04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (4769)

120. mál, skaði af ofviðri

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hafði satt að segja ekki veitt því athygli nægilega snemma, hvað þær ná yfir lítið svæði, styrkveitingarnar, sem ætlaðar eru vegna ofveðursins 26.—27. okt. síðastl. Ég efa ekki, að tilgangurinn hafi verið sá með þáltill. þessari, að ná til allra þeirra manna, sem urðu fyrir tjóni þá, og þó vitanlega alveg sérstaklega þeirra, sem biðu tilfinnanlegt tjón. Nú hefði hv. fjvn. getað séð af skýrslu erindreka Fiskifél. Ísl., hvað miklir skaðar hafa orðið, og tjón hefir víðar hlotizt af ofveðri þessu en í Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu. Vil ég geta þess, að t. d. á Hvammstanga sökk vélbátur, sem var eign tveggja fátækra fiskimanna. Má segja, að þeir hafi misst þarna aleigu sína í sjóinn, og jafnvel heldur meira, því að nú hvíla á þeim skuldir vegna tjónsins. Báturinn var óvátryggður, og ekki hefir hafzt upp á honum síðan; annaðhvort hefir hann sokkið eða sandorpizt. Þessir menn hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, og ég geri ráð fyrir, að þáltill. þessi sé stíluð með það fyrir augum, að allir fái einhverja leiðréttingu mála sinna, sem þannig er ástatt um. Ég hefi því hugsað mér að bera fram skrifl. brtt. um að á undan orðinu „Skagafirði“ komi: Húnavatnssýslum. Mér er ekki kunnugt um fleiri slys eða tjón í Húnavatnssýslum, en þetta er sérstaks eðlis og mjög tilfinnanlegt fyrir þá, sem fyrir því urðu. Standa þeir menn nákvæmlega jafnhöllum fæti til að standa af sér tjón þetta eins og menn í Þingeyjar- eða Eyjafjarðarsýslu. Þetta er samskonar slys, og þessir menn eru ekkert færari um að mæta því, þó þeir yrðu einir fyrir því á þessum stað, en fleiri séu við Eyjafjörð, sem líkt er ástatt um.

Ég vænti því, að till. þessi verði samþ., svo að þessir fátæku sjómenn á Hvammstanga geti orðið þessa styrks aðnjótandi. Leyfi ég mér svo að afhenda hæstv. forseta till. þessa.