25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (4700)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það gleður mig, að hæstv. landbrh. skuli nú loksins hafa orðið við kröfum mínum, þó að það sé reyndar bæði seint og með sérstökum hætti. Upphæðin, sem hér er gert ráð fyrir til verðuppbótar, er hin sama og Bændafl. fór fram á á síðasta þingi, en þá þótti ekki fært að setja heimild inn í fjárlög, af því að ekki væri útséð um kjötsöluna í desember síðastl. En þörfin hjá bændum var alveg jafnmikil þá og nú, og betur hefði bændum komið að fá þessa uppbót um áramót heldur en miklu síðar. En látum það nú vera.

Nú ætlar stj. að afla tekna til að mæta þeim útgjöldum, sem þáltill. hefir í för með sér, enda var það mest fundið að kröfum okkar Bændafl.manna í vetur, að við hefðum ekki séð fyrir tekjunum. En sannleikurinn var þó sá, að við lögðum til sparnað á mörgum liðum í fjárl.frv. stj. Nú leggur stj. til, að varið verði til verðuppbótar 40 þús. af fé, sem ætlað er til akvega árið 1935, og auk þess 50 þús. kr. af framlagi til byggingar- og landnámssjóðs. Hér skal ekki talað margt um fyrra úrræðið, að klípa af akvegafénu, þó að segja megi, að það fé sé tekið beint af bændum sjálfum. En í síðari fjáröflunartill., að taka í þessu skyni helming af þeim ágóða tóbakverzlunarinnar, sem verja á til byggingar- og landnámssjóðs, er svo mikið ranglæti fólgið, að ekki verður við því þagað. Hér er algerlega gert upp á milli þeirra tveggja aðilja, sem njóta jafnt ágóðans af tóbaksverzluninni. Til verkamannabústaða í kaupstöðum ganga 100 þús. kr. óskiptar eftir sem áður, þótt lögin segi, að tillagið eigi að skiptast jafnt milli þessara aðilja. Það er auðséð, að stj. hefir ekki treyst sér til að taka neitt í þessu skyni af þeim 500 þús. kr., sem verja á til atvinnubóta á fjárl. 1935, né heldur af þeim 100 þús. kr., sem ganga eiga til verkamannabústaða, enda þótt fastákveðið sé í lögum, að tillag tóbaksverzlunarinnar skiptist jafnt á milli verkamannabústaða og bygginga í sveitum.

Á síðasta þingi var ákveðið í fjárl., að 50 þús. af framlaginu til byggingar- og landnámssjóðs skyldi varið til samvinnubyggða. Sjálfsagt hefir það verið tilgangurinn að kljúfa starfsemi sjóðsins á þennan hátt. En úr því að ekki hefir verið hafizt handa um samvinnubyggðir, er það lagaleg skylda að láta þessar 100 þús. kr. renna allar til byggingar- og landnámssjóðs og fullnægja þannig lögunum um jafna skiptingu tóbaksarðsins til bygginga í kaupstöðum og sveitum. Svo að þetta er greinilegt lagabrot, bæði á fjárl. og tóbakseinkasölulögunum, þar sem ákveðið er, að ágóðinn af rekstri tóbakseinkasölunnar skuli skiptast jafnt á milli byggingar- og landnámssjóðs og verkamannabústaðanna. Ég vildi benda á þetta strax við þessa umr., því að við Bændafl.mennirnir munum flytja brtt. við síðari lið tillgr. við síðari umr., annaðhvort í þá átt, að útgjöldum vegna kjötuppbótarinnar verði jafnað réttlátar milli hinna einstöku liða í fjárl. en hér er gert, eða að seinni liðurinn verði felldur niður og að stj. sjái sjálf fyrir tekjuöflun í þessum tilgangi.