01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (4713)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Í sambandi við þetta mál, sem hér er til umr., vil ég upplýsa hv. d. um það, að snemma á þinginu kom það til umr. í fjvn., hvort ekki væri hægt að draga úr kostnaðinum við þinghaldið með því að varðveita umræðupart þingtíðindanna í ódýrara formi en með því að prenta þau. Í því sambandi leitaði n. til sérfræðinga um það, hvernig mætti geyma ræðurnar, t. d. með því að færa þær yfir á segulmagnaða vírþræði, sem svo aftur má afmagna. Af þeim upplýsingum, sem n. fékk um það, hvað kostaði að koma þeim útbúnaði fyrir, sem til þess þarf, þá áleit n., að á þessu stigi væri ekki fært að leggja út í þá breytingu.

Það hefir verið minnzt á, að prentunarkostnaður umræðupartsins sé 45 þús. kr. á ári, og það hefir verið stungið upp á að mæta kostnaðinum við kjötuppbótina með því að fresta prentuninni um tvö þing. En það er alveg misskilningur, að þetta verði til samans 90 þús. kr. sparnaður. Forstjóri ríkisprentsmiðjunnar hefir komið á fund fjvn., og hann gaf þær upplýsingar t. d., að 25% af þessum 45 þús. kr. gangi upp í rekstrarkostnað prentsmiðjunnar og af þessum sparnaði megi því draga 25%, og er þá strax komin allmikil minnkun á sparnaðinum. Auk þess hefir það verið gefið í skyn, að prentun skjalapartsins mundi verða dýrari, ef ræðuparturinn væri ekki prentaður. M. a. hefir verið gizkað á, að skjalaparturinn myndi verða lengri vegna þess, að menn skrifa oft undir með fyrirvara og gera þá grein fyrir honum í ræðu, en ef að þessu ráði væri horfið, því mundu menn gera ýtarlega grein fyrir fyrirvaranum, og myndu þar koma ný þskj., sem nú koma ekki fram. Og þegar auk þess eru dregin frá þau 25%, sem ég nefndi áðan, þá fer að skarðast sá sparnaður, sem af þessu verður. — Það hefir aldrei komið til mála annað en að umræðuparturinn verði varðveittur í aðgengilegu formi, svo að ekki geti leikið vafi á því, hvað menn hafi sagt og hvernig þeir hafi snúizt við hinum ýmsu málum.

Með tilliti til eldhættu mun ekki þykja hyggilegt að hafa minna en þrjú eintök af Alþt. Nú hefir forstjóri ríkisprentsmiðjunnar — en til hans var leitað upplýsinga um, hvað kosta myndu 3 vélrituð eintök af umræðuparti Alþt. — gefið mér í morgun þær upplýsingar, að það myndi kosta um 8—10 þús. kr. á ári, og er þá augljóst, að hér eru um 19 þús. kr., sem draga verður frá sparnaðinum. Samtímis lét forstjóri ríkisprentsmiðjunnar það í ljós við mig, að sá mesti hugsanlegi sparnaður, sem af þessu gæti orðið, væri 20 þús. kr. á þing. Hér hefir áður verið minnzt á, að meiri hluti þess er innlend vinna. Verð pappírsins er rúmlega 2 þús. kr., og það er augljóst mál, að hvernig sem umræðuparturinn er varðveittur, þá verður alltaf að kaupa til þess pappír, og þó að umræðuparturinn yrði vélritaður, yrði sá kostnaður ekki minni, því til þess myndi þurfa heldur dýrari pappír. Sá mesti hugsanlegi sparnaður af frestuninni myndi því verða 40 þús. kr. á þessum tveimur árum. En það er grunur minn, að ef betur lætur í ári, þá muni ekki verða unað lengi við það, að láta ekki prenta umræðupart Alþt., og yrði þá að skoða þetta sem lán, sem væri tekið og fyrirfram vitað, að yrði að greiða aftur með prentun umræðupartsins.

Þegar á þetta er litið, þá er augljóst, að það er mjög takmarkaður sparnaður, sem af því gæti leitt að hætta að prenta umræðupart Alþt. Hitt er auðvitað, að það má setja málið fram á þann hátt að spyrja, hvort sé meira til þjóðþrifa að prenta umræðupart Alþt. eða hitt, að vinna svo vel að nýjum akvegum, að þar komi engin 10% til frádráttar. Enginn maður mun vera til, sem ekki óskar þess, að sem mest sé hægt að vinna af opinberri vinnu, en það verður að horfast í augu við staðreyndirnar. Þörf bænda að fá uppbót á útflutt kjöt hefir enginn vogað sér að draga í efa, en það verður að finna úrræði til að mæta þeirri þörf án þess að grípa til óyndisúrræða. Hér er m. ö. o. fólki í sveit, sem á að njóta þessarar kjötverðsuppbótar, boðið upp á tvo kosti, og má vel segja, að hvorugur sé góður. Þeim er boðið upp á að bæta úr þeirri þörfinni, sem brýnust er og mest aðkallandi, eða þeirri, sem fjær liggur. Það eru því tvær hliðar á þessu máli, að draga 10% af framlagi til vega. Önnur snýr að þörf manna, sem eiga að njóta veganna, en hin að þeim mönnum, sem hafa lífsuppeldi sitt af því að leggja vegina. Það, sem ég sagði áðan, að á síðustu árum hafi meir og meir færzt í það horf, að þetta sé sama fólkið, sagði ég eftir talsverða eftirgrennslun. Þá er um það að ræða, hvort þetta sama fólk kýs það heldur, að við höfum þolað að leggja þetta til, sem skárri kostinn af tveimur hvorki góðum né glæsilegum.

Það kom fram eitt atriði í umr. hjá hv. þm. V.-Húnv., sem ég verð að mótmæla. Hann talaði um, að hér væri verið að gera hliðstæða árás á hendur afkomu sveitafólks eins og ef ætti að taka af atvinnubótafé til þess að bæta upp hlut sjómanna. Þetta, sem hann vill bera saman, er ekki sambærilegt. Öllum þeim, sem kunnir eru atvinnuhættir verkamanna og sjómanna, er fullljóst, að verkamenn og sjómenn í landinu eru talsvert greinilega aðgreindar vinnustéttir. Atvinnubótavinnan er ekki fyrst og fremst komin til vegna sjómanna og þarfa þeirra, heldur vegna manna, sem vinna í landi og eiga einskis kostar til bjargar annan en þennan. Það, sem þessi þm. lætur líta út sem réttlátan samanburð, þegar hann talar um að taka frá einum bágstöddum til að rétta hag annars, það er alls ekki sambærilegt. Þessi samanburður missir mark, vegna þess, að það er í miklu ríkara mæli sama fólkið, sem um er að ræða í þessu tilfelli. Og það er samkv. ósk og yfirlýstum vilja fjölmargra í sveit, sem lagt er til, að þessi leið sé farin. En það er vitaskuld ofraun fyrir nokkurn mann innan þings eða utan að gera ráð fyrir, að það sé með glöðum huga, sem Alþýðuflokksmenn leggja til, að þannig verði úr framkvæmdum dregið. En það er gert vegna þess að við sjáum, að það er að svo miklu leyti um sama fólkið að ræða, og af viljanum til að láta að óskum þess og mæta þörfinni, sem næst er. — Ég skal ekki lengja umr. um þetta öllu meira. Ég vildi bara taka fram, að ef einhver kynni að koma fram með ásökun um það, að Alþfl. hefði snúizt í þessu máli á þá sveif að draga úr verklegum framkvæmdum til þess að prenta lítt notaða bók, þá er það algerlega óréttmætt, af því að sá sparnaður, sem af því leiðir að láta vera að prenta umræðupartinn, er miklu minni en margir halda fram, og við vitum ekki, hvað lítill hann kann að verða, með tilliti til þess, að skjalaparturinn hlýtur að aukast. Í öðru lagi eru það vissir hlutir í sambandi við prentun Alþt., sem eru stórvarhugaverðir fyrir pólitískar upplýsingar og skilning í landinu. Því að í vitneskjunni um það, sem fram fer á þingi, og skilningnum á því, hvaða hvatir liggja bak við afstöðu manna þar, liggja ræturnar til þess, að alþýðan hefir vit fyrir sér um val þeirra fulltrúa, sem hún felur að stjórna sínum opinberu málum. Og þeir, sem gerast verulega ákveðnir talsmenn þess, að alþýða manna eigi sem erfiðast með að fá vitneskju um þessa hluti, þeir gera það meðfram vegna þess, að það er hægara að láta staðreyndirnar ekki mæla sínu máli, — vera leiðarstjörnu fólksins, með því að láta ræður þær, sem sýna hina opinberu framkomu þeirra og afstöðu til mála, liggja í 3—4 eintökum í bókahillu í stað þess að vera á vegi hvers manns, sem vill.