04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (4751)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla að byrja með því að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. G.-K. Það einkenndi ræðu hans, hve ógætilega hann fór með staðreyndir. Hann byrjaði með því að gefa yfirlit yfir fjármálastjórn síðustu ára, og mun ég ekki fara langt út í það, en láta mér nægja að benda á, að tölur hans, er áttu að sýna skuldasöfnun ríkissjóðs í stjórnartíð framsóknarstj. til samanburðar við lækkun skuldanna í stjórnartíð Jóns Þorlákssonar, eru ekki réttar. Hann notaði vaxtabyrðina í byrjun og lok stjórnartíðar Framsóknar til að sýna hækkunina, en hann dró ekki frá vaxtatekjur ríkissjóðs. vaxtabyrðin í árslok 1931 var 900 þús. kr., en ekki 1250 þús., og 1932 1 millj., en ekki 11/2 millj., eins og hann sagði. Ef notaðar eru réttar tölur, sést, að skuldirnar jukust sáralítið og vaxtabyrðarnar jukust tiltölulega lítið.

Þá drap hv. þm. á árin 1932— '34 og sagði, að á þeim árum hefði ekki tekizt að stöðva hallann vegna skuldasöfnunar. En eins og kunnugt er stóðu þá saman um stjórnina Sjálfstfl. og Framsfl. Ef Sjálfstfl. hefði viljað standa við sín stóru orð um gætni í fjármálum, þá hefði það átt að sjást, að hann hafði líka ábyrgðina þessi ár. En það sér ekki á. Á þessum árum varð greiðsluhalli og skuldasöfnun við útlönd. Sjálfstfl. tókst ekki að sýna neina sérstöðu, enda þótt hann hefði þá fjmrh.

Þá reyndi hv. þm. að vekja tortryggni á því, að stj. hefði nú borið fram það hæsta fjárlfrv., sem borið hefði verið fram hér á landi. Hér er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn. Þetta fjárlfrv. er sem sé ekki hærra en lægsti landsreikningur, sem orðið hefir, landsreikningurinn 1932. — Fjárlfrv. okkar gerir ráð fyrir 3 millj. kr. lægri útgjöldum en í fyrra reyndist. Þeir, sem eru að reyna að gera þetta tortryggilegt, fara hér vísvitandi með blekkingar, því að þeir vita, að það er ekki sambærilegt, hvað allar áætlunarupphæðir eru nú hærri en áður hefir verið. Því er nú miklu meiri von en áður til þess, að fjárlfrv. verði nokkurnveginn í samræmi við landsreikninginn.

Fjárlfrv. í fyrra gerði ráð fyrir 11,6 millj. kr. útgjöldum, en þau urðu 17 millj. Það er þýðingarlaust að áætla útgjöldin lágt, ef þau standast svo ekki reynsluna. Það má vel vera, að mér hafi ekki tekizt að áætla alla liði nógu hátt, en ég býst þó við, að áætlun mín verði nær reynslunni en áður hefir orðið.

Þá talaði hv. þm. um, að bætt hefði verið á 2 millj. kr. í sköttum á síðasta þingi. En þrátt fyrir hækkun skatta og tolla á síðasta þingi gerði stj. ekki ráð fyrir hærri tekjum ríkissjóðs í ár en áður. Þeir voru aðeins settir til þess að fá vonir um svipaðar ríkistekjur og verið hafði undanfarin ár. Með þessu var verið að bæta upp þá rýrnun tekna, sem stafaði af þverrandi innflutningi.

Þá lýsti hv. þm. ástandinu í árslok 1934 og tók þar allar upplýsingar úr fjárl.ræðu minni. Spurði hann svo, hvort ég hefði ekkert lært af þessu ástandi. Hélt ég, að hann hefði ekki þurft að fara lengra en í fjárl.ræður mínar í fyrrahaust og vetur til að sjá, að ég gerði mér fulla grein fyrir, að stj. hlyti að taka í taumana að því er snertir innflutninginn. Hefði hann ekki þurft lengi að lesa til þess að sjá, að stj. gerði ekki ráð fyrir, að innflutningur árið 1935 gæti orðið meiri en 1932. vegna þessa, og til þess að stöðva skuldasöfnun við útlönd, voru hækkaðir skattar og tollar. Stj. var það ljóst, að ekki var hægt að fara sömu leiðir og undanfarið að því er snerti viðskiptin við útlönd. En hitt er vitanlegt, að stj. á við óvenjulega örðugleika að stríða. Um leið og hún verður að leiðrétta innflutning undanfarinna ára. verður hún að taka tillit til minnkandi innflutnings vegna rýrnandi útflutnings. Það, sem gerir hlutverk stj. sérstaklega erfitt, er, að hún verður að mæta þeirri minnkun á útflutningsmöguleikum, sem nú hefir orðið. Hv. þm. G.-K. þarf ekkert að segja mér um þetta, enda hefi ég tekið það rækilega til meðferðar í fjárlagaræðu minni.

Hv. þm. gerði áætlun um útflutninginn 1935. Var þar, eins og áður, að hann byggði ekki áætlun sína á réttum tölum. Sagði hann, að svo gæti farið, að útflutningurinn minnkaði um 11 millj. kr., og færi hann þá niður í 33 millj., því að hann hefði verið 44 millj. í fyrra. Ætti hann þó að vita, að 44 millj. var aðeins bráðabirgðatala. En þessi tala hækkar því nær undantekningarlaust um 10%, svo að hún verður líklega nálægt 49 millj., og mætti því ætla, að útflutningurinn færi ekki neðar en í 38 millj., ef hann annars lækkaði um 11 millj. En þó taldi hv. þm. líklegra, að útflutningurinn myndi ekki lækka um meira en 5 millj., og eftir því færi hann ekki neðar en í 11 millj. Ef svo yrði, er ekki loku fyrir það skotið, að áætlun stj. um tekjur ríkissjóðs 1935 fái staðizt. Þá ætti innflutningurinn að mega vera 37 millj., en við það er áætlunin miðuð. Þessar bollaleggingar hv. þm. leiða því ekki til ólíkrar niðurstöðu og í minni fjárhræðu, ef leiðréttar eru skekkjurnar. Um rýrnunina frá í fyrra erum við ekki mjög ósammála í áætlunum okkar, en honum er aðeins ekki ljóst, hvað rýrnun sú, sem hann gerir ráð fyrir, myndi færa útflutninginn langt niður.

Hv. þm. sagði, að fjárl.frv. fyrir 1936 gæti ekki byggzt á öðru en þrekleysi stj., hún þyrði ekki að horfast í augu við nauðsynina á því að færa útgjöldin niður. En fjárlfrv. byggist einmitt á þeirri stefnu stj. að halda uppi opinberum framkvæmdum, meðan tekjuöflunarmöguleikar leyfa það. Ef þeir leyfa það ekki, mun stj. taka afleiðingunum af því. En stj. vill ekki færa niður útgjöldin til verklegra framkvæmda og atvinnuveganna fyrr en nauðsyn býður. Hinsvegar get ég skilið, að sjálfstæðismenn vilji færa niður þessi útgjöld strax, því að í þessu greinir okkur á við sjálfstæðismenn. Þeir vilja hafa skattana sem lægsta og litlu fé verja til verklegra framkvæmda. En stj.flokkarnir vilja nota tekjuöflunarleiðir þær, sem til eru á hverjum tíma, til þess að halda uppi verklegum framkvæmdum. Núv. stj.flokkar vilja ekki skera niður þessi útgjöld til styrktar stéttum þeim, er að þeim standa. En af stjórnmálastefnu sjálfstæðismanna leiðir, að þeir eru sífellt að tala um slíkan niðurskurð: Það getur vel komið fyrir, að stj.flokkarnir verði að beygja sig fyrir staðreyndum og lækka útgjöldin, en þeir gera það ekki fyrr en nauðsynlegt reynist.

Annars er augljóst ósamræmi í framkomu Sjálfstfl. hér á þingi, þar sem hv. þm. G.-K. talar um það hér í útvarpið, að það þurfi að færa niður útgjöld fjárl. um 5—6 millj. (sem er auðvitað óhugsandi), um leið og flokkurinn beitir sér móti því, að útgjöld verði færð niður á ýmsum sviðum, svo sem 10% niðurfærslu á framlagi til nýrra akvega, jafnframt því að hann ber fram till. um stórkostleg útgjöld til skuldaskilasjóðs útgerðarmanna. Þeir geta ekki átt von á, að þjóðin taki till. þeirra alvarlega, þegar svona er.

Þá sagði hann, að ég hefði lokað öllum bjargarleiðum fyrir landinu með því að gefa yfirlýsingu til erlendra aðilja um, að ekki yrðu tekin fleiri lán en orðið er. Hv. þm. veit, að þetta er rangt. Þessi yfirlýsing hefir ekki verið gefin. En stj. hefir getið þess í sambandi við lántökuna í Englandi, að hún ætli, svo sem auðið er, að forðast skuldasöfnun við útlönd. Ef þessi skuldasöfnun á að haldast, þá leiðir það til glötunar þjóðinni á fáum árum. Ég tel því ekki ástæðu til að álíta, að þessi yfirlýsing hafi nokkru breytt í þessum efnum. Hún er einungis staðfesting á stefnu stj. — Ég get þessa af því, að stj.andstæðingar hafa reynt að vekja tortryggni hjá mönnum í sambandi við þessa yfirlýsingu stj. Það sýnir bezt, hvað þessir menn geta lagzt lágt í ásökunum sínum.

Þá mun ég víkja nokkrum orðum að hv. 10. landsk. Þessi þm. byrjaði með því að minnast á, að fyrir þessu þingi hafi legið tvö aðalverkefni. Það fyrra var að draga stórlega úr útgjöldum fjárl. Sagði hv. þm., að þetta hefði mátt gera án þess að rýru framlög til atvinnuveganna eða verklegra framkvæmda. Þetta er ekki annað en blekking. Hann veit, að ekki er hægt að gera niðurskurð á fjárframlögum án þess að skera niður útgjöld til atvinnuveganna og verklegra framkvæmda. Þetta er ekkert annað en þessi venjulega hræsni að gefa í skyn, að talsvert sé hægt að gera í þessum efnum án þess að það þurfi að skera niður þau útgjöld, sem mestu varða fyrir framkvæmdir bænda. Það sýndi sig bezt í þessari sömu ræðu þessa hv. þm., að þegar hann var að tala um, að það hefði þurft að lækka fjárlagafrumv. 1935, þá var hann í sömu andránni að reyna til að gera Framsfl. tortryggilegan fyrir það, að hann hefði ekki viljað sinna því yfirboði Bændafl. að greiða 1/4 millj. á ári í vaxtamismun af fasteignaveðlánum landbúnaðarins. Þá er einnig talað um að velta yfir á ríkissjóð kostnaði af afurðasölu og á sama tíma er þessi hv. þm. að tala um, að einhver hafi nefnt takmörkun á jarðræktarstyrknum, og auðvitað má þá engin lækkun eiga sér stað þar. Það þarf meira en meðalhræsnara til þess að halda því fram, að það beri að lækka fjárlög um millj. og það sé hægt að spara millj. og á sama tíma auka framlög ríkissjóðs til verklegra framkvæmda í sveitum. Eða veit hann ekki, að 2600 þús. kr. eru ætlaðar til þess, eða vill hann halda því fram, að hægt sé að gera stórfelldan niðurskurð á fjárlögum án þess að það sé skert? Annaðhvort veit hv. þm. ekki eins vel eins og hann ætti að vita, eða hann talar þannig til þess að vekja tortryggni hjá öðrum mönnum, sem verri aðstöðu hafa til að vita og minna vita en hann um þessi mál.

Nei, það er ljóst mál, hverjum sem það athugar, að á fjárl. er ekki hægt að skera niður án þess að það snerti þá liði, sem við koma atvinnu- og framkvæmalífi bæði til lands og sjávar. Þetta vita allir þeir, sem af athuga fást við að leysa úr þessum vandamálum.

Eins og ég hefi áður tekið fram — og það er annað mál —, þá getur vel farið svo að nauðsyn verði á því að færa útgjöldin niður. En þá get ég vel búizt við, og finnst líklegt, eftir því sem verið hefir, að hv. 10. landsk. reyni að nota tækifærið og gera okkur tortryggilega fyrir útgjaldalækkunina. — Það er nokkurnveginn víst, að þessi hv. þm. muni þá ekki svífast þess. (Hávaði á pöllunum). — Ég geymi mér rétt til að halda áfram ræðu minni. Einhver skríll hefir safnazt hér á pallana og lætur mikið til sín heyra.