17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í C-deild Alþingistíðinda. (4584)

125. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég skal ekki verða langorður. En það var um þessa deilu um straumlínuna, sem ég vildi segja nokkur orð. Það hefir gengið svo um þessi l., að orðið straumlína hefir verið ásteytingarsteinn víðsvegar um land, og mun verða svo framvegis. Þess vegna vildum við hv. þm. Mýr. nema þetta orð úr lögunum.

Það var eitt atriði, sem ekki kom fram í ræðu hæstv. forseta, en er talsvert mikilsvert atriði, sem sé um deilingu veiðitímans. N. þykir nokkuð langt gengið að færa veiðitímann fram til 15. sept., og vill þess vegna gera þá miðlunartill., að hann verði til 5. sept. Það virðist hættulegast að láta veiðina ganga langt fram á haustið, enda fiskurinn þá verðminni en ella.

Þá verð ég enn að segja nokkur orð til að svara hv. 11. landsk. Hann er ákaflega espur, enda sýna allar hans ræður, að hann skilur ekki það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða. Í gr. þeirri, sem ræðir um skaðabæturnar í þessum l., er ákveðið, að þeir einir skuli fá skaðabætur, sem missa eða misst hafa veiðina að öllu vegna hinna vondu veiðiaðferða, sem þeir máttu áður nota. Í hinu tilfellinu, og það er almennast, hafa l. þau áhrif, að veiðin sé takmörkuð þannig, að menn megi leggja styttra út í vötn og ósa en áður, og að friðunartíminn verður að vera lengri en áður. Í öllum þessum tilfellum er það svo, að veiðin rýrnar mikið hjá þeim mönnum, sem neðar búa við árnar. Ég þekki þetta vel, því að ég er einn af þeim mönnum, sem verð fyrir persónulegu tjóni af l., og ef ég ætti að fara að mæla fyrir mínum eigin hag, þá myndi ég fylgja till. hv. 11. landsk., en ég sé, að það er ómögulegt að framkvæma þær. Ef sýslusjóðir ættu að fara að greiða skaðabætur öllum þeim mönnum, sem veiði væri takmörkuð hjá, þá myndi, eins og ég hefi áður sagt, verða út úr því óendanlegt málaþras. — Ég vænti, að þetta nægi til þess, að hv. fim. þessara till. skilji, hvað hér er um að ræða. Það ætti hverjum þeim, sem nokkur kynni hefir af veiði, að vera augljóst mál.