01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (4714)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Jón Pálmason:

Mér þótti rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þeirrar till., sem liggur fyrir, því í raun og veru er þetta nokkuð nýtt mál, þó að lítils háttar væri farið inn á það á síðasta þingi.

Að bæta upp verð á annari aðalframleiðsluvöru landsmanna er í sjálfu sér talsvert hál braut frá almennu og heilbrigðu sjónarmiði. Við hljótum að athuga, að ef við hugsum þessa hugsun til enda, þá getur hún leitt að allvarasamri niðurstöðu. því að þegar halli er á atvinnuvegunum, má út frá þessu sjónarmiði í framtíðinni komast að þeirri niðurstöðu, að með sama rétti megi gera þá kröfu, að ríkisvaldið keypti aðrar framleiðsluvörur landsmanna með framleiðslukostnaðarverði, og svo væri látið ráðast, að hve miklu leyti hægt er að selja vörurnar. Frá almennu sjónarmiði tel ég hér stefnt inn á ranga braut. En nú stendur alveg sérstaklega á að því leyti, að búið er að gera ráðstafanir af ríkisvaldsins hálfu, sem ganga frá mínu sjónarmiði alveg í öfuga stefnu við það, sem rétt er. Það hefir verið látið haldast á síðustu þingum og fram á þennan dag, að útgjöld ríkisins ykjust til stórra muna til opinberra launa. Og laun manna hafa ekki að neinu verulegu leyti verið lækkuð. Það hefir verið hækkað almennt opinbert kaupgjald í landinu. Það hefir verið hækkað framlag til verklegra framkvæmda, vegabóta, brúargerða og annars í því skyni að vera atvinnubætur. Það hefir verið hækkað framlag til ótiltekinna atvinnubóta í kaupstöðum. Það hafa verið hækkaðir skattar og tollar frá því, sem áður var. Það var á síðasta þingi greidd hlutaruppbót til sjómanna, sem stunduðu síldveiði síðastl. sumar. Allar þessar ráðstafanir miða að því að auka dýrtíðina í landinu og gera aðstöðu framleiðenda miklu verri en hún ella hefði verið. Og sannleikurinn er sá, að hlutur íslenzkra bænda er í þessu efni gerður svo slæmur, að út frá þessu sjónarmiði eru þeir, og raunar sumir aðrir framleiðendur, komnir miklu verr en nokkrar líkur eru til, að hefði þurft að vera, ef þessum málum hefði verið rétt stýrt. Út frá því sjónarmiði — og eingöngu frá því sjónarmiði — er ég ráðinn í því að greiða þessari till. mitt atkv., þrátt fyrir það, þó að ég telji, að hér sé farið inn á stefnu, sem ekki er heilbrigð frá almennu sjónarmiði. Því að það er svo í þessu efni, að ein syndin býður annari heim. En hér er spor í þá átt að rétta nokkuð hlutfallið milli framleiðenda annarsvegar og svo þjóðarinnar yfirleitt að hinu leytinu. Og það skal skýrt fram tekið að minni hálfu, að það er eingöngu með þetta fyrir augum sem ég fylgi þessari till., sem liggur fyrir. En mér er það fullkomlega ljóst, að þessi fjármálastefna, að auka á dýrtíð í landinu, hún getur ekki gengið til lengdar. Hér verður að fara allt aðra leið. Annaðhvort að lækka framleiðslukostnaðinn að mjög miklu leyti með því að reyna að minnka dýrtíðina í landinu, eða auka tekjur framleiðenda á annan hátt, jafnvel með gengisfalli í einhverri mynd.

Það er nú mjög mikill ágreiningur um það, hvernig taka eigi fé til þessarar kjötuppbótar, og skal ég ekki fara langt út í það mál. Ég mun sýna með mínu atkv., hvaða till. í því efni ég fylgi.

En hæstv. fjmrh. vildi ég segja það, að þó að hann og hans flokkur hafi gert einhvern samning við sinn samstarfsflokk um hlutfali í framlagi milli sveita og kaupstaða, þá er frá hans sjónarmiði eðlilegt, að hann vilji standa þar við. En hann getur ekki ætlazt til þess, að við, sem teljum hann hafa samið af okkur sveitamönnunum, tökum tillit til þess samnings, sem gerður er á þeim vettvangi og við höfum því engar ástæður haft til að hafa nokkur minnstu áhrif á.

Frá þessu sjónarmiði getur það þess vegna ekki verið neitt athugavert, sem fram kemur í till. hv. þm. V.-Húnv., að fella jöfnum höndum niður af framlagi til bygginga í sveitum og kaupstöðum.

Hvað það snertir, sem síðasti ræðumaður var að tala um, að það væri sama fólkið, sem nyti atvinnunnar í sveitum landsins við vegi og annað, og hitt, sem framleiddi kjötið, þá er það ekki nema að tiltölulega mjög litlu leyti rétt. Því að það er alltaf meir og meir að færast í það horf, að bændur landsins útilokist frá því að kaupa vinnukraft, vegna þess hve hann er dýr og vegna þess hve fólkið hópast frá framleiðslu sveitanna. Og það er beinlínis vegna ráðstafana, sem ríkið gerir í þessum sökum.

Ég skal ekki tefja þessar umr. meir. En ég vildi taka þetta skýrt fram, til þess að það lægi ljóst fyrir. Því að það er á þessum grundvelli einum, að ég fylgi þessari till., sem ég að öðru leyti tel stefna út á mjög svo hála braut.