21.10.1935
Efri deild: 49. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í C-deild Alþingistíðinda. (4591)

128. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er fram komið vegna kvartana, sem hafa verið gerðar af eigendum og umráðamönnum varplanda yfir því tjóni, sem svartbakurinn hefir gert á varplöndum þeirra. Svartbakurinn hefir verið svo aðgangsharður, að nú lítur helzt út fyrir, að æðarfuglinn sé nær að eyðast, eða a. m. k. farið að fækka mjög. Hefir fyrir löngu borið á þessu og ágerzt ár frá ári, svo að nú má heita, að vargur þessi gleypi hvern unga, sem úr eggi kemur, jafnóðum og hann kemst til sjávar. Lætur hann sér ekki nægja með þetta, heldur er nú farið að bera á því, að hann ásæki fullorðna æðarfuglinn líka. Svartbakurinn hefir þá aðferð, að hann heggur ofan í bakið á æðarfuglinum þangað til æðarfuglinn er neyddur til að fara í kaf, en þá syndir svartbakurinn yfir honum, og ræðst á hann í hvert skipti sem hann leitar yfirborðsins, þangað til fuglinn er orðinn örþreyttur og verður að koma upp, og þá drepur svartbakurinn hann.

Sumstaðar hafa áður fyrri verið gerðar varnarráðstafanir gegn þessum ófögnuði. T. d. stofnuðu Breiðfirðingar „vargafélag“, þar sem á varpeigendur var lagður árlegur skattur, nokkurskonar dúnskattur, sem varið var til verðlauna fyrir að drepa varg þennan. Hafa því skotmenn fengið nokkrar tekjur af þessari veiði. En nú er viðhorfið annað, því að nú er ekki jafnmikið af skotmönnum og áður var, og því hefir verið í frv. þessu, er hér liggur fyrir, farið inn á aðra leið en áður, sem sé að eitra fyrir varginn. Ég játa, að það getur verið kvalafullur dauðdagi fyrir fuglinn, en þó ekkert hjá því, þegar skotið er á fugla með haglabyssu og þeir særðir meira eða minna, en ekki bráðdrepnir. Maður rekur sig oft á fugla, sem fyrir slíku hafa orðið, með brotinn fót og lamaðan væng buslandi í fjörumálinu. En aftur á móti tekur eitrunin af á skömmum tíma, a. m. k. oftast nær. Ég veit, að fleiri fuglar munn líka verða fyrir eitruninni, en það eru vargfuglar, sem einnig mætti eyða, t. d. bæði grámáfar og hrafnar.

Það er eitt í frv., sem þyrfti að taka fram, en er ekki tekið fram, til þess að allrar varúðar sé gætt. Það er, að auglýsa skuli á einhverjum stað í hreppnum jafnskjótt og eitrað er, svo að menn geti varað sig á því og gætt þess, að hundar fari ekki á þær slóðir, sem eitrað er, og eins að hirða ekki þá fugla, sem finnast dauðir eða dauðvona. Vona ég, að nefnd sú, er þetta mál fær til meðferðar, taki þetta atriði til athugunar.

Eins og tekið er fram í grg. fyrir frv., er það ekki eingöngu vegna æðarvarpa, sem nauðsynlegt er að eyða þessum vargi, heldur er einnig hætta á, eftir því sem honum fjölgar, að hann leggist á unglömb. Einnig eyðir hann mjög fiski í ferskum vötnum, bæði silungi og laxi. Það eru því tveir atvinnuvegir, sem þarf að vernda gegn vargi þessum, annarsvegar dúnframleiðslan og að hinu leytinu lax- og silungsveiðin. Um hvorartveggja þessar afurðir er það að segja, að engum takmörkum er bundið um sölu á þeim, og því ekki ástæða til annars en að hlúa sem bezt að framleiðslu þessarar vöru.

Til dæmis um það, hve erfitt er að eyða þessum vargfuglum með skoti, má geta þess, að þeir eru það hyggnir, að þegar búið er að skjóta á þá einusinni án þess að þeir séu drepnir, sjá þeir, eftir því sem ýmsar skyttur segja, hvort maður gengur um með byssu eða ekki, og gefa ekki færi, sé maðurinn með byssu.

Tel ég mig svo ekki þurfa að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil óska eftir því, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til hv. allshn.