04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (4774)

120. mál, skaði af ofviðri

Magnús Guðmundsson:

Eins og hv. þm. S.-Þ. tók fram, var n. sammála um till. á þskj. 333. En þegar að því kom að finna, hvar ætti að draga úr útgjöldum í fjárl., gat n. ekki orðið sammála. Það hefir nú farið svo fyrir honum, að hann hefir tekið aftur till. sínar. En um till. okkar sjálfstæðismanna á þskj. 339 verð ég að fara nokkrum orðum.

Við leggjum til, að lækkaðir verði nokkrir liðir fjárl., og skal ég skýra það lítið eitt nánar. Við teljum, að það megi spara 50 þús. kr. á strandferðum í ár. Og það er ekki í lausu lofti byggt, því að á árinu 1933 var þessi kostnaður minni en hann mundi verða eftir fjárveitingunni, að frádregnum þessum 50 þús. Og mér finnst, að þegar svo er komið, að sparnað verður að viðhafa þá eigi að spara á þeim liðum, sem fela í sér vörukaup frá útlöndum, og það er auðvitað hér t. d. um kol og aðrar nauðsynjar skipsins. Enda teljum við strandferðirnar viðunandi, þó að þær verði eins og þær voru 1933.

Þá leggjum við til, að hætt verði við að byrja að byggja tvo skóla, gagnfræðaskóla hér í Reykjavík og Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Við viðurkennum auðvitað, að það þurfi að byggja þessa skóla. En við álítum, að þegar hin mestu vandræði eru með hina erlendu valútu, þá eigi ekki að leggja út í þessar byggingar að sinni. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þessir skólar eru báðir reknir nú, svo að ekki er að ræða um að leggja niður skólana, heldur aðeins að fresta að koma upp öðru húsnæði fyrir þá. það er líka vert að aðgæta, að hér er ekki eingöngu um þessa árs framlag að ræða, heldur er bundinn baggi fyrir mörg ár í framtíðinni, því að það þarf framlag til byggingar skóla þessara í mörg ár.

Því hefir mjög verið haldið fram af hálfu stj., að það þurfi að spara erlendan gjaldeyri, — og það er auðvitað satt. Og þess vegna finnst okkur það vera í anda hæstv. stj. að draga úr þar, sem mikið er af erlendum kaupum, en það er einmitt í nýbyggingum eins og þessum. Enda er mér sagt, að stj. hafi ákveðið, að ekki megi flytja inn af byggingarefni nema 1/4 af því, sem flutt var inn á árinu 1933. En nú þegar ég lít á skýrslu gjaldeyrisn., sem ég hefi hér fyrir framan mig, fyrir 2 fyrstu mánuði þessa árs, þá sé ég, að, innflutningur hefir verið meiri það sem skýrslan nær á þessu ári heldur en bæði árið 1933 og 1932. 1934 aðeins lítið eitt hærri en þessa 2 mánuði 1935. — Er það nú virkilega svo, að stj. ætli að draga úr innflutningnum eins mikið og hún lætur í veðri vaka? Ég ætla mér að trúa því. En þá sé ég, að hún þarf að kippa mjög greinilega að sér hendinni. — Ef stjórnarflokkarnir vilja ekki sinna till. eins og þessum, þá get ég ekki séð, að þeim sé alvara að takmarka innflutninginn eins og þeir segja.

Ég þykist vita, að einhverjir kunni að segja, að í þessu komi fram fjandskapur gagnvart þessum skólum. En svo er alls ekki langt frá því. Þessir skólar verða reknir eftir sem áður. Það er aðeins farið fram á, að ekki sé í ár byrjað að byggja yfir þá, m. a. af því, að það þarf mörg ár að veita fé til þeirra þangað til þeir eru komnir upp. Ég viðurkenni, að þessir skólar hafa ekki það húsnæði, sem þeir þurfa. En það verður eitthvað að sér að leggja, þegar illa árar.

Út at brtt. hv. þm. V.-Húnv. vil ég taka í sama streng og hv. þm. S.-Þ., að ég veit ekki, hvað n. í heild kann að segja um hana. En ég spyr: Hvers vegna var báturinn, sem brtt. ræðir um, ekki vátryggður? (HannJ: Ég hygg það hafi verið örðugt eða ómögulegt að fá hann vátryggðan). Það er veigamikil ástæða, ef ekki var hægt að fá bátinn vátryggðan; þá er tæpast hægt að kenna eigendum um tjónið. (JBald: þeir geta ekki heldur borguð 8% iðgjald. — HannJ: Þeir urðu að skrásetja bátinn á Ísafirði, til þess að fá hann vátryggðan).

Þá skal ég aðeins geta þess viðvíkjandi brimbrjótnum í Bolungavík, að ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv. með brtt. hv. þm. N.-Ísf. Ég tók það fram í n., að ég áliti það ofætlun þessu fátæka sveitarfélagi að leggja fram helming kostnaðar í viðbót við allt, sem það er búið að leggja fram til þessa brimbrjóts. Ég gekk inn á að flytja till. þannig, af því að ekki var hægt að komast lengra í nefndinni, en áskildi mér rétt til að greiða atkv. með brtt., ef hún kæmi fram.

Þá vil ég aðeins segja nokkur orð út af vatill. frá einum nm. (SE) á þskj. 353, um það, að ef ekki er nægilegt fé fyrir hendi af tekjum ríkissjóðs árið 1935 til þess að standast þessar greiðslur, sem þáltill. ráðgerir, þá sé ríkisstj. heimilt að ábyrgjast fyrir sýslunefndir og hreppsn. það, sem þarf til þess að bæta skaðana. Mér er alveg sama, hvort aðaltill. er samþ. með þessari viðbót eða engin till. Því að ég veit það eins og tveir og tveir eru fjórir, að sýslurnar geta ekki fengið neitt lán. Og þá er eins gott ,ð fella aðaltill. Með till. á þskj. 353 er náttúrlega verið að binda bagga fyrir framtíðina, sem ég veit ekki, hvernig gengur að veita af sér. En hitt er ég sannfærður um, að þessi sýslufélög geta ekki fengið sér lán.

Út af brtt. hv. þm. N.-Þ. vil ég segja aðeins það, að ef hún verður ekki tekin aftur, mun ég koma með brtt. um fjárveitingu til bryggju í Haganesvík, því að bryggja, sem þar var, hvarf beinlínis í ofviðrinu 26.—27. okt. síðastl. Ég gerði það til samkomulags í n. að bera hana ekki fram, af því að við sáum ekki fært að ætla fé til þessa. — Ég skal svo ekki hafa mitt mál lengra, en vona að okkar till. á þskj. 339 verði samþ.