25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigfús Jónsson):

Fjmrh. hefir haft þetta frv. til athugunar og leggur til, að það verði samþ. óbreytt að öðru leyti en því, að á eftir 1. gr. frv. komi ný grein, sem er till. um viðauka við 36. gr. tekju- og eignarskattslaganna frá síðasta þingi. Þessi brtt. er flutt eftir ósk skattstjórans í Rvík, og aðalástæðan, sem hann færir fram fyrir þessari till., er sú, að breytingin feli í sér svo mikinn vinnusparnað fyrir skattstofuna, ef ekki þurfi að hafa skattskrá þá, sem frammi skal liggja, svo margbrotna sem í l. er ákveðið. Ég vil nú leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp úr bréfi skattstjórans, sem fylgdi brtt., þær ástæður, sem hann færir fram:

„Í Reykjavík eru nú um 13. þús. skattgreiðendur, auk þess fjölda framteljenda, er eigi ná skatti, en í hinum kaupstöðunum munu þeir mest vera um 1000, enda er Reykjavík mörkuð sérstaða í skattalögunum að ýmsu leyti. Þegar síðasta þing hafði skattalögin til meðferðar, var mér eigi kunnugt um, hversu umfangsmikið og tafsamt verk það er að gera skattaskrána hér úr garði, og lét ég því afskiptalaust, þó sama væri látið gilda um Reykjavík og önnur skattumdæmi að því er fyrirkomulag skattskrár snertir. Eftir nánari athugun tel ég, að ekki verði hjá því komizt að setja sérákvæði fyrir Reykjavík um þetta atriði.

Á þeirri skattskrá, sem hér er lögð fram, hefir verið tilgreint (auk nafns, stöðu og heimilisfangs gjaldanda) tekjuskattur, eignarskattur og skattupphæðin samtals. Er ljóst, hvílík vinnuaukning það er, ef skattskráin á auk þess að innihalda: brúttótekjur, tekjufrádrátt, persónufrádrátt og skattskyldar eignir hjá 13 þús. gjaldendum. Myndi það margfalda vinnu þá, sem fer í vélritun, samanburð og allan frágang skrárinnar. Það eykur og á fyrirhöfnina, að framtöl eru að berast skattstofunni þar til í apríl, og fjöldi af upplýsingum og leiðbeiningum í sambandi við rannsókn framtala kemur fram alveg þar til skráin kemur út. Þarf því iðulega að bæta inn í skrána og breyta henni, og hjá þessu verður ekki komizt. Allt þetta yrði miklu erfiðara víðfangs, ef skráin er eins og lögin gera ráð fyrir. Yrði þá að auka mjög við mannahald skattstofunnar, ellegar skráin gæti ekki komið út fyrr en 3 til 4 vikum seinna en lögákveðið er.

Ég tel ekki nauðsynlegt, að hin framlagða skattskrá hér í Reykjavík þurfi að innihalda fleira en verið hefir, vegna þess, að í innbundnum spjaldskrám (lausblaðabókum), sem hér eru færðar fyrir alla framteljendur, og er hin upphaflega skattskrá, eru færðir allir þeir liðir, sem lögin ákveða, að skattskráin skuli innihalda. Er þessi spjaldskrá einnig til afnota fyrir yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd, og hefir því verið gerð sú undantekning með skattstofuna, að skattskráin hefir ekki verið færð á þau skattaskrárform, sem stjórnarráðið hefir útbúið fyrir skattanefndir.

Jafnframt hinni framlögðu skrá er að vísu gerð önnur skattskrá, sem hefir að innihalda flest þau atriði, sem 36. gr. laganna ákveður, en þessi skrá er að jafnaði ekki fullbúin fyrr en seint á sumri hverju, og er hún einkum gerð vegna hagstofunnar“.

Þetta eru þá höfuðástæðurnar fyrir því, að skattstjórinn í Rvík óskar eftir því, að skattskránni þar sé breytt eða ákv. um hana í l. frá síðasta þingi þannig, að hún verði ekki eins margliðuð og þar er gert ráð fyrir, en að niður verði felldar brúttótekjur, tekjufrádráttur, persónufrádráttur og skattskyldar eignir, m. ö. o., að tilgreindir verði aðeins þeir liðir, sem hingað til hafa verið taldir, sem eru tekjuskattur, eignarskattur og skattur samtals.

Eins og ég hefi áður sagt, fellst fjhn., þ. e. a. s. meiri hl. hennar, á þessa brtt. og leggur til, að hún verði samþ.