01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (4710)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Jón Baldvinsson óyfirl.:

Fyrir nokkrum árum kom fram till. á Alþingi um að fella niður þingtíðindin, aðallega umræðupartinn. Var það þá sem nú hugsað í sparnaðarskyni. Alþingi vildi þá ekki fallast á þetta, þó að ískyggilegir tímar væru þá fram undan, eins og nú. Mönnum fannst svo mikilsvert að geta átt aðgang að þingtíðindunum, að ekki væri rétt að hætta prentun umræðnanna og loka þeim þannig algerlega fyrir þeim, sem vildu skyggnast í það, sem þm. hafa sagt. Ég gat að vísu ekki hlustað á alla ræðu hv. 1. þm. Skagf. En hans ætlun er, að því er ég heyrði, að þessari prentun yrði ekki aðeins hætt um stundarsakir, heldur fyrir fullt og allt. Nú er ekki hægt að neita því, að umræðupartarnir geyma mikið af merkilegum hlutum í sambandi við mál þau, er hér hafa verið til umr. Þó að játa verði, að margt óþarft orð hafi fallið, ber því ekki að neita, að menn hafa þar sem þingtíðindin eru mikilsverðan stuðning við lagaskýringar o. þ. h.

Sparnaður, sem af þessu leiðir, myndi líklega nema svo sem 40 þús. kr. Þó að þetta sé svona mikið og þröngt í búi hjá okkur og ískyggilegir tímar, getur það verið spurning, hvort loka eigi þessu verðmæti, sem að vísu verður ekki metið til aura.

Þó að hætt yrði að prenta þingtíðindin, geri ég ekki ráð fyrir, að nokkrum detti sú fásinna í hug að fara að útbúa þau í öðru formi, t. d. vélrituðu. Bæði er, að vélritun tekst oft misjafnlega, og eins hitt, að það myndi verða svo umfangsmikil og fyrirferðarmikil bók og leiðinleg í meðförum, að hún myndi koma að litlu haldi. Og kostnaður við þetta myndi reynast ótrúlega mikill í samanburði við prentun. En ef tryggja ætti, að ræðurnar lægju fyrir í öðru formi en því, sem skrifarar hafa gengið frá og þm. krassað í, þá kæmi varla annað til mála en vélritað form. Hér á árunum var sýnt fram á, að þessi kostnaður drægi hátt upp í prentunarkostnað. Og menn myndu ekki una þessu til lengdar, og myndi þá koma sú krafa aftur, að þetta yrði allt prentað, en það þýddi allt að því tvöfaldan kostnað.

Margir þykjast hafa komið auga á, að spara mætti með því að hætta prentun þingtíðindanna, og hefir sá sparnaður átt að notast í ýmsu skyni. Sumir vilja nota hann til verðuppbótar á kjöt, aðrir vilja bæta með honum skemmdir af ofviðri á síðasta ári.

Ég get ekki greitt atkv. með þessu. Ég tel varhugavert, að alþingismenn loki sig svo inni, að almenningur geti ekki átt aðgang að þingtíðindunum. Og þó að segja megi, að fáir lesi þau, þá eru þeir þó nokkrir, og helzt áhugamenn um stjórnmál. Þessir menn kynna sér þingtíðindin, og þaðan berst svo margskonar fróðleikur út á meðal manna, þó að sjálfur lesendahópur þingtíðindanna sé ekki stór.

Það verður raunar alltaf ríkt í huga manna að vilja hafa eitthvað að borða og klóra í bakkann, meðan hægt er, og kasta menn þá stundum til þess ýmsum verðmætum, sem þeir hefðu annars gjarnan viljað halda. Ég get því skilið þessa till. En hér hefir verið þröngt í búi á Íslandi áður, þótt margur sé nú búinn að gleyma því og nú sé að vísu ekki samskonar skortur og oft á fyrri árum.

Ég veit, að nú eru miklir erfiðleikar. En spurningin er, hvort grípa eigi til þess örþrifaráðs að hætta nú þeim sið, sem haldið hefir verið síðan Alþingi hóf starfsemi sína að nýju, að prenta ræður þingmanna í Alþt. og hafa þær þar til sýnis þeim, sem helzt hafa áhuga á að kynnast meðferð mála á Alþ. Mér finnst þetta mjög varhugaverð till. og vona, að hv. þingmenn skoði vel huga sinn áður en þeir ganga að henni.

Viðvíkjandi till. um verðuppbót á útflutt kjöt hefi ég fátt að segja. Það er vitanlega mikil þörf, að bændum sé veitt uppbót á kjöt, og í raun og veru er það samskonar styrkur að bæta bændum þannig upp mjög erfiða aðstöðu eins og styrkur sá, sem veittur er til að bæta úr erfiðri aðstöðu verkafólksins í kaupstöðunum, og ég álít kröfuna alveg réttmæta. En spurningin er sú, hvort þjóðarbúskapurinn er nú svo aumur, að við þurfum að láta falla niður að prenta ræðupart Alþ. nú eftir að við höfum haldið þeim sið í 80 ár. Það hefir verið komið upp með þetta áður, en það ekki fengið nægilegt fylgi þrátt fyrir erfiðar fjárhagsástæður og ískyggilegt útlit. Það er satt, að ástandið er ískyggilegt nú. En ég hygg ekki, að það skipti svo miklu máli um þennan lið, að afkoman velti á því, hvort hann er felldur niður eða ekki. Mest af þessum kostnaði kemur fram sem tilfærsla á fé innanlands. Prentun öll og það, sem að henni lýtur, er innanlandsvinna. Útgjöld til annara landa eru pappírskaup, en þó að vélritað sé, þarf líka pappír. Eins og nú er veitir þetta landsmönnum nokkra vinnu, en gæti farið svo, ef það væri látið falla niður, það svo mikið munaði um það vinnutap, að Alþ. þætti rétt að bæta það upp á annan hátt, og fer þá að verða álitamál um sparnaðinn.