15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í C-deild Alþingistíðinda. (4619)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Rang. hefir nú gengið inn á í höfuðatriðum, að það muni vera nokkur nauðsyn að setja einhver ákvæði um þetta, sem frv. fjallar um. (PM: Ég sagði ekki annað en það, að það væri ekki alveg ástæðulaust). Mig furðar ekkert á því, því að vitanlega kemur ekki til mála, að ekki séu einhverjar reglur um þetta hér eins og annarsstaðar. En það er rétt hjá honum, að höfuðtilgangur frv. er að fyrirbyggja, að unglingar og óvitar og misindismenn þjóðfélagsins, hvers kyns sem eru, geti haft vopn eftir því sem þeim þóknast. Að öðru leyti hafa aðfinnslur hv. þm. við frv. við talsverð rök að styðjast. Frv. var í upphafi þannig úr garði gert, að 2. gr. var ekki í því, en henni var bætt inn í siðar til þyngingar á ákvæðum 1. gr. Það er þess vegna rétt hjá hv. þm., að það sé eðlilegt, að 2. gr. væri dálítið öðruvísi en hún er. Það liggur hér fyrir brtt. á þskj. 552, og tel ég rétt, að hún verði samþ. Hún nær alveg því, sem hv. 2. þm. Rang. er að óska eftir að verði tekið inn í frv. Orðið „gagnlegt“ í brtt. í sambandi við orðið „aðalregla“ í frv. verður að álítast nægilega rúmt, og ég mæli með því, að þessi brtt. frá hv. þm. Dal. verði samþ., og hljóðar þá greinin á þá leið, að það sé aðalregla að afhenda ekki öðrum skotvopn en þeim, sem sé það gagnlegt eða nauðsynlegt vegna atvinnu sinnar. Annars er svo hægt að athuga það nánar fyrir 3. umr., ef þetta þykir ekki nógu skýrt. Aðaltilgangurinn með frv. var sá, sem ég gat um áðan, og aðalatriðið er, hvort menn geta orðið sammála um, að þessar reglur skuli settar. Um formsatriðin er svo alltaf hægt að koma sér saman, eins og t. d. það, að í 2. gr. sé haft orðið skotvopn heldur en vopn. Ef til vill er það eðlilegra og betur í samræmi við 1. gr., en þetta ósamræmi stafar af því, að 2. gr. var sett inn á eftir, og það er hægt að laga og þarf ekki að verða þrándur í götu frv.