðri hluti árinnar, sem er talsverð veiði í, og hið opinbera á talsvert þarna af veiðijörðum. Eyrarbakkahreppur á Óseyrarnes og Flóagafl. en ríkið á Arnarbælistorfuna, sem liggur þar að vestan og á mikið land þarna fram með ánni, svo að ég hélt, að það væri a. m. k. vel athugandi frá því sjónarmiði, hvort ætti að gera þetta. Eftir því, sem fróðir menn hafa sagt mér, er það tiltölulega lítið af laxi, sem fæst efst í ánni, en tilfellið er, að laxinn er ekki orðinn það góður, þegar hann er búinn að flækjast lengi í ánni, að hann sá útflutningshæfur. En einmitt þann lax, sem fæst í þessar veiðivélar, má senda til útflutnings, og það hefir verið gert; hann hefir verið sendur til Englands og nú síðast til Belgíu, og þótti ágæt útflutningsvara. Ég hefði því haldið, að það hefði verið rétt að láta þetta mál fá fulla athugun, en það myndi það ekki fá eins og nú er í pottinn búið. — Það er aðeins ein umr. eftir um málið í Ed., en þessi ákvæði komu inn í það hér í d. Að því er brtt., sem fram hefir komið, snertir, þá vil ég líka geta þess, að hún ber. ekki vott um sérstaklega mikla þekkingu á þessu máli. Ég á þar sérstaklega við síðustu brtt. á þskj. 793, sem segir, að aldrei megi leggja yfir straumlínu. Hvað þýðir nú þetta t. d. þarna á þessum stað? Það þýðir, að það verður aðeins einn höfuðáll vestan við Hraun, sem má leggja í. Af öllu því, sem fram hefir komið í þessu máli, sést, að það er ekki vert að hrapa að því. Það er margt, sem ég hefi við þetta frv. að athuga, en ég mun ekki þreyta menn á að gera það, eins og liðið er á þingtímann, en þó verð ég að víkja nokkuð að 2. tölul. 11. gr., um bæturnar. Sú grein er líka upp runnin í Árnessýslu. Það eru aðstæður þar, sem hafa gefið tilefni til þessara ákvæða. Eftir því sem laxgengismenn hafa sagt, þá er annaðhvort að leggja niður næstbeztu lögnina hjá Selfossi eða beztu lögnina í Hellnalandi. Nú skilja menn, að það er erfitt hér við að eiga og mjög hart fyrir hlutaðeigendur að verða af veiðiréttindum, sem hafa fylgt þessum jörðum alla tíð, en þó hefði mátt koma í veg fyrir þetta með öðru móti, — með því bara blátt áfram að setja lög, sem heimiluðu atvmrh., eftir till. veiðimálastjóra, að gera undanþágu í þessu efni. Mér finnst vel til fallið að gera þarna undanþágu, vegna þess að áin er svo breið á þessum stað og straumhörð. En sú leið hefir ekki verið farin, heldur hefir verið skellt hér inn till. um það, að ríkissjóður og sýslusjóður eigi að bæta þetta að jöfnu. Ég skal fúslega játa, að þetta er ekki nema eðlilegt, en það er eitt, sem ég vil biðja menn að athuga í þessu sambandi, og það er, að hér geta verið skaðabætur á ferðinni, sem myndu nema tugum þúsunda, og það er víst, að það verður aldrei hægt að meta þetta. Ef gengið er út frá þessu sem reglu, að meta skaðann svo hátt, að menn séu vissir um, að enginn einstaklingur verði fyrir halla, þá getur þetta numið talsverðri fjárhæð. Ég tel það ekki neitt mikið, þótt veiðiréttindi væru metin t. d. allt að 2000 kr. árlega. En þegar á að fara að borga þann höfuðstól, sem til þess svarar, þá getur það orðið allálitleg upphæð.

En þó er annað, sem er ennþá verra í þessari till., og það er það, að sýslusjóðnum er gert að greiða þetta. Ég vil ekki halda því fram, að það sé neitt óeðlilegt, að hann greiði þarna eitthvað, en því vil ég halda fram, að á meðan sýslusjóðunum er ekki séð fyrir sæmilegum tekjum mg hagur manna er yfirleitt svo, að þeir geta ekki staðið í skilum, þá sé ekki rétt að demba slíkri byrði á sýslusjóðina að óathuguðu máli. Ég verð að játa, að brtt. hv. 11. landsk. bætir þar nokkuð úr, en ég heyri, að n. er henni öndverð og vill ekki líta við henni. Því tel ég fyrir mitt leyti, að alls ekki sé gerlegt að fella slíka skyldu á sýslusjóðinn, og þess vegna mun ég ekki geta greitt þessu frv. atkv., hvað sem aðrir gera.

Ég hefi nú upplýst þetta mál frá minni hlið, og ég vil benda á það, að hér er um margar opinberar eignir að ræða og að allar horfur eru á, að ríkiseignum fjölgi þarna með ánni. Á það bendir fyllilega þessi nýja Síbería, sem hefir upp risið þarna í Flóanum.