08.11.1935
Efri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í C-deild Alþingistíðinda. (4657)

162. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Samkv. þáltill., sem samþ. var á síðasta þingi, var sett sérstök n. til þess að semja frv. til laga um atvinnu við vélgæzlu og atvinnu við siglingar. Nefndina skipuðu Friðrik Ólafsson skipherra, Þorsteinn Loftsson vélfræðingur, og Sigurjón Á. Ólafsson alþm. Í beinu framhaldi af þessari löggjöf, ef hún verður að lögum, er það, að gerð er töluverð breyt. á þeim skólum, sem búa menn undir þessi störf, stýrimannaskólanum og vélstjóraskólanum. Þessum sömu mönnum hefir líka verið falið að fara yfir gildandi lög í þessu efni og gera nauðsynlegar breyt. á þeim. Þetta frv., sem hér er lagt fram um stýrimannaskólann í Reykjavík, er samið af þessum mönnum og flutt af hv. sjútvn. eftir tilmælum mínum. Ég skal ekki fara út í efni frv. Því fylgir glögg grg., sem sýnir þær breyt., sem um er að ræða. Ég vil mælast til þess, að n. taki frv. áfram til athugunar eftir þessa umr., áður en það kemur til 2. umr.