04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (4758)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Ólafur Thors:

Í þessum örfáu orðum mínum get ég auðvitað svarað aðeins fáu.

Hv. 4. landsk. flutti hér yfirlætismikla, innantóma glamurræðu. Hann talaði mikið um vitlausan mann í skutnum. Flestum mun þá hafa dottið í hug, að þeir hafa oft heyrt talað um „vitlausa manninn í útvarpinu“. Og ég held, að hv. 9. landsk. hafi rækilega séð um það, að hlustendum hafi ekki fundizt þeir fara á mis við það í kvöld að heyra „vitlausa manninn í útvarpinu“.

Hæstv. forsrh. var að minnast á mjólkursölul. Ég beindi þeirri spurningu til hans og annara, hvort það væri af ánægju, að nær allir framleiðendur næstum krefðust þess að fá mjólkursölumálin í sínar hendur. Ég hygg, að það hafi verið af óánægju, en ekki af ánægju, og ég geri ráð fyrir, að allir geti verið sammála um það.

Fæst af því, sem hæstv. atvmrh. bar fram. gefur tilefni til langra aths. Satt að segja var hann venju fremur lélegur í kvöld. Hann spurði, hvað ég mundi gera, ef ábyrgðin hvíldi á mér. Ég gat í minni ræðu um ýmislegt, sem ég mundi gera, og ég sagði, að nýjum og breyttum viðhorfum þyrfti að mæta með nýjum úrræðum. Annars er það frekar mitt að spyrja hann, hvað hann ætli að gera. Vilji hann kjósa að svara mér með því að fá mér völdin, þá skal ég svara honum í orði og verki.

Hann var að guma af fremur lítilsverðum framkvæmdum í nýrri meðferð fiskjar og ráðast á okkur, sem á þessum málum höfum haldið undanfarið. Sannleikurinn er sá, að léleg forusta fiskimálanefndar veldur því, að illa hefir enn notazt af ábendingum þeim, er fólust í grg. frv. okkar sjálfstæðismanna um fiskiráð. Smávægilegar byrjunartilraunir á að gera um herzlu fiskjar, og 200 tonn af frystum fiski tókst Jóhanni Jósefssyni að útvega markað fyrir í Póllandi. Þetta eru öll afrekin, sem hæstv. atvmrh. lofsyngur.

En hvað höfum við þá aðhafzt, við, sem atvmrh. ræðst á ? Á fáum árutugum höfum við margfaldað framleiðslu sjávarafurða. Beztu framleiðslutækin höfum við tekið í þjónustu framleiðslunnar, og með því skapað hinni dugmiklu sjómannastétt ný lífsskilyrði. Samtímis höfum við rutt framleiðsluaukanum braut á nýjum mörkuðum, svo að alltaf hefir öll framleiðslan selzt.

Og þó er ekki allur sannleikurinn enn sagður. Við höfum selt þar, sem verðið var hæst. Við höfum barizt við hættulega keppinauta, menn, sem bjuggu við betri skilyrði á flestum sviðum, og allstaðar sigrað. Og við höfum gert meira. Við höfum varið hundr. þús. króna til þess að ryðja nýjar brautir, ekki niður á við til herts fiskjar. heldur upp á við til frysts fiskjar, og öðlazt mikla reynslu á þeim efnum. Ofan á þetta ræðst svo maður, sem aldrei hefir tekið neinn þátt í þessari baráttu fyrir auknum framleiðsluskilyrðum þjóðarinnar, maður, sem nú skipar æðsta sess atvinnumálanna, á okkur og sakar okkur fyrir athafnaleysi og vill kenna okkur um þá örðugleika, sem nú steðja að þjóðinni vegna þverrandi markaða.

Hér heggur sá, er hlífa skyldi, og vegur þó þyngst að sér og samherjum sínum. Því hvað er það, sem veldur? Af hverju stafa vandkvæði okkar? Þau stafa af því, að viðskiptaþjóðir okkar eru að taka upp þá stefnu í viðskiptalífinu, sem stjórnarliðar hafa dásamað í mörg ár, innilokunarstefnuna. Sú staðreynd, að stjórnmálamenn viðskiptalandanna hafa nú tekið þessa trú hæstv. ráðh. og samherja hans, veldur því, að þrátt fyrir framtak og dug útvegsmanna steðjar nú voði að þjóðinni, sem vart verður séð, hversu fram úr verður komizt.

Hæstv. ráðh. leyfði sér að fullyrða, að fisksölusambandið hefði fallið, enda þótt lögin um fiskimálanefnd hefðu aldrei komið fram. Ég læt nægja að benda á umsögn Landsbanka Íslands og S. Í. F. á haustþinginu, sem afsanna þessa fullyrðingu með öllu. Hitt ber vott um iðrun og blygðun hæstv. ráðh., að hann leitar sér nú huggunar pólitískra misgerða sinna með því að reyna að telja a. m. k. sjálfum sér trú um, að fleiri en hann mundu hafa reynt að brugga fisksölusambandinu fjörráð.

Um frv. ráðherrans um skuldaskil segi ég þetta:

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að fari allt í kaldakol, þýða engin skuldaskil. Út frá því sjónarmiði má afsaka frv. hæstv. ráðh. — öðru ekki. Hitt veit ég, að hæstv. ráðh. skilur, að enda þótt horfur séu ískyggilegar, dugir þar fyrir ekki að leggja árar í bát, og af öllu þörfu er þarfast og sjálfsagðast að forða útveginum frá rústum. Hæstv. ráðh. hét aðstoð til þess á Síðasta þingi Frv. hans um skuldaskil er ekki efndir þess loforðs, heldur svik.

Hæstv. fjmrh. reyndi enn á ný að blekkja áheyrendur með fölskum upplýsingum um fjármálin. Hann reyndi að halda því fram, að Sjálfstfl. hefði enga sérstöðu í fjármálum. Þar til er því að svara, að við höfum einu sinni og aðeins einu sinni farið með fjármálin. Tekjur 4 ár, urðu 50,8 millj. Af þeim var varið hálfri níundu millj. í skuldalækkun.

Framsókn fékk 62,8 millj. tekjur á 4 stjórnarárum sínum, eyddi því öllu og hálfri fimmtándu milljón í viðbót.

Framsókn og sósíalistar hafa farið með fjármálin í 8 ár. Eiginlegar skuldir ríkissjóðs hafa hækkað úr 71 millj. í 27 millj.

Hæstv. fjmrh. hefir nú kveðið upp dóminn yfir slíkri fjármálastjórn. Hann sagði: „Verði haldið áfram að safna skuldum, leiðir það til hreinnar glötunar“. Þetta er harður dómur um fjármálastjórn Framsóknar, en hann er alveg réttur.

Að öðru leyti sýnist mér þessar umr. sýni og sanni, að:

Stjórnin veit, að á síðasta ári misstum við markað fyrir nær 1/5 hluta af aðalútflutningsvörunni.

Stjórnin veit, að í ár erum við búnir að missa Ítalíu-markaðinn að miklu leyti, og benda líkur til, að Portúgals-markaðurinn sé og í mikilli bættu.

Stjórnin veit, að á þessu ári er þess ekki að vænta, að önnur útflutningsvara bæti svo neinu nemi skaða okkar af rýrnandi sölu saltfiskjarins.

Stjórnin veit, að af þessu hlýtur að leiða hrun atvinnulífsins, almennt atvinnuleysi og mjög stórvægileg skerðing á tekjum ríkissjóðs.

Allt þetta veit stjórnin, — en hvað gerir hún? Hvað gerir hún? Hvað aðhefst stjórnin? Þannig spyr allur almenningur í landinu, með vaxandi styrkleik, mögnuðum kvíða og áhyggjum um afkomuna. Í 7 vikur hafa menn beðið eftir svari. Nú er svarið komið.

Stjórnin sér eitt bjargráð, og aðeins eitt, það, að gera ekki neitt, alls ekkert annað en það, að senda Alþingi heim. Er það að vísu virðingarvert, að hætta nú að kasta á glæ tveim þús. króna á dag úr galtómum ríkissjóði, og hefði auðvitað átt að gera það fyrr. Hitt er og víst, að þingmeirihlutinn aðhefst þá ekki illt, ef hann ekkert aðhefst. En ekki nægir það þjóðinni til framfæris, en mundi þó vekja vonir margra um ný úrræði, ef ríkisstj. sjálf færi sömu leið, léti af störfum og fengi öðrum veginn og vandann af því að leiða þjóðina út úr ógöngunum. Stj. ætlar ekki að gera þetta. Hún ætlar þinginu ekkert að gera. Hún ætlar að binda fyrir augun og hama sig.

Og hér á Alþ. er engum dulið, hvernig á þessu stendur, og það er rétt, að kjósendur landsins séu engu leyndir í þeim efnum.

Stjórnin er ekki blind og ekki heyrnarlaus. Hún sér voðann fram undan og heyrir kveinstafi þjóðarinnar og kröfur um öflugar varnir gegn þrengingunum. En að hún þó sjáandi sýnist ekki sjá og heyrandi sýnist ekki heyra, stafar af því, að stjórnarfylkingin er klofin. Annarsvegar eru sósíalistarnir í sósíalistaflokknum og sósíalistarnir í Framsfl., hinsvegar þeir þingmenn í Framsfl., sem ekki eru orðnir sósíalistar, þó þeir til þessa hafi látið kúgast til auðsveipinnar hlýðni við valdboð sósíalista.

Þessar fylkingar geta ekki komið sér saman um, hvað gera skuli, ekki orðið á eitt sáttar um, hvaða niðurskurð skuli gera á fjárlögum, né ýmislegt annað, sem nauður rekur til að gera, og svo er vandinn leystur með því að gera ekki neitt, enda þótt allir játi, að nú er rík þörf bráðra og mikilla aðgerða.

Með þessu er lífi stjórnarinnar borgið, þar til þing verður kvatt saman að nýju, og í þeim lofsverða tilgangi er látið skeika að sköpuðu um, hversu til tekst um afkomuhorfur og lífsskilyrði alls almennings í landinu. Slíkt athæfi dæmir sig sjálft, og þess verður varla langt að bíða, að kjósendum landsins verði gerður þess kostur að kveða upp dóminn. Við sjálfstæðismenn getum að því leyti beðið rólegir átekta, að dómur þjóðarinnar yfir gerðum og aðgerðaleysi andstæðinga okkar verður áfellisdómur, dauðadómur úrræðalítilla valdhafa.

Að við samt sem áður horfum með kvíða fram á brautina, stafar af óvissunni um það, hvort stjórnarliðar ríða fyrr niður, sjálfa sig eða þjóðina, — fjárhag hennar, frelsi og framtíðarvonir.

Óvenjulegar þrengingar eru fyrir dyrum og e. t. v. meiri en nokkru sinni fyrr, þegar á allt er litið og öll aðstaða athuguð.

Og þessu á nú þjóðin að mæta sundruð og skipt í harðsnúna flokka, sem um langt árabil hafa herjað hver á annan með einstökum vopnaburði.

Við, sem boðizt höfum til forustu á sviði stjórnmálanna og sitjum nú hér sem fulltrúar þjóðar okkar, megum minnast þess, að okkur er mikill vandi á höndum. E. t. v. getur það oltið á okkur, hvort íslenzk menning og íslenzkt þjóðlíf líður undir lok eða frelsast frá glötun. Örlögin sýnast ætla að úthluta okkur sömu hlutskiptin og forfeðrum okkar á Sturlungaöldinni, völina milli þess, að berjast feigir til sigurs erlendu valdi og hins, að sættast til sigurs íslenzku þjóðinni. — Það val ætti að vera vandalaust öllum sæmilegum mönnum.