04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (4772)

120. mál, skaði af ofviðri

Frsm. (Jónas Jónason) [óyfirl.]:

Eins og hv. þm. sjá, hefir fjvn. reynt að leggja sem allra minnst til á þessum parti þingsins, sem af er. Hefir hún aðeins gert nokkra málamiðlun, þar sem þess var sérstök þörf og lá beint fyrir hendi að gera till. um.

Nefndin er öll sammála um 1.—4. lið till., sem hér liggur fyrir, en þegar að því kom að skera niður fjárveitingar, skiptust leiðir, og komu þá fram sérstakar till., sem verður mælt fyrir síðar. En ég vil í þessu sambandi taka það fram, út af till. hv. þm. V.-Húnv., að n. hefir ekki fengið skýrslur um tjón eða skaða víðar en til er tekið í þáltill. Ég held, að það verði erfitt að hjálpa öllum með þessu litla tillagi, svo að nokkur hjálp geti heitið. Ég skal því hvorki mæla með eða móti brtt. hv. þm. V.-Húnv., en ég er hræddur um, að ef hún yrði samþ., kynni svo að fara, að svæðið yrði of stórt, sem þessum litla fjárstyrk er ætlað að dreifast á, en vitanlega verður þingið að skera úr því, hvort á að hjálpa öllum með þessu litla framlagi. Ég skal játa það, að hv. þm. hafði rök að mæla um þennan skaða, sem hann talaði um, en vel getur farið svo, að þetta dragi dilk á eftir sér, ef samþ. verður að stækka þetta svæði, sem tiltekið er í till. nefndarinnar. Ég ætla ekki að fjölyrða um. hvað þessir skaðar hafa orðið miklir. Á Siglufirði brotnuðu bryggjur, en minna tjón eða litlir skaðar urðu hjá einstaklingum. Við Eyjafjörðinn var stórtjón bæði í Hrísey og víðar, en þó sérstaklega í Grenivík, því að þar braut líka land, og lýtur að því önnur till. um sjóvarnargarð, því að þorpið er í stórhættu. Þar brotnuðu allar bryggjur og bátar, svo að þorpsbúar eru hér því áhaldalausir og geta tæplega bjargazt til að stunda sína atvinnu. Á Húsavík urðu geysilega miklar skemmdir: t. d. skemmdist hin nýja hafskipabryggja sem mun kosta um 30 þús. kr. að gera við. Eins og till. er nú, er ekki hægt að búast við, að bryggjueigendur fái að fullu bættan skaða sinn, þegar þess er gætt, að tjónið er enn gífurlegra en af jarðskjálftunum í sumar.

Ríkisstj. lét fara fram mat á skemmdum þeim, sem urðu — ég ætla, að sýslumenn hafi framkvæmt það —, en eins og alltaf vill verða, þegar ýmsir meta, er mjög erfitt að byggja á því. Af því fékk ríkisstj. menn á Akureyri til að meta skaða þann, sem varð við Eyjafjörð.

Við í fjvn. sáum okkur ekki fært að fara nánar út í það en segir í 1. lið till. Við gerum ráð fyrir því eða ætlumst til þess, að hæstv. ríkisstj. láti sömu menn meta í öllum héruðum og að þeir byggi á sama grundvelli eða fari eftir sömu reglum með styrkveitingarnar, sem ég þykist vita, að ríkisstj. láti matsmenn gera till. um. Matsmennirnir við Eyjafjörð hafa gert till. um að skipta mönnum í 3 flokka eftir efnahag. Í 1. fl. væru þeir, sem lakast væru settir eða skulduðu yfir 75% Í 2. fl. þeir, sem skulduðu 50—75%, og í 3. fl. þeir, sem betur væru stæðir. Ég get aðeins um þetta af því, að það er þessi grundvöllur, sem n. vill byggja á. Ég vil taka það fram til að menn sjái, hve stórfellt þetta tjón hefir verið, að allar líkur eru til, að ef farið yrði eftir þessum till. matsmanna við Eyjafjörð og tekin með Skagafjörður og Húsavík, þá þyrfti 120 þús. kr., en n. hefir ekki treyst sér til þess að leggja það til, heldur aðeins 60 þús. kr., sem á að skiptast meðal margra, er mikið tjón hafa beðið, bæði sem hjálp og viðurkenning um samúð frá þjóðfélaginu. Verkfræðingur hefir farið og rannsakað, hvaða aðgerðir þyrfti að gera á Grenivík. Telur hann, að þurfi 700 mtr. langan sjóvarnargarð, eftir þeim mælingum, sem hann gerði. Grenivíkurlandi hefir verið skipt í túnbletti, sem gefa af sér árlega allt að 2 þús. kr. Er meining okkar í n., að kirkjujarðasjóður leggi fram að einhverju lyti í kostnaðinn, t. d. 1/2 eða 3/4.

Íbúarnir í Grenivík hafa á síðari árum lagt um 3 þús. kr. í bryggjusjóð, og nú er svo komið, að þeir sjá sér ekki fært að halda áfram og telja það tilgangslaust, nema því verði varnað, að sjórinn brjóti landið undan húsum þeirra, og ætla þeir nú að koma sér upp trébryggju til bráðabirgða, því annars væri öll útgerð þeirra í öngþveiti.

Þá kem ég að stærsta liðnum, sem er brimbrjóturinn í Bolungavík. Hann er eins og allir vita, gamalt mannvirki, sem hefir verið alllengi í smíðum. Ég ætla, að það hafi verið 1933, sem veittar voru til hans 20 þús. kr., gegn því að jafnhá upphæð kæmi annarsstaðar að. Áleit Krabbe vitamálastjóri, að með þeirri fjárveitingu yrði hægt að gera hann öruggan. Fé þetta var allt útvegað og notað að mestu. En í vonda veðrinu 27. okt. síðastl. kemur í ljós, að garðurinn er of veikur. Þetta hefir verið erfitt mál fyrir þing og hérað, og þykir mér því rétt að segja ofurlítið frá því, eða þeirri skýrslu, sem Finnbogi Rútur Þorvaldsson verkfræðingur hefir gefið ríkisstj: Hann heldur því fram, að það þurfi 130—140 þús. kr. til að gera þetta mannvirki sæmilega úr garði. En bæði er ekki til svo mikið fé, og verkfr. heldur, að bjarga megi garðinum með 60 þús. kr. þ. á. og 80 þús. kr. á næsta ári. En það, sem er hættulegast við þetta, er, að Bolvíkingar keyptu steinnökkva og sökktu honum framan við garðinn. En það láðist að setja skilrúm í nökkvann áður en hann var fylltur af lausagrjóti. Ef svo eitthvað vill til og veggurinn bilar, þá er hætt við, að grjótið fari inn í víkina og geri lendingu þar óhæfa. Verkfr. ætlar sér því að steypa ker og setja niður framan við nökkvann, því hann er eins og stefni að framan og er því mjög veikur. Ennfremur ætlar hann sér að styrkja hann að innan, annaðhvort með járnþynnum, eins og eru hér á hafnargarðinum, eða staurum. Að utanverðu ætlar hann að setja feiknamiklar hellur og festa þær með hlekkjum. Eiga þær að hlífa fyrir briminu utan frá. — Það er hætt við því, að þorpsbúar séu orðnir þreyttir á þessum langvinnu aðgerðum, og landið á erfitt með framlög, en við vonum, að þorpsbúar geti lagt fram nokkra vinnu.

Um 4. liðinn, bryggjuna á Blönduósi, er svipað að segja og hina liðina. Það er gömul bryggja, sem allt þorpið notar, og má búast við, að hún liðist í sundur áður en langt líður, ef ekkert er að gert. Er því ætlunin að styrkja þessa bryggju, og er áætlað, að það kosti um 33 þús. kr.

Þetta eru aðalframkvæmdirnar, sem n. leggur til, að séu gerðar. Það miðar allt að því sama, að verja mannvirki fyrir hættu. Þá hefir n. líka gengið inn á að bæta bryggju á Árskógsströnd — Litla-Árskógssandi. Ganga þaðan nokkur skip og leggja þar upp, en meiri þörf er á að veita þar hjálparhönd en víða annarsstaðar, því fólkið þar hefir orðið fyrir tjóni bæði af jarðskjálftum og sjógangi.

Ég ætla þá, af því að ég vil komast hjá því að halda margar ræður, um leið að minnast á brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. Hún er vel skiljanleg frá hans sjónarmiði, en ég neyðist til að leggja á móti henni, ekki af því, að ég vilji ekki veita þessa hjálp út af fyrir sig, af því að aðgerðin er stórkostleg, en ef veita ætti nú 2/3 fjárins, skapast fordæmi, sem getur orðið ríkinu ærið þungur baggi. Þó ég skilji vel tilganginn, sem er bak við till., þá neyðist ég til að leggja til, að hún verði felld.

Þá hafa komið fram tvennskonar till. um að spara útgjöld til að mæta þessum framlögum, frá okkur framsóknarmönnum og frá sjálfstæðismönnum. Ég ætla að tala um okkar till. Það hefði látið nærri, ef samþ. hefði verið till. á þskj. 334, um að fella niður prentun ræðuparts Alþt., að þá hefðu sparast um 90 þús. kr. og 10 þús. kr. á sjómælingum. Þar sem hæstv. forseti hefir úrskurðað meginhluta hennar frá og hann verður ekki borinn upp, þá tek ég hana alla aftur, þar sem líka þessar 10 þús. frá sjómælingum eru svo lítil upphæð, að engan dregur um. Ef meiri hl. fjvn. hefði komið til hugar, að till. þessari yrði vísað frá, þá hefðum við sennilega átt ýtarlegra tal um þetta við hæstv. stjórn, en ég býst þá við að fara yfir á till. á þskj. 353, þar sem gert er ráð fyrir að færa bæturnar vegna tjónsins yfir á næsta ár, á þann hátt sem þar segir. Ég ætla ekki að tala um till. Sjálfstfl., það mun hann sjálfur gera. En af því að ég ætla ekki að tala aftur, skal ég taka það fram, að við framsóknarmenn treystum okkur ekki til að vera með till. Sjálfstfl. á þskj. 339, um að felld verði niður fjárframlög til gagnfræðaskólanna í Reykjavík og Flensborg.