04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (4754)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Það verður fróðlegt að sjá. hvernig valdhafarnir lækka útgjöldin svo þjóðin geti borið þau, sagði fyrsti ræðumaðurinn hér í kvöld. En annar sagði, að það væri fróðlegt að sjá, hvernig valdhafarnir hækkuðu útgjöldin um í millj. til þess að leggja í stórútgerðina og bjarga henni við. Menn, sem þannig spyrja, geta ekki búizt við að fá fróðleg svör, þeir eru eins og klerkarnir, sem biðja og bíða svo eftir því að sjá tákn drottins. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að fjvn. hefði ekki einu sinni lesið fjárlögin. Og blað þessa hv. þm. hefir ekki linnt látum yfir, hvað lítið fjvn. starfaði. En þeir, sem fylgzt hafa með, vita, að fjvn. hefir haft ótal mörg störf með höndum og athuganir um það, sem þarf að gera í framtíðinni. En það voru tekin upp önnur vinnubrögð í fjvn. á síðasta þingi en áður hafa tíðkazt. Enda hefir hún komizt að því, að það eru margir ósýnilegir póstar, sem fé ríkissjóðs lekur um. Mun n. koma með till. um að stoppa eitthvað af þeim lekaholum. Og mun þeirra aðallega vera að leita í ýmsum þeim opinberum stofnunum, sem Íhaldsfl. hefir ráðið yfir, og annarsstaðar þar, sem andi íhaldsins hefir svifið yfir vötnunum.

Íhaldsfl. hefir beðið um útvarpsumr. hér á Alþingi um framkomna till. frá forsrh., þess efnis að fresta þingi þó ekki lengur en til 10. október. Ýmsir menn munu hafa ætlað, að íhaldið fýsti ekki í slíkar umr. eftir þá útreið, sem þeir fengu á dögunum. En þeir fá aldrei nóg af því að tala. Og því skyldi þeim vera of gott að spýta dálítið galli, ef andleg heilsa flokksins skyldi verða svolítið betri á eftir. Aðeins er hætt við, að sá andlegi nábítur, sem þjáir flokkinn taki sig fljótlega upp aftur.

Það er ekki eyðandi mínum tíma í að munnhöggvast við íhaldið, Þó að það skammi stjórnina. Íhaldið hér á Alþingi er svo dularfullur skapnaður, að þess munu ekki finnast nein dæmi. Ástæðan til þess er sú, að það er tví- eða þríhöfðað, eins og segir um sumar ófreskjur í goðsögum. Það er ekkert þjóðnytjamál borið hér fram á Alþingi, sem varðar atvinnuvegina, svo að einn eða fleiri íhaldsmenn séu ekki látnir veita því fylgi með fláráðri varaþjónustu. En meiri hluti flokksins er á móti, eins og gefur að skilja, því að til þess er flokkurinn. Jafnvel kveður svo rammt að þessum hræsnisfulla tvískinnungi, að íhaldsmenn eru látnir bera fram frv. um ríkisrekstur og einkasölur, eins og t. d. hv. þm. A.-Húnv., og berjast sýndarbaráttu fyrir því góða máli, til þess að flokkurinn geti síðan sagt: Við erum ekki nærri eins bölvaðir og þeir rauðu segja. Jón Pálmason var t. d. með einkasölu á trjáplöntum, Pétur Magnússon og Pétur Ottesen með mjólkurlögunum. Húsfrú Jakob Möller er góð til að rifa niður hér — en hún verður ekki sýnd úti í sveitum!

Hér er tvennt, sem gera verður sér ljóst um ráðstöfun eins og þingfrestunina. Hvað knýr til hennar — hvað kann að vera unnið við hana. Hverjar orsakir í fortíð og framtíð gera hana æskilega og nauðsynlega.

Tíminn er mjög stuttur til undirbúnings þingmálum. Og þau voru bæði mörg og stór: Alþýðutryggingar, sjúkra-, elli- og örorkutryggingar, framfærslulög, opinber forsjá og atvinnuleysistryggingar. Menn kann að undra það, þó að slíkum málum sé ekki lengra komið — en það er mikið verk. Síðasta þing afkastaði óhemju starfi, og voru þá aðeins örfáir mánuðir til undirbúnings. Þar eru atvinnuverndarlög hver á fætur öðrum, nýskipun í verzlun, hvert nóg efni í útvarpskvöld. við þurfum ekkert að saka okkur fyrir liðna tímann.

En einmitt nú þegar þing kom saman ber það til, að horfur stórversna svo um sölu afurða okkar á útlendum markaði, einkum sjávarafurðanna í Suðurlöndum, að aldrei hefir litið eins illa út. Óvissar horfur um tekjur og hrapandi atvinna gerðu nauðsynlegt að hrapa ekki að afgreiðslu fjárlaga einmitt nú, og kem ég að því síðar.

En það fer fjarri því, að þessi þingtími hafi farið til ónýtis, eins og íhaldið vill vera láta. Það bar brýna nauðsyn til að koma ýmsum stórmálum, launamálinu og skipulagsmálum þeim, sem við það eru bundin, eins mikið áfram og unnt var. Ennfremur tryggingarmálunum. Og ég fullyrði það, að þessi mál eru svo umfangsmikil, að einmitt ef þau hefðu ekki með þessum hætti fengið meðferð svo að segja tveggja þinga. með tómi til að kynna þau landslýð og gagnrýna þau. tel ég litla von um, að þau nái fram að ganga. Skal engu spá — en þetta gefur þó von um það.

Ég ætla að víkja að því, hvað réttmætt það er að telja þingfrestun vott um uppgjöf og undanhald. 1933 segir Ásg. Ásgeirsson í fjárlagaræðunni að innflutningurinn hafi árið áður numið 34 millj., en útflutningur 44 millj. Hér munar allt að 11 millj., sem útfl. er meiri en innfl. En það sérkennilega er, að þessi ráðh., með íhaldsráðherrann Magnús Guðmundsson sem umsvifamikinn mann í ráðuneyti sínu, talar um hugsanlega þingfrestun fram á haustið. Og hvað er það, sem kemur honum til að tala svo? Afkoma og kjör landbúnaðarins á brezkum markaði. Hvað ætli þetta ráðuneyti, sem íhaldið studdi og studdi svo vel, að það gleypti atvinnumálaráðherra þess, segði um þingfrestun nú? Sennilega, að til hennar sé engin ástæða. Og þó er útkoman nú á þessa leið:

Innflutt: Útflutt:

Árið 1934: kr. 48480400 — Árið 1934: kr. 44761300

— 1933: — 4416600 — 1933: — 47094980

— 1932: — 34121800 — 1932: — 43960100

— 1931: — 4197780 — 1931: — 45423200

Aflinn Fiskbirgðir

skv. skýrslu Fiskifél.: skv. taln. fiskimatsm.:

Árið 1934: 61880 þurtonn Árið 1934: 17778 þurtonn

— 1933: 68630 — — — 1933: 13485 — —

— 1932: 56372 — — — 1932: 11922 — —

— 7931: 64654 — — — 1931: 10913 — —

Íhaldið gerir sig að því endemis flóni að tala um fjármál hér. Það hefir haft með undirbyggingu þess skipulags að gera, sem utanríkisverzlunin hvílir á. Ekki er hætta á, að það hafi farið að flana út í ríkisrekstur. Einkasölu hefir það reynt að búa til — fisksölusamlagið. Það er opinbert leyndarmál að sú stofnun er ekki heilbrigðari innvortis en svo, að þar situr hver á svikráðum við annan og tortryggir annan. Rústirnar í markaðsmálunum eru fyrst og fremst þess verk, ásamt því ábyrgðarleysi og blygðunarleysi í samningum, að það væri varanlegur blettur á æru þjóðarinnar, ef miskunnsamar hendur hefðu ekki dregið slæðu yfir eymd þess og syndir. Íhaldsfl. heldur, að fortíðin sé gleymd, en svo er ekki. Íhaldinu ferst því ekki að tala um fjármál. Látum það vera, að það kunni ekki til þess að halda á útlendum viðskiptum, af því það er dauðstirðnað í pólitískri glámskyggni. En það hefir löngum verið hrós þess og prís, að það kynni að fara með landsfé. — Það lét ríkislögregluna éta upp 40 þús. dilksverð á ári. Það lét gefa 3 mönnum 8—9 millj. í Íslandsbanka, þeim, sem Jakob Möller leit eftir. Árið 1922 lætur það gefa einum manni, Copland, 1 millj. og 930 þús. krónur, byrjar svo að láta bankann lána honum aftur. 1928 eru honum gefnar 6211 þús. og 1930 eins og rjómi á tertu 730 þús. Alls námu þessar ölmusur til þessa eina volaða manns, sem með samþykki bankans mátti hafa 35 þús. kr. laun hjá sínu félagi, 3 millj. og 720 þús. króna. Nú liggur fyrir þingi tillaga um, að landið borgi fyrir þá, sem íhaldið sveik til þess að leggja spariskildinga sína í þessa voðalegu hít. Hún hefir gleypt tugi milljóna. Hún hefir mergsogið landsfólkið fram á þennan dag.

Á meðan Alþýðan var ekki vöknuð, þá skóp íhaldið sér nokkrar opinberar stofnanir, sem voru eins og gróttakvarnir, sem möluðu gull og lífsþægindi ofan í gæðinga þess. En almenningur lék hlutverk Fenjar og Menju, sem óku hinum þungu steinum nótt og dag í fátækt og skorti, lúnar og þjakaðar. Það er m. a. gremjan yfir því, að vitsmunir alþýðunnar hafa malað ófrið að hinum harðbrjósta og forsjálausa eiganda gullkvarnarinnar, sem íhaldið stofnar til þessara umr. hér. Hæstiréttur, eitt síðasta vígið, féll nú á dögunum.

Hv. þm. G.-K. lýsti störfum síðasta þings og þótti þau lítils nýt. Honum láðist alveg að geta um ýms lög, sem þingið afgreiddi, svo sem:

1. Lög um atvinnuauka í landinu.

2. Lög, sem miða að því að tryggja og auka atvinnu í landinu með bættu skipulagi í meðferð og sölu afurða og hækkandi verðlagi.

3. Lög um verklýðs- og mannréttindamál.

4. Lög um ýms skipulagsmál.

5. Lög um fjárhagsmál (skattalögin).

Ég finn líka fulla ástæðu til þess, að geta sérstaklega um fjárlögin. Það er enginn flokkur hér í þinginu. nema Sjálfstfl., sem ekki læzt vita það, að fé þurfi til að gera hlutina. En það eru nokkur atriði í fjárlögunum, sem ég vil drepa á.

Stjórnarandstæðingar létu sig alltaf dreyma um það á þessu þingi, að þeir lifðu ennþá á öld ábyrgðarleysisins og hrossakaupmanna og báru alls fram hækkunartillögur, sem hefðu hleypt fjárlögunum fram um 1 millj. 370 þús. kr. Hinsvegar stóðu þeir gegn hverju frumvarpi um nauðsynlegar tekjur. Ef fjármálastefna íhaldsins (Sjálfstæðisfl. og bændafl.) hefði sigrað á þessu þingi. hefðu tekjur hins opinbera orðið: 10 millj. 400 þús., en útgjöld 15 millj. 200 þús., greiðsluhalli því 4 millj. 800 þús. kr.

Í fyrra voru fjárlög afgr. með 477 þús. kr. greiðsluhalla, er sambræðslustj. Ásg. Ásg., Magn. Guðm. og Þorst. Briems var við völd. Mega allir sjá hvert slíkt glapræði stefnir.

Í þeim rúmlega 14 millj. króna útgjöldum, sem ríkinu eru nú áætluð, felst afborgun af skuldum og eignaaukning hins opinbera, sem hvorttvegga til samans er á aðra millj. króna.

Hér skulu nú taldir nokkrir liðir í fjárl., sem sýna glögglega straumbreytingu þá, sem orðið hefir í þá átt að láta féð skapa framkvæmdir og atvinnu.

Fjárveitingar: í fyrra í ár

Til bygginga nýrra þjóðvega 210 þús. 401 þús.

— fjallvega ……………… — 25 — 30 —

— strandferða …………… — 330 — 400 —

— verkamannabústaða ... — 000 — 100 —

— hafnargerða …………….. — 25 — 108 —

— byggingar- og landnámssj. 200 — 300 —

— verkfærakaupasjóð ...... — 000 — 65 —

— skipulagn. á sölu land-

búnaðarafurð…………… — 000 — 20 —

— sandgræðslu ……………. – 20 — 30 –

— atvinnubóta …………… — 300 — 500 —

Slík dæmi mætti fleiri nefna.

En þar sem útgjöld fjárlaga hafa sízt hækkað í heild, liggur það í augum uppi, að þessum og þvílíkum stórauknum framkvæmdum varð því aðeins á komið, að sparað væri og hagsýni gætt á öðrum liðum.

Það kom strax í ljós gagnger stefnumunur í fjvn., sem í stuttu máli mætti segja, að hefði verið ágreiningur um það, hvort við ættum að fá fjárlög, sem þingið sóma síns vegna gat ábyrgzt, eða áætlunarfjárlög, þar sem lítt væri hirt um staðreyndir komandi tíma. Við meirihl.-menn tókum fyrri kostinn. Grundvallarregla sú, sem við fylgdum, var fyrst og fremst sú, að afnema ósið hinna ósýnilegu pósta, en taka allt í fjárlög, sem hugsanlega kæmi og ætti að koma til útgjalda, áætla tekjur hóflega og láta fjárlögin verða sem raunverulegasta mynd af búskap þjóðarinnar.

Þá var það önnur meginregla, að hver þingmaður stjórnarflokkanna taldi sér skylt að bera ábyrgð á fjárl. í heild. Með þessu tókst í fyrsta sinn um langt skeið að kveða niður ósvinnu hrossakaupanna. Íhaldið (Sjálfstfl. og Bændafl.) kallaði þessa festu stjórnarflokkanna „handjárn“. En við meirihl.mennirnir munum rólegir bera okkar hluta ásakananna fyrir að ábyrgðarleysi og eyðsla voru handjárnuð á þessu þingi.

Með því að taka þannig hispurslaust í fjárlög allt það, sem óneitanlega verður að greiða, og stórauka framlag til avinnubóta og verklegra framkvæmda urðu útgjöldin í nýsamþykktum fjárlögum rúmar 14 millj. króna. — Til samanburðar má nefna að þau voru:

1931 18 millj. 200 þús., 1932 13 millj. 900 þús., 1933 um 15 millj. króna. 1934 áætl. útgj. um 14 millj. kr.

Í meðferð þingsins hækkuðu fjárlögin nú útgjaldmegin um 291 þús. kr., en í fyrra um 547 þús. Er það gott dæmi þess, hver munur var á agaleysinu í fjármálum þá og festu stjórnarflokkanna nú.

Íhaldsflokkurinn átti mann í stjórn árum saman án þess minnstu tilraun til þess að leysa þann vanda, sem hann býðst nú til að leysa og brjóta þá múra, sem aðrar þjóðir setja um viðskipti vor, þá var það hægt, nú er það erfitt. En sá, sem gleymdi því þegar það var auðvelt er ekki líklegur til þess að minnast þess. þegar það er miklu erfiðara og þaðan af ólíklegar, að hægt sé að koma því fram.

Nei það sem íhaldið er að reyna að gera hér. er að skapa „panik“. ótta, hræðslu. Nota sér erfiðar ástæður til þess að skapa sér fylgi af hræðslunni, sem það gat aldrei skapað sér með trausti á framkvæmdir, sem ekki var heldur von. Þetta er aðferð hins uppgefna. Óttafullur maður grípur til óvitaráða. Það er gömul reynsla, sem íhaldið ætlar nú að nota sér. Óvitaráðið er að binda trúss sitt við það.

Þó að margir íhaldsmenn séu útgerðarmenn, þá er ég ekki viss um, að þeir kunni eins vel eins og við sjómennirnir eina gamla lífsreglu — að haga sér í háska eins og maður hefði vissu um það að komast af, — láta ekkert ógert, grípa jafnvel til óvanalegra ráða, en hugsa sér „normalt“ framhald á lífinu unz það tapast. Þessi regla hefir bjargað fjölda mannslífa — og ómetanlegu verðmæti. Þjóðir, sem sigrast á erfiðleikum, fara eins að gera sitt ýtrasta, en haga sér eins og þær hefðu vissu um að sigra. Allir, sem hafa komizt í hann verulega krappan, þekkja þegar einhver sleppir sér og æðrast. Honum er venjulega holað niður í skutinn, þar sem óp hans trufla ekki ró þeirra, sem vinna fyrir lífinu. Ef honum væri falin skipstjórn. Þá þarf ekki að segja þá sögu lengri. En íhaldið er nú að reyna að ná skipstjórninni á þjóðarfleytunni með því að vera eins og vitlausi maðurinn í skutnum, sem æðrast og sleppir sér.

Alþfl. fer þveröfugt að; hann hefir augun á hinum skipulagslegu markmiðum, heldur áfram að vinna ótrauðlega hagnýtir alla möguleika. byggir starfs- og félagsgrundvöll framtíðarinnar hvað sem syrtir að.