15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í C-deild Alþingistíðinda. (4617)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi segja eitt orð út af þessu frv. út frá hagsmunum míns kjördæmis og hins næsta, nefnil. Eyjafjarðarsýslu. Ég hefi heyrt frá hv. 1. þm. Reykv. og öðrum lærðum mönnum mikinn efa um það, hvort nokkur ástæða sé til að hafa eftirlit með skotvopnum. Ég fer ekki út í þá hlið, sem mest hefir nú verið deilt um og snýr að hernaðinum, en halla mér aðeins að því, sem hv. þm. vék að í sinni fyrstu ræðu og við þekkjum flestir, að byssa hefir víðast verið til á heimilum. En síðan mótorbátarnir komu og byssurnar hafa haldizt við hjá hverjum dreng, hefir æðarvarpið ekki haldizt við. Það er staðreynd, að í öllum varplöndum við Eyjafjörð — og auðvitað annarsstaðar, þó að ég þekki þar ekki til — hefir æðarvarpið stöðugt farið minnkandi, og er nú svo komið, að það er ekki nema svipur hjá sjón.

Af hverju stafar nú þetta? Jú, það stafar af því, að æðarfuglinn er drepinn af farandmönnum, sem koma t. d. frá Akureyri og geta á svipstundu farið um allan fjörðinn og borið sig eftir fuglinum hvar sem hann er. Ég álít, að það eigi að vera hæfilega mikið til af byssum, eins og mér skilst, að við séum sammála um, hv. 1. þm. Reykv. og ég. Það er ákaflega auðvelt t. d. fyrir lögregluna á Akureyri að vita, hvaða menn það eru þar, sem stunda veiðar með fuglabyssum sem skynsamlega atvinnu, eða hverjir eru líklegir til að vera á óeðlilegum veiðum eftir æðarfugli. Ég greiði því atkv. með þessu frv.