02.04.1935
Sameinað þing: 8. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (4721)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Ólafur Thors:

Ég skal ekki frekar en síðasti ræðumaður tala langt mál um sjálfa þá aðaltill., sem liggur fyrir, og raunar ekki yfirleitt um málið sjálft. m. a. af því, að ég get að mörgu leyti tekið undir það, sem hann sagði.

Ég geri nú ráð fyrir, að hagur bænda í landinu velti á allt öðru en því, hvort slík till. verður samþ. eða felld. Viðhorfið eins og það nú er fyrir íslenzka bændur og aðra framleiðendur og alþjóð manna er nú þess eðlis, að slíkar málamyndatilraunir til þess að sýna góðan huga eru fyrir það merkastar, að þær sýna lítið þroskaðan skilning á því, sem fyrir dyrum stendur. Þessi orð læt ég nægja um þetta.

En ég kvaddi mér hljóðs til að láta í ljós þá skoðun mína, að ég fyrir mitt leyti er með öllu andvígur þeirri till., sem nokkrir flokksbræður mínir hafa borið fram á þskj. 388 um að fella niður prentun á umræðuparti Alþt. Og mér er kunnugt um það, að slíkt hið sama er um mjög marga þm. Sjálfstfl.

Ég vildi að þetta kæmi fram í umr., vegna þess að þegar slík till. er flutt af fjórum mikilsráðandi þm. flokksins, þá gefur það — ef ekki koma aðrar skýringar fram — tilefni til að halda, að flokkurinn standi ef til vill að baki hennar.

Ég hafði kvatt mér hljóðs áður en hv. 3. þm. Reykv. Hann hefir látið sína skoðun í ljós, og sparast mér þar ómak, því að ég hirði ekki um að endurtaka þau rök, sem hann færði fram og liggja að því einnig, að ég er andvígur niðurfellingu á prentun umræðuparts Alþt. Ég læt nægja að vísa til hans ummæla að mestu leyti. Að öðru leyti lýsi ég yfir því fyrir mitt leyti, að þó að ég sé andvígur þessari ráðstöfun út af fyrir sig, þá get ég vel hugsað mér síðar að gjalda jákvæði slíkri till., sem liggur fyrir Alþingi að gera um sparnað á útgjöldum ríkissjóðs.