01.11.1935
Efri deild: 58. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (4648)

147. mál, atvinna við siglingar á íslenzkum skipum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Þetta frv., sem sjútvn. hefir flutt fyrir tilmæli hæstv. atvmrh., er samið af n., sem hæstv. ráðh. kvaddi til að semja þennan lagabálk.

Þetta frv. er, eins og hv. þdm. sjá, allmikill bálkur og fjallar um margvísleg efni. Sé ég ekki ástæðu til að flytja langa ræðu um málið nú, þar sem grg. frv. skýrir það líka allverulega. — Tilefni frv. er það, að á fyrri hluta þessa þings var samþ. till. um að samræma l. um þessi efni meira en áður hefir verið gert og bæta um leið úr þeim agnúum, sem hafa þótt koma fram á þeirri löggjöf. Eins og kunnugt er, hafa þessi l. verið meira og minna í smápörtum, en hér eru þau öll sameinuð í einn bálk, sem á að ná yfir alla yfirmenn á smærri sem stærri skipum, og um efni frv. er svo yfirleitt það að segja, að þar er nokkuð hert á þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra manna, sem ætla að gera farmennsku að lífsstarfi sínu, einkum að því er verklega námið snertir. T. d. er heimtaður lengri siglingatími af þeim, sem ætla að læra stýrimannafræði, og af þeim, sem ætla sér að stunda vélgæzlu, er heimtað meira verklegt nám svo sem meiri smiðakunnátta. Ég hygg, að þessi stefna frv. sé í fullu samræmi við þær skoðanir, sem fram hafa komið á Alþingi undanfarið og nú eru ríkjandi, að æskilegt sé, að skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar á skipum séu sem allra bezt undirbúnir til þess að stjórna skipunum. Þeir hafa yfirleitt mjög ábyrgðarmiklum störfum að gegna. Þessari reglu er yfirleitt fylgt í frv.

Þá skal ég geta þess, að það, sem í raun og veru hefir ýtt þessu frv. á stað, mun vera þáltill. sú, sem samþ. var á fyrri hluta þessa þings í fyrra vetur, um að veita þeim mönnum aukin réttindi, sem tekið hafa smáskipapróf. Í frv. er reynt að fara miðlunarleið í þessu efni að nokkru leyti og komast framhjá því spursmáli, sem valdið hefir deilum. Réttur þeirra manna, sem hafa smáskipapróf og mega nú fara með 60 rúmlesta skip, er aukinn samkv. frv., þannig að þeim verði heimilt að fara með 100 rúmlesta skip, en þó með því skilyrði, að þeir hafi hlotið nauðsynlega æfingu við stjórn smærri skipa, undir 60 rúmlestum; ennfremur er ætlazt til, að þeir bæti við hina bóklegu þekkingu sína í siglingafræði og sjófræði. Um það verða sett nánari ákvæði í öðru frv., sem væntanlega verður flutt hér í þessari hv. d.

Þá má í öðru lagi benda á annað atriði, sem hratt þessu frv. á stað; en það er ágreiningur sá, sem verið hefir um það, hvort ætti að auka réttindi þeirra vélstjóra, sem nú mega aðeins fara með minni mótorvélar, eða ekki. Ég hygg, að reynslan hafi einnig sýnt það, að heppilegast sé að brúa þennan ágreining, og að því er stefnt með þessu frv. Í frv. er dregin skýr merkjalina á milli hinna tveggja vélategunda, eimvéla og mótorvéla, því gert er ráð fyrir, að þeir einir megi fara með hvora tegundina fyrir sig, sem fengið hafa nauðsynlega æfingu við þesskonar vélar, þó prófið sé hið sama fyrir báðar tegundir hinna stærri véla. Að vísu eru gerðar meiri kröfur um bóklega þekkingu til þeirra, sem eiga að stjórna mótorvélum, og kemur það einnig fram í frv., sem síðar verður flutt um vélstjóraskólann.

Sjútvn. hefir ekki enn unnizt tími til að fara ýtarlega yfir frv. og bera það saman við eldri lög um sama efni. Nm. munu hafa lesið það hver fyrir sig, en ekki tekið það til sameiginlegs álits. Þess vegna vil ég leyfa mér að beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann taki það ekki á dagskrá til 2. umr., nema n. hafi áður gefizt kostur nú að athuga það og bera fram brtt. við það, ef hún telur þess þörf. Enda ætti að vera hægt að afgr. það á þessu þingi, þó að n. fái ráðrúm til að gagnrýna það.

Ennfremur má búast við því, að ýmsir menn utanþings óski eftir að fá tækifæri til að koma á framfæri brtt. við þetta frv., sem sjálfsagt er að athuga og mætti væntanlega taka til greina. Þetta styður allt að því, að ekki má hraða frv. um of á þessu stigi. Málið er sérfræðilegs efnis, að kalla má, og ýmsir þm. hafa vitanlega ekki lagt sig fram um að kynnast þessum málum, sem frv. fjallar um. En það er undirbúið og samið af mönnum, sem allir höfðu nokkra sérkunnáttu í þessum efnum, og þeir leituðu auk þess aðstoðar annara sérfróðra manna. Ég vænti því, að þessi lög verði að lokum þannig afgr., að þau komi til með að brúa þann ágreining, sem mjög hefir bólað á í þessum málum að undanförnu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv., en vænti, að því verði vísað til 2. umr. og sjútvn. til fyllri athugunar, og að það verði ekki tekið á dagskrá nema í samráði við form. sjútvn.