21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í C-deild Alþingistíðinda. (4625)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. flytur brtt. við frv., á þskj. 590, sem eru í samræmi við þær aths., er fram komu við 2. umr. Það er ekki efnisbreyt., heldur miða að því að gera lögin skýrari. Brtt. eru svo ljósar, að ekki þarf að skýra þær.

Um brtt. hv. þm. N.-Ísf. er það að segja, að öll n. var sammála um að hallast ekki að þeim. Þó tala ég ekki gegn þeim hér í umboði nefndarinnar. — Að því er snertir þau ummæli hv. þm. N.-Ísf., að hann hafi enn ekki heyrt talað um tilefni þessa frv., þá verð ég að segja það, að mér virtist hæstv. forsrh. gera fulla grein fyrir frv. við 2. umr. Ég skal náttúrlega ekkert segja um það, hvort hv. þm. hafi þá verið í d. En hvað viðvíkur þessum brtt., þá tel ég, að þær séu allt annars efnis heldur en frv., a. m. k. að sumu leyti, og að svo miklu leyti sem þær geta talizt sama efnis, nái þær alls ekki tilgangi sinum. Ég álít fyrri hluta 1. brtt. hv. þm. vera allt annars efnis en frv., þar sem hann vill heimila dómsmrh. að banna með reglugerð innflutning á hverskonar hernaðartækjum. Það var skýrt tekið fram við 2. umr. málsins, að þetta er ekki tilgangur frv., heldur eru það sérstakar tegundir, sem má nota til hernaðartækja, sem meiningin er að banna. En hvað síðari málsl. 1. brtt. snertir, sem er sama efnis og frv., sem sé að banna sölu almennra skotvopna til þeirra, sem yngri eru en 18 ára, þá virtist mér hv. þm. sanna með ræðu sinni, að þetta ákvæði væri alveg tilgangslaust, því ef hv. þm. trúir því, að mikil hætta sé á, að farið verði í kringum þetta frv., ef að l. verður, þá er enginn vafi á því, að ennþá hættara er við því, að farið væri kringum þetta ákvæði, því þó unglingar innan 18 ára aldurs hafi ekki leyfi til að kaupa skotvopn, þá geta þeir borið þau, því nógir fást til að kaupa þau. Ef það annars er tilfellið, sem hv. þm. trúir, að allar ráðstafanir, sem fela í sér bann, verði til þess að hvetja menn til þess að brjóta bannið, þá hlýtur rökrétt afleiðing af þeirri till. hv. þm. um að banna innflutning á hernaðartækjum að verða sú, að farið verður að flytja inn hernaðartæki. En ég held, að þetta sé á misskilningi byggt hjá hv. þm. Ég veit ekki betur en að við séum daglega að setja einhverjar skorður, og ekki værum við að gera það, ef við hefðum þá trú, að með því værum við að ala upp hvötina í mönnum til þess að fara í kringum l. Ég álít, að við Íslendingar séum það þroskaðir, að hægt sé að setja okkur skorður með I. En það, sem ég vil leggja aðaláherzluna á, er það, að með brtt. hv. þm. eru alveg að engu gerðar þær tilraunir, sem frv. ætlast til, að gerðar verði til þess að koma í veg fyrir, að bæði óvitar og misjafnlega áreiðanlegir menn fari með skotvopn. Það er þungamiðja frv. Við þekkjum þess fjöldamörg dæmi úr daglega lífinu, að unglingar, sem farið hafa með skotvopn, hafi hlotið slys af. En brtt. hv. þm. bætir þar ekkert um, því ég legg ekkert upp úr því, þó bannað sé að selja unglingum innan 18 ára aldurs skotfæri. Það er ekki neitt verið að fara í kringum l., þó að maður kaupi byssu og láti svo son sinn 12—14 ára gamlan fara með hana. En meiningin með l. er sú, að reyna að girða fyrir það, að þessi skotvopn, sem fram eru tekin í frv., verði notuð ógætilega að óþörfu. Auðvitað getur það alltaf komið fyrir, að slys hljótist af skotvopni, sem er nauðsynlegt, en það ætti að vera hægt að draga mikið úr þeirri ógætni, sem nú á sér stað með skotvopn, ef frv. verður að l. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál frekar.