14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í C-deild Alþingistíðinda. (4609)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Þorsteinn Þorsteinsson:

Mér virðist í frv. þessu, sem hér er til umr., ekki vera gerð rækilega grein fyrir því, hvað þar er eiginlega meint með orðinu vopn. En ég geri ráð fyrir, þó að í daglegu tali séu t. d. haglabyssur, sem notaðar eru til rjúpnaveiða, ekki kallaðar vopn, þá muni þær heyra hér undir. Og í 2. gr. frv. er ákveðið, að því aðeins skuli heimild veitt mönnum til þess að mega hafa vopn í vörzlum sínum, að skilríki séu sýnd fyrir því, að slíkt sé nauðsynlegt vegna atvinnu manna.

Mér þykir þetta of mjög takmarkað. Það hefir tíðkazt, bæði áður fyrr og nú, að menn hafa farið út í lönd sín og skotið nokkrar rjúpur sér til gagns, þó að það hafi verið langt frá að vera beinlínis atvinna þeirra. Þess vegna virðist mér þurfa að hafa þetta atriði rýmra, þannig að inn í þessa 2. gr. á eftir orðunum „að þeim sé það komi: „gagnlegt, eða“. Mönnum getur verið margt gagnlegt, sem þeim er þó ekki bráðnauðsynlegt. — Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skrifi. brtt. um þetta.