17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í C-deild Alþingistíðinda. (4582)

125. mál, lax- og silungsveiði

Eiríkur Einarsson:

Ég vil bara slá því föstu, og vekja eftirtekt á því, að hv. þm. A.-Húnv. svaraði því í rauninni engu, sem ég lagði aðaláherzluna á, ákvæðin í 11. gr. frv., og mótmælti, að þeim beri aðeins bætur, sem hafa orðið fyrir skaða eða misst eign sína með öllu, en útiloka þá, sem hafa misst að nokkru leyti eign sína, og dæminu, sem ég tók til skýringar, vék hann alls ekki að. Ég skil alveg, hvers vegna — því að það er hentugast fyrir hann að gera það ekki. Það, sem bæði hv. þm. A.-Húnv. og hæstv. forseti tóku fram og átti víst að ganga í augu dm., var það, að þegar hagsmunir almennings og einstaklinga rækjust á, þá ættu einstaklingshagsmunirnir að víkja. Í 11. gr. segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefir einhver veiðieigandi, sá er veiði átti áður en lög þessi komu til framkvæmda, misst hana með öllu fyrir þá sök, að ákvæði laganna fyrirmuna honum að nota þá veiðiaðferð, er hann áður mátti einni við koma, og skal hann þá eiga kröfu til skaðabóta“. Eftir ákvæðum þessarar gr. frv. getur sá misst meira, sem rýrnar hjá heldur en sá, sem missir réttinn með öllu. Í 63. gr. stjskr. segir, að ekki megi taka af mönnum eign, nema almenningsþörf krefjist þess, og þá eigi að bæta mönnum það fullkomlega. Ég veit ekki, hvernig þeir, sem hér eru til andmæla, vilja skýra þetta ákvæði öðruvísi en svo, að laxveiðirétturinn heyri fullkomlega undir ákvæði stjskr. um eignarnám, er um ákveðna, verulega skerðingu þessara eignargæða er að ræða. Þetta vil ég endurtaka, því að það er meginatriði, þeim til athugunar. er móti mæla.