25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (4705)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Við hv. þm. V.-Húnv. höfum nú sézt fyrr og þekkjum nokkurnveginn hvor annars kvalifikatiónir eða hæfileika á flestum sviðum, frá því að við vorum skólabræður á Akureyri.

Ég ætla ekki að verða við áskorun hv. þm. í þetta sinn, af því að hann var líka að kvarta undan því síðast í ræðu sinni, að hann mætti ekki taka oftar til máls nú; ég ætla ekki að ræða um störf hans í Vestur-Húnavatnss., stjórn hans á kaupfélaginu, né um reikningsskil hans fyrir Reykjaskóla. En hv. þm. mundi vafalaust gera réttara í því að nota tíma sinn til þess að gera þá reikninga sæmilega upp og skila þeim af sér heldur en að bera hér fram ómerkileg yfirboð á Alþingi og blaðra um þau út í loftið. Ég mun geyma mér að minnast hér frekar á reikningana, enda munu þeir koma til athugunar síðar, og verður þá aðstaða okkar hv. þm. jafnari til umræðna en nú.