04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (4748)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. hefir nú lagt fram till. um frestun Alþingis, og mun ætlunin, að þingi verði frestað í dag eða á morgun. Sjálfstfl. þótti ástæða til þess að bera fram ósk um það, að útvarpsumr. færi fram um þessa till., fyrst mg fremst í því skyni að skýra kjósendum landsins frá, hvernig viðhorfið er í þjóðmálunum frá sjónarhól okkar sjálfstæðismanna.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum í júlímánuði síðastl., voru horfur mjög ískyggilegar fyrir allan búskap Íslendinga, hvort heldur var ríkis eða einstaklinga.

Upp úr ófriðnum mikla hlóðust allverulegar skuldir á ríkissjóð, sem í ársbyrjun 1924 voru orðnar rúmar 18 millj. króna. Þá tók Jón Þorláksson við fjármálastjórn ríkisins og fór með hana, eins og kunnugt er, til ágústloka 1927. Á þeim árum tókst honum að lækka skuldir ríkissjóðs niður í rúmar 11 millj. og samtímis að hækka sjóðseign ríkissjóðs, þannig að fjárhagur ríkisins á þeim árum batnaði um tæpa hálfa níundu millj. króna. Tekjur ríkissjóðs þau 4 ár námu alls 50,8 millj. Á valdaárum Framsfl. frá 7927 til 1931 fór fjárhagur ríkisins mjög versnandi, og voru þó tekjur ríkissjóðs á þeim 4 árum miklu hærri en nokkru sinni áður, eða samtals 62 millj. og 200 þús. Öllu því fé eyddi stjórnin, að viðbættri skuldaaukningu 12,2 millj. og sjóðsrýrnun 2,1 millj. kr., og var eyðslan þannig alls á 4 árum 76,5 millj. Vaxtagreiðsla ríkissjóðs, sem í lok stjórnartíðar Jóns Þorlákssonar var komin niður í 696 þús., varð árið 1931 1219 þús., en á árinu 1932 1457 þús. kr., og hinar eiginlegu ríkisskuldir voru í lok fyrri valdatíðar Framsóknar og sósíalista komnar úr 11 millj. upp í nærri 24 millj. Samtímis hafði vaxandi skattabyrði ásamt lækkandi verði allra afurða sorfið fast að framleiðendum, og voru skuldir landsmanna út á við í árslok 1931 komnar upp undir 82 millj. króna úr 43 millj., sem þær voru í árslok 1928, og andvirði útfluttrar vöru hafði lækkað úr 80 millj. 1928 og niður í 48 millj. 1931.

Á árunum 1932, '33 og '34 hafði ekki tekizt að stöðva skuldasöfnun ríkis og einstaklinga, enda þótt mjög brygði til hins betra um fjármálastjórn í landinu, og þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, munu allar hinar eiginlegu skuldir ríkissjóð, hafa verið komnar upp í 25—26 millj. kr., en skuldir þær, sem í landsreikningnum eru taldar skuldir ríkissjóðs, munu alls hafa numið yfir 40 millj. kr., og hafði ríkisbúskapurinn stöðugt verið rekinn með halla.

Þetta var viðhorfið í búskap ríkisins, þegar núv. ríkisstj. settist að völdum.

Þessu viðhorfi svaraði núv. stj. með því að leggja fyrir Álþingi síðastl. haust hæsta fjárlagafrumv., sem til þess tíma hafði verið lagt fyrir Alþingi Íslendinga. kæta þar allar tilraunir stjórnarandstæðinga til þess að koma fram lækkun á útgjaldalið fjárl. og láta síðan samþykkja fjárlagafrumv. og úthluta því fé, sem ekki var bundið með sérstökum lögum, til sinna liðsmanna og kjördæma þeirra, rétt eins og herfangi til málaliðs.

Og ekki var glæsilegra um að lítast á sviði atvinnulífsins í landinn. Kreppulánalöggjöf sú, er samþ. var á Alþingi 1932 að undangenginni rannsókn á hag bænda, var talandi vottur þeirra erfiðleika, sem bændastéttin hafði átt við að stríða. 11 millj. króna voru framleiddar í því skyni að gera tilraun til að telja nýjan kjark í bændur og þannig að stöðva strauminn úr sveitunum á mölina, og gekk þó enginn löggjafanna þess dulinn, að alveg gæti brugðið til beggja vona um það, hvort sú hjálp kæmi að nokkrum verulegum notum.

Rannsókn og skýrslugerð milliþinganefndar í sjávarútvegsmálum sýndi og sannaði, að svo nauðulega sem bændur voru staddir, voru sjávarútvegsmenn þó enn verr komnir. Sýnir skýrsla mþn., að í árslok 1932 voru skuldir útvegsmanna orðnar 261/2 millj. króna, en eignir ekki taldar nema meiru en 321/2 millj. króna. Var upplýst, að á þremur undanförnum árum hafði tap þeirra numið næstum 9 millj. króna, og hitt fyrirfram vitað, að á árunum 1933 og 1934 hafði næstum allur atvinnurekstur til sjávar verið rekinn með halla, og var því öllum ljóst, að það var a. m. k. mjög hæpið, hvort útvegsmenn áttu eignir á móti skuldum.

Um báða þessu höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar gilti að því leyti það sama, að báðir höfðu verið reknir með halla og engar horfur voru á, að úr mundi rætast, nema þá með því að draga úr innlendum tilkostnaði, svo sem kaupgjaldi eða skattabyrði.

Verzlun landsmanna hafði mjög dregizt saman vegna gjaldeyrisskorts og margvíslegra viðskiptahamlana, og hafði þegar leitt af því nokkurt atvinnuleysi meðal verzlunarstéttarinnar, og um þann vísi til innlends iðnaðar, sem sprottið hafði upp í skjóli viðskiptahaftanna. var og er enn að mestu óséð, hversu úr mundi rætast.

Þetta var viðhorfið í atvinnulífi þjóðarinnar, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum.

þessu viðhorfi svaraði ríkisstj. með því að leggja á síðasta haustþingi nýja skatta á þjóðina, sem ætlað er, að muni nema á þriðju millj. króna árlega.

Athafnir stj. og liðs hennar á haustþinginu er ekki ástæða til að rekja ýtarlega, af því að gera má ráð fyrir, að það sé öllum í fersku minni.

það er ekki ofmælt, að sá leikur, sem þar var leikinn, sé einstakur í þingsögunni. Það er fleira af aðgerðum síðasta þings en fjármálaglapræðið og skattaæðið, sem markar spor í sögu þings og þjóðar. En höfuðeinkenni þingsins rekur sennilega rætur sínar yfir í þann ásetning hinnar nýju stj. að reynast athafnamikil og röggsöm, sýna það í verkinu, að stj. og lið hennar þyrfti ekkert við stjórnarandstæðinga á þingi að tala, enda þótt þeir færu með umboð meiri hl. kjósenda þjóðarinnar, og freista þess, að hrinda í framkvæmd sem mestu af því, er þeir höfðu lofað, ýmist fyrir kosningar eða við stjórnarmyndunina. Mætti slíkum ásetningi ýmislegt til lofs færa, en sumt til lasts, ef ekki hefði svo á staðið, sem raun bar vitni um, að vegna versnandi viðhorfs í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar var það allt annað, sem valdhöfunum bar að beina athyglinni að og reyna að ráða bót á, og flestu þannig varið, að ofstækisfullt og rangsleitið einræði hæpins og illa fengins þingmeirihluta var með öllu óverjandi.

Það, sem að öðru leyti gerðist á þinginn og milli þinga, var í höfuðdráttum þetta:

Stj. hafði tekið við frumv. til kjötlaga úr höndum nefndar þeirrar, sem fyrrv. stjórn skipaði til að undirbúa það mál. Gagnsemi þeirra fyrirmæla, sem í þessu skyni voru lögfest, veltur á því, hvernig framkvæmdin fer úr hendi. Enn er of snemmt að leggja á það fullnaðardóm, en þó er nú, því miður, svo komið, að nokkur ástæða er til að kvíða úrslitunum.

Stj. tók við mjólkurlagahugmynd Eyjólfs Jóhannssonar og bænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu, lögfesti hana og skipaði til forustu eigingjarna menn og óforsjála, sem á margvíslegan þátt hafa gert sig seka í stórvítaverðu atferli, sem alstaðar í siðuðum löndum hefði varðað því, að þeir hefðu verið sviptir völdunum, og því fremur fyrir það, að með þessu atferli hafa þeir stefnt í voða málefnum bænda, sem þeim var trúað fyrir. Hafa nær allir þeir bændur, er hlut eiga að máli, ásamt stórum hóp neytenda, krafizt þess, að völdin yrðu þegar í stað tekin úr höndum þessara manna, en enn sem komið er hefir stj. ekki getað sett sig yfir flokkslega hagsmuni, heldur setið fast við sinn keip. Vindi því fram enn um hríð, er sýnt, að mjólkurlögin munu reynast bændum til bölvunar, en ekki þeirrar blessunar, sem til var stofnað, og er það illa farið, jafnríka þörf og bændur höfðu fyrir það, að verða aðnjótandi þeirrar verðhækkunar á framleiðsluvöru sinni, sem mjólkursölulögin gátu veitt þeim. ef rétt var á þeim haldið.

Stj. tók við fyrirmælum sjálfstæðismanna á þinginu um að skipa sjávarútvegnum örugga forustu í baráttunni við nýja aðsteðjandi örðugleika, til þess þannig að ryðja framleiðslunni nýjar brautir, þegar þínir eldri markaðir voru að lokast. Við þau fyrirmæli hnýtti þingmeirihlutinn valdboði til niðurdrep, frjálsum samtökum útvegsmanna um samsölu saltfisks, og gekk svo rækilega frá þeirri þjóðnytjastarfsemi, að að nýafloknu þingi neyddist ríkisstj. til þess að gefa út bráðabirgðalög í því skyni að halda líftórunni í fisksölusamlaginu meðan verið var að selja eldri fiskbirgðir. Hafði þó stjórnarliðið haldið því fram á Alþingi, að þetta valdboð myndi styrkja fisksölusamlagið, og lét sem vind um eyru þjóta þau rök sjálfstæðismanna, sem á ótvíræðan hátt sönnuðu, að afleiðing þeirrar löggjafar hlyti að verða sú, að fisksölusamlagið hyrfi úr sögunni. Er það að vísu vel, að sjálf ríkisstj. skyldi vera neydd til þess að viðurkenna þessi rök sjálfstæðismanna, en öllum almenningi í landinu er það lítill raunabætir. þegar á dynja afleiðingar þessarar niðurrifsstarfsemi valdhafanna. En um sjálf fyrirmæli sjálfstæðismanna um forustu í því að ryðja framleiðsluvörunni nýjar brautir er það að segja, að stj. hefir hagað svo mannavali í fiskimálanefnd, að mjög er í hóf stillt þegar sagt er, að illa hafi skipazt til þeirrar forustu, og skortir þar bæði mikið á um reynslu og þekkingu. Eru mistök þessi fyrir það ógæfusamlegust, að undir engu á þjóðin fremur afkomu sína en því, að vel takist til um sölu sjávarafurðanna.

Stjórnin tók við frumvörpum sjálfstæðismanna um viðreisn sjávarútvegsins, frumvörpunum um skuldaskilasjóð og fiskveiðasjóð, og tók þeim báðum gröf með atkvæðastyrk sínum. Stj. hét því að vísu að reisa þau frá dauðum nú á þessu þingi, en er þegar búin að svíkja það, með þingi að leggja fram og láta samþ. frumv., sem er svo öldungis ófullnægjandi í einu og öllu, að engum fær dulizt, að það er eingöngu borið fram til málamynda, af því að stj. hefir skort þrek til þess að viðurkenna opinskátt, að hún ætlaði að virða að vettugi hina ríku þörf sjávarútvegsins.

Þetta er þá í fáum dráttum saga valdhafanna þar til þingið var kvatt saman 15. febrúar Síðastl.

Þingið hefir nú setið í nær 7 vikur og lítið aðhafzt. yfir því hvílir blær ráðleysis og dáðleysis og hjörðin er öldungis hirðislaus. Ef til vill á boðskapur stj. um að þinginu verði frestað sinn þátt í því athafna- og alvöruleysi, sem hvílir yfir þinginu og störfum þess, en hitt mun þó fremur valda, að stjórnarliðið hefir einhverja tilfinningu af því, að viðfangsefnin að sviði stjórnmála eru óenjuleg, og allt önnur en þau að deila um einstök atriði í nýmælum löggjafar, sem litlu eða engu varðar um afkomu þjóðarinnar. Það er eins og menn finni á sér, að óveður er í lofti, en geri sér ekki almennilega grein fyrir, hvert stormurinn muni geisa. En hvað sem veldur, þá er það víst, að störf þingsins til þessa eru fánýt, og úr því stj. á annað borð tók þá ákvörðun að fresta þinginu, hefði verið sjálfsagt að láta þá ákvörðun fyrir löngu koma til framkvæmda, en heyja ekki þennan óviðfelldna þingleik á alþjóðar kostnað svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir. í fullkomnu vonleysi um nokkurn gagnlegan árangur.

Þegar liðinn var nærri 1/2 mánuður af þingi. flutti Eysteinn Jónsson fjmrh. hina venjulegu fjármálaræðu við 1. umr. fjárlaganna. Ræðan var löng og að því leyti eftirtektarverð, að þær upplýsingar, sem í henni fólust, hefðu mátt verða höfundinum ærið umhugsunarefni. Eysteinn Jónsson upplýsti, að útgjöld ríkissjóðs á síðasta ári hefðu numið um 17 millj. króna, að greiðsluhalli ríkissjóðs hefði verið 2456 þús. króna, að skuldir ríkissjóðs væru orðnar um 42 millj. kr., að ríkissjóður væri auk þess í 74 ábyreðum að upphæð 27 millj. kr., að andvirði útfluttrar vöru landsmanna hefði á síðastl. ári ekki verið nema rúmar 44 millj. króna, og að andvirði innfluttrar vöru hefði verið með minna móti, en þó numið rúmum 48 millj. króna. Hann gat þess jafnframt, að við þær 48 millj. yrði að bæta hinum svokölluðu ósýnilegu greiðslum, sem árlega nema a. m. k. í millj. króna, og að þannig hefði því skort rúmar 11 millj. króna til þess að Íslendingar hefðu getað staðið í skilum við útlönd á síðasta ári. Og enda þótt tölur þessar væru ekki nákvæmar, raskaði það ekki jafnvægi, því lokaskýrslur mundu sýna viðlíka hækkun á innflutningi og útflutningi. Við þennan fagra boðskap bætti svo ráðh. þeirri upplýsingu, að hann hefði sjálfur orðið að skuldbinda sig gegn erlendum lánardrottni til að leita ekki frekari lána erlendis þar til fjárhagur þjóðarinnar hefði gerbreytzt til batnaðar, og er það bitur boðskapur í hallærinu og ærið íhugunarefni þjóð eins og Íslendingum, sem á undanförnum góðærum hefir stofnað til erlendra skulda svo skiptir mörgum tugum millj. króna, og frá árslokum 1927 haldið uppi opinberum framkvæmdum, hinum dásömuðu framförum í þjóðfélaginu, með erlendum lántökum og skattpyntingum, sem sligað hafa þann atvinnurekstur, sem fyrir var í landinu.

Og Eysteinn Jónsson vissi margt fleira, sem aðalmáli skipti um afkomu ríkisbúskapsins og þjóðarbúskapsins, heldur en hann drap á. Hann vissi, að enda þótt við árið 1934 hefðum fengið að flytja til Spánar nærri 22 þús. smálesta fiskjar og þannig það ár ekki misst nema 12 þús. smálesta frá því, er við höfðum selt til Spánar 1933, þá höfum við ekki samningsbundinn rétt til þess að flytja til Spánar á þessu ári meira en rúmar 16 þús. smál., eða um 6 þús. smálestum minna en í fyrra. Hann vissi einnig, að frá Ítölum hafði borizt sá boðskapur, að nú skyldi ekki lengur heimilt að flytja til Ítalíu nema 1/5, hluta þess fiskjar, er við höfum þangað selt á undanförnum árum, en meðalsala síðustu ára þangað hefir verið um 20 þús. smálestir. Og hann vissi ennfremur, að í Portúgal höfðu gerzt þau tíðindi, að Norðmenn höfðu með milliríkjasamningi tryggt sér miklu meiri saltfisksölu til Portúgal heldur en að undanförnu, og að ekkert er líklegra en að af því leiði minnkandi söluheimild Íslendinga á þann markað. Allt þetta vissi Eysteinn Jónsson, en hann reyndi ekki einn sinni að draga nokkrar ályktanir af þeim staðreyndum, og verður þó að telja, að það hafi verið ótvíræð skylda hans.

Heimili Spánverjar á þessu ári ekki meiri fiskinnflutning frá Íslandi til Spánar en samningsbundið er, nemur andvirði þeirrar rýrnunar um 3 millj. króna.

Ef Ítalir halda fast við þær ákvarðanir, sem nú gilda þar í landi, rýrnar íslenzkur útflutningur við það um 4—5 millj. króna.

Skerði Portúgal innflutningsheimild Íslendinga, þó ekki væri nema um 1/3 hluta þess, sem þangað var selt síðastl. ár, nemur sú rýrnun á útflutningi okkar um 3 millj. króna.

Sé þannig gert ráð fyrir því, sem líkur benda til, að verst geti orðið á þessu ári, þá dregur úr útflutningi okkar til þessara þriggja landa sem nemur að andvirði ca. 11 millj. króna, og yrði þá andvirði útfluttrar vöru, miðað við það, sem útflutningsskýrslur síðustu ára herma, ekki nema 33 millj. króna.

Þessar fáu tölur færa okkur boðskap, sem mér sýnist, að sé meiri ástæða til að afhuga heldur en allt annað sem fyrir liggur í þjóðfélaginu. Í fyrra skorti 11 millj. á, að við gætum staðið í skilum út á við. Lækki andvirði útfluttrar vöru um aðrar 11 millj., þá leiðir af því, að innflutningur til landsins yrði að minnka um 22 millj., ef við ættum að geta staðið í skilum út á við, þ. e. a. s. lækka úr 48 millj. niður í 26 millj., því samkv. gefinni yfirlýsingu fjmrh. höfum við, eða a. m. k. hann, lokað fyrir erlendar lántökur. Það er nú að vísu ekki óskynsamlegt að gera sér vonir um, að eitthvað rætist betur úr en á horfir með sölu íslenzks fiskjar í Suðurlöndum, en það er ákaflega mikil óvarfærni að áætla rýrnun á útflutningi til þessara landa um minna en 5 til í millj., og yrði þá innflutningur að minnka frá því, sem var í fyrra. um 16 til 18 millj., eða niður í 30 til 32 millj. Með því móti mun andvirði útfluttrar vöru verða 37 til 39 millj. króna í stað 44 millj. á síðasta ári, og ætti að nægja til þess að greiða innflutninginn 30 til 32 millj., að viðbættum hinum ósýnilegu erlendu greiðslum, ca. 7 millj.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að nýbreytni í meðferð fiskjar mun engin teljandi áhrif hafa á þessu ári á andvirði útfluttrar vöru. Hins, væri fremur ástæða að geta, að að undanförnu hafa Íslendingar selt Þjóðverjum fyrir 5 millj. kr. árlega, en þau viðskipti eru tæplega trygg á þessu ári, þó í þessum hugleiðingum sé gert ráð fyrir, að svo reynist. Og þó að vænta megi einhverrar aukningar á útflutningi síldarafurða, raskar það eigi svo máli skipti þeim tölum, er ég hefi tilgreint. Ekkert nema óvænt höpp breyta þeirri mynd, sem ég hefi brugðið upp.

Hefir nú fjármálaráðherra Íslands, hefir ríkisstjórn Íslands reynt að gera sér nokkra grein fyrir því, hver áhrif slík niðurfærsla á innflutningi og útflutningi hefir á tekjur ríkissjóðs, þó ekki sé nú skyggnzt dýpra í rannsókn á afleiðingum af þessum aðsteðjandi voða?

Heldur fjmrh., að útflutningsgjaldið verði 700 þús. króna, alveg jafnt þó að útflutningur minnki um 5 til 7 millj.? Heldur ráðh., að vöru- og verðtollur verði 2380 þús. króna alveg jafnt þótt innflutningur verði 30 millj, króna, að kaffi- og sykurtollurinn verði óbreyttur 900 þús. krónur, að tekju- og eignarskatturinn verði nær 2 millj., þegar útflutningsvaran er óseljanleg að ríkissjóður geti haldið áfram að græða árlega á áfengi og tóbaki 3360 þús. krónur eins og er áætlað í fjárl. bæði í ár og að ári, eftir að allt er komið í rústir og almenningur gengur atvinnulaus og peningalaus og hugsar um það eitt að seðja hungur sitt, að hafa í sig og á? Er það líklegt, eða er það jafnvel hugsanlegt, að ríkisstj. gengi þess dulin, að allir þessir tekjustofnar ríkissjóðs rýrna og hrynja, eins og raunar nærri allir aðrir tekjustofnar ríkissjóðs hljóta að gera, og að sú tekjurýrnun nemur áreiðanlega milljónum á þessu ári og mörgum milljónum á næsta ári? Nei, þetta er ekki líklegt, og það er jafnvel óhugsandi. En þá er líka engin skýring fyrir hendi á því að ríkisstj. skuli leggja fyrir Alþingi fjárlagafrumv., sem á sér engan líka í þingsögunni annan en fjárlagafrumv. sömu ríkisstjórnar á síðasta þingi, og er þó það frumv., sem fjmrh. nú lagði fyrir þingið, 300 þús. krónum hærra en hitt, — engin skýring önnur en sú, að þó að ríkisstj. sjái og skilji, hvað fram undan er, þá þorir hún ekki að segja frá því, vegna þess að hana skortir þrek til þess nú þegar að gera þær ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar, og öldungis óumflýjanleg afleiðing af þessum staðreyndum. En svo ægilegt sem það væri, að ríkisstj. skildi ekki, hvert stefndi um afkomu ríkissjóðs, þá er hitt þó miklu verra og hættulegra, að hún skilur það og sér það, en skortir manndóm til þess að horfast í augu við það.

Hörmungarástand ríkissjóðs er aðeins spegilmynd af því, sem biður þjóðarinnar. Það er ekki ólíklegt, að heldur þrengi að um sölu landbúnaðarafurða á erlendum markaði. Það er víst, að eymd, vesöld og fjárskortur landsmanna gerir hvorttveggja, að verðfella landbúnaðarafurðir á innlendum markaði og draga úr sölu þeirra. verzlunin sér sinn dauðadóm í niðurskurði innflutnings, og sjávarútvegurinn, sem til þessa hefir staðið undir mestu af ríkisþörfunum, horfir nú fram á það, að sölumarkaður aðalframleiðsluvörunnar, saltfisksins, minnkar úr 65 til 70 þús. smálestum niður í 40 til 45 þús. smálestir. Fari svo, og verði fiskveiðar reknar í svipuðum mæli og verið hefir og afli svipaður, þá verða fiskbirgðir hér á landi um næstu áramót svo miklar, að þær munu nægja til þess að fylla söluheimildir ársins 1936 í Suðurlöndum, ef þær haldast óbreyttar frá því, sem nú horfir. Af þessu leiðir, að við verkalýðnum í landinu blasir nú svo geigvænlegt atvinnuleysi, að líkur benda til, að atvinnuleysingjahópurinn hér á landi verði hlutfallslega stærri en í nokkru öðru landi álfunnar.

Þessar horfur um afkomu ríkissjóðs og þjóðarinnar eru svo alvarlegar, að það er brýn skylda allra stjórnmálamanna og allra hugsandi og viti borinna manna að snúa sér af alhuga að því að reyna að verjast áföllunum. Það er skylt að játa, að valdhöfunum er ákaflega mikill vandi á höndum, en þeir verða að gera sér ljóst, að þegar út í þetta er komið, þá verður þjóðin aldrei leidd út úr ógöngunum nema undir einbeittri forustu og með sameiginlegu átaki allra ábyrgra manna.

Sem stjórnarandstæðingar gætum við sjálfstæðismenn auðvitað setið hjá og horft á fortíð valdhafanna og aðsteðjandi þrenging þjóðarinnar grafa traust almennings undan fótum þeirra. En þegar svo er komið högum þjóðarinnar sem raun ber vitni um, þegar fjárhirzlur ríkissjóðs eru tómar, hrun ríkistekna auðsætt, lánstraustið þrotið, atvinnureksturinn í rústum, versnandi horfur og ægilegt atvinnuleysi yfirvofandi, þá telur Sjálfstfl. það sína skyldu að leiða athygli þjóðarinnar að horfunum og er þess jafnframt albúinn að leggja fram ýtrustu krafta sína til þess að freista að bjarga þjóðinni.

En þó að Sjálfstfl. vilji gera þjóðinni aðvart um það, sem í vændum er, og þó að sú mynd, sem upp er brugðið, sé vonandi dekkri en sú reynsla, sem á eftir fer, þá er það ekki gert til þess að draga kjark úr þjóðinni, heldur þvert á móti til hins, að búa hana undir að veita örðugleikunum öruggt viðnám með þreki og karlmennsku. Það veit enginn, hversu lengi óáranin helzt. En standi þjóðin af sér storminn, getur hún horft vonglöðum augum fram á leið, m. a. vegna þess, að nýjar aðferðir í meðferð og sölu sjávarafurðanna munu opna nýja og betri sölumarkaði fyrir aðalútflutningsvöru Íslendinga.

Hitt er jafnvíst, að nú stendur þjóðin á örlagastundu. Sú kynslóð, sem nú er að vaxa upp, þekkir ekki annað til þrenginga forfeðranna en það, sem hún hefir lært af fornum heimildum, og þó að Íslendingar hafi áður sýnt, að þeir voru færir um að þola hverskonar harðrétti, þá er af þessari ástæðu meira í óvissu um, hvernig nú muni til takast. En það er líka meira í húfi en nokkru sinni fyrr. því fatist okkur nú tökin, getur það vel orðið til þess, að við komumst undir áhrif erlends valds.

Sjálfstfl. telur það ekki sérstaklega sína skyldu — a. m. k. ekki á þessu stigi málsins — að kveða upp úr um, hvað gera ber, enda er margt þess eðlis, að meiru varða snöggar framkvæmdir en langar bollaleggingar. Þó skal það látið ótvírætt í ljós, að nauðsynlegt er að færa mjög mikið niður útgjöld fjárl., bæði fyrir árið í ár og næsta ár, og að jafnframt ber á allan hátt að stemma stigu fyrir því, að fólkið haldi áfram að streyma úr sveitunum á mölina. Það þarf að endurreisa fisksölusamlagið og taka málefni sjávarútvegsins allt öðrum tökum heldur en gert hefir verið, og það þarf að gera margar óvenjulegar ráðstafanir.

Allt þetta og margt fleira þarf að gera, og það tafarlaust.

Hinsvegar mega valdhafarnir ekki geru sig seka í því athæfi að svæfa meðvitund þjóðarinnar og sefa vaknandi kvíða hennar með skrumauglýsingum um ráðstafanir, sem út af fyrir sig geta verið meinlausar og jafnvel gagnlegar, en eru þó öldungis ófullnægjandi til varanlegra umbóta eða úrlausnar aðsteðjandi örðugleikum. Og það verða allir að gera sér ljóst, að fjögra ára áætlun og 14 samningsatriði eða önnur álíka loforð eru ekkert nema hnapphelda sérhverri forustu þjóðarinnar á slíkum tímum. Á næstunni verður forustan að vera óháð öllum böndum, öllu öðru en því, sem lífsreynsla, vitsmunir og þekking á viðfangsefnum skipar fyrir um. því með því einn móti er hægt að svara nýjum viðhorfum og vanda í þjóðlífinu með nýjum úrræðum og athöfnum, tafarlaust og án alls ótta við rénandi lýðhylli.

Ég vil svo að lokum aðeins segja þetta: Ef við sjálfstæðismenn hefðum þingmeirihluta og færum með völd í landinu, mundum við ekki hafa frestað þingi, heldur nú þegar reynt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til varnar aðsteðjandi örðugleikum. Hinsvegar hefir stj. og þingmeirihlutinn með 7 vikna iðjuleysi á Alþingi sýnt, að úr þeirri átt er einskis að vænta, og er því ekki ástæða til að annast við heimsendingu þess þings, sem ekkert gerði af því, sem því bar en gera, en sumt, sem því bar að láta ógert.

En sú stjórn mun lengi sæta ámæli, sem leggur hendur í skaut og bíður þess, hvort óvænt höpp koma ekki þeirri vörn fyrir þjóðina, sem stjórninni bar skylda til að gera með beinum ráðstöfunum, og því fremur, sem þessi löngun stjórnarinnar til að lifa á höppunum vel getur tvöfaldað bölvun þeirra óhappa, sem að þjóðinni steðja.