01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (4689)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Jónas Jónsson:

Sökum þess, að hv. þm. A.-Sk. er lasinn í dag, ætla ég að segja fáein orð um þetta mál. Fjvn. hefir klofnað um þessi kaup á hvernum Grýtu í Ölfusi og jörðinni Skálholti í Biskupstungum. Minni hl. hefir komið með sérstakt álit og mun mæla fyrir því. Við meirihl.mennirnir leggjum til, að stjórnin fái þessa heimild til að kaupa þennan litla hver í Ölfusinu og jörðina Skálholt. Ég tel sjálfsagt, að ríkið eignist Skálholt, en tel hinsvegar vafasamt, að kaupin gangi saman að svo stöddu. En úr því að þingið hefir einu sinni byrjað á því að reyna að eignast þennan merka sögustað, þá á ekki að gefast upp við það, og tel ég líklegt, að eigendur jarðarinnar verði sanngjarnari en fyrst, þegar þeir sjá, að landinu er alvara með að reyna að eignast jörðina, en ekki að kaupa hana dýrt. — Út af fyrra atriðinu, hvernum Grýtu, vil ég benda á það, að það er töluvert mikið í húfi, ef þessi hver skemmdist, sem vel getur komið fyrir. Það er raunar alltaf verið að skemma hann á sumrin af einhverjum, sem ekki vita, hvað þeir eru að gera. Það væri stór fjárhagslegur skaði fyrir landið, ef þessi hver eyðilegðist, því að hann dregur erlenda ferðamenn, sem koma til Reykjavíkur, austur fyrir heiði.

Ef stj. fær þessa heimild, mun hún fremur verða notuð en heimildin til þess að kaupa Skálholt. Ég legg til, og læt nægja að vísa til nál., að till. verði samþ., en notuð með gætni.