04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í C-deild Alþingistíðinda. (4594)

128. mál, eyðing svartbaks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég get verið hv. allshn. þakklátur fyrir afgreiðslu hennar á málinu. Sumar af brtt. þeim, sem gerðar hafa verið, tel ég til bóta; sumar þeirra virðast einungis hafa verið gerðar til þess að frv. yrði áferðarfegurra í augum andstæðinga þess, og hafa þær því ekki efnislega þýðingu. Svo getur verið um einstakar till. að ræða, sem nokkur vafi getur leikið á um, hvort muni stefna til bóta eða ekki. Tel ég þær þó ekki til stórskemmda.

Hv. frsm. n. gat þess, að í frv. væri gert ráð fyrir því, að eitrun yrði notuð einhliða sem útrýmingaraðferð. Þetta er ekki rétt, því að í 1. gr. er heimilað, að varginum sé útrýmt með skotum eða hverri annari veiðiaðferð. Ég vil taka það fram, að það var ekki ætlun mín, að eitrun yrði beitt nema þar, sem óhjákvæmilegt er að gera það til þess að eyða varginum. Ég geri ekki ráð fyrir, að ríkissjóði verði íþyngt um of með þessum lögum, þótt frv. geri ráð fyrir, að notuð verði eiturlyf, sem lyfjaverzlun ríkisins lætur af hendi með innkaupsverði. Í brtt. er talað um kostnaðarverð. Það er heldur til þess verra. því að þar er flutningskostnaður a. m. k. innifalinn. Það er aðallega þessi breyt., sem mér virðist heldur óhagstæð fyrir þá, sem eyða fuglinum með eitri. Hvað verðlaunin til skotmanna viðvíkur, verður varla um háa upphæð að ræða, því að gert er ráð fyrir 10 aura hámarksupphæð úr ríkissjóði fyrir hvern skotinn svartbak. Það getur verið álitamál, hvort hreppstjóri eða hreppsnefnd eigi að benda á eitrunarmenn eða skyttur. Mér finnst að mörgu leyti rétt, að hér sé farin lögregluleiðin í þessu máli, en svo ber og að lita á hitt, að ef sveitarsjóður greiðir að nokkru leyti kaup og verðlaun skyttna, þá er ekki ósanngjarnt, að hreppsnefndarmenn fái að hafa íhlutunarrétt til þess að benda á mennina. Sú brtt. við 4. gr. frv., að orðin „í sínum löndum eða annara“ falli burt, virðist ekki fela í sér efnisbreyt. Mér skilst, að þessi breyt. sé gerð til þess að gera frv. áferðarfegurra, en ég hygg, að frv. haldi meiningu sinni fyrir því, svo að ég get fellt mig við þessa breytingu.