30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég tek fram, að ég tel með öllu ástæðulaust að ímynda sér, að það verði hætt að semja slíka skrá, m. a. vegna þess, að hagstofan gefur alltaf yfirlit um þetta í sambandi við upplýsingar, sem hún fær frá skattstofunni. Hagstofan heimtar alltaf þessar upplýsingar, svo að ekki er ástæða til að halda, að þessu verði hætt. Ég sé því ekki ástæðu til brtt. Ef hætt væri við samninguna, þá er alltaf hægur vandi að kippa þessu í lag með breytingu.

Það er rétt hjá hv. 4. landsk., að það er mikils virði að hafa þessa greiningu fyrirliggjandi. En það er ekki ætlazt til, að tekjuskattskráin sé sundurliðuð þannig, að sérstaklega séu tilteknar eignartekjur og tekjur af öðru, heldur aðeins heildartekjur og heildareignir.

Ég held, að hægt sé að fá fullnægjandi yfirlit af skránni, með því að haga þessu eins og verið hefir, í skattstofu Rvíkur, og það er nokkur sparnaður við það.