01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (4677)

22. mál, landhelgisgæsla

Sigurjón Á. Ólafsson [óyfirl.]:

Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu málsins, því að með nál. sínu hefir hún viðurkennt tilefni þessarar till. Ég vil á engan hátt deila við hv. n. um það, hvernig þessu skuli hagað, þó ég hinsvegar sjái ýmiskonar annmarka á því, að líklegt sé, að tilhögunin í þessu efni verði eins rækilega framkvæmd og ella hefði getað orðið, ef valdir hefðu verið menn til þeirrar starfsemi, sem hér um ræðir, er ekki hefðu verið hlaðnir störfum hjá ríkinu. Eins og bent hefir verið á, er hér um mjög þýðingarmikið verkefni að ræða, sem þarf að skoða sem grandgæfilegast niður í kjölinn. En það getur verið álitamál, hvort þeir menn eiga að gera till. í þessu máli, sem eiga sjálfir að veita þeim framkvæmdum, sem hér um ræðir, forstöðu, því að það er jafnan svo, að hverjum þykir sinn fugl fagur, og þessir menn eru kannske ekki eins hugkvæmnir með nýbreytni og aðrir ef til vill gætu verið. T. d. í sambandi við skipaeftirlitið vil ég benda á það, að sú gagnrýni, sem þar á sér stað, gæti ef til vill — eins og ég lauslega minntist á við fyrri umr. till. — frekar orðið til verulegra umbóta í þessu efni, ef hún kæmi annarsstaðar frá en frá þeim sem hafa framkvæmd verksins með höndum. En þó ágalli sé á afgreiðslu till. í mínum augum, þá tel ég þó mikið unnið við það, að málið verði tekið til rannsóknar, og eins og ég hefi þegar tekið fram, er ég hv. n. þakklátur fyrir skilning hennar á því, sem hér þarf að gera. Eins og hv. frsm. n. benti á, geri ég ráð fyrir, að n. verði undir ýmsum kringumstæðum að leita sér ýmiskonar aðstoðar í störfum sínum, og að sjálfsögðu ber henni að leita í ýmsum atriðum til þeirrar stéttar, sem málið mest varðar, og vil ég í þessu sambandi benda á sjómannastéttina, hvort sem það eru hásetar, skipstjórar eða vélamenn. Að sjálfsögðu ber að leita umsagnar stéttarfélaga þeirra manna um ýms atriði, sem rannsaka ber samkv. þeirra till. Viðvíkjandi skipaeftirlitinu ber að taka fullkomið tillit til þeirra manna, sem mest eiga undir því, að það sé rækilega framkvæmt, þ. e. þeir menn, sem á skipunum vinna.

Viðvíkjandi hinum atriðunum, sem eru landhelgisgæzla og björgunarmálin, er það að segja að ég tel réttast, að leitað sé í þeim efnum til umsagnar Slysavarnafélags Íslands, sem nú er sá aðili þessa máls, er hefir með höndum starfrækslu landhelgisgæzlunnar. Ég hygg, að með því að leita til ýmissa góðra manna væri hægt að fá ýtarlegar till. til umbóta á þessu sviði. Í þessu sambandi má t. d. benda á þá menn, er manna lengst hafa unnið við landhelgisgæzlu. skipstjórana. Hjá þeim ætti að sjálfsögðu að leita umsagnar og álits á því, hvað þeir telja til mestra hagsbóta fyrir land og lýð í þessu efni.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta en ég hefi nú þegar gert, en vænti, að hv. Alþ. samþ. þessa till. eins og hún liggur fyrir frá n.