04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (4775)

120. mál, skaði af ofviðri

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Það er fyrst viðvíkjandi brtt. hv. þm. V.-Húnv. Það ber ekki oft við, að við séum sammála, en að þessu sinni hefir nú svo vel til tekizt. (JBald: Það er af því að þeir eru í sameinuðu þingi!).

Ég hefi átt kost á að kynna mér ástæðurnar, sem valda því, að þm. flytur brtt., og átti tal um þetta við nákunnugan mann. Hefði ég ekki fengið glögga vitneskju, þá mundi mér hafa staðið stuggur af því að þenja svæðið þar sem þessar bætur eiga að koma til greina. En þarna í Húnavatnssýslu hafa einstakir menn orðið fyrir tjóni, sem er nákvæmlega sömu tegundar og hér er rætt um að bæta að einhverju leyti. Skaði þessara fátæku manna er 2—3 þús. kr., og er bjargræðisvegur þeirra úr sögunni, ef ekki kemur aðstoð úr einhverjum stað. Ég mun því greiða þessari till. atkv., án þess að ég þar með geri mér í hugarlund, hvernig n. að öðru leyti snýst við þessu.

Þá vík ég að till., sem ég ber fram sjálfur. Það hefir verið nægilega tekið fram af hv. frsm. meiri hl., að það hafi ekki auðnazt að koma sér niður á neinar frádráttartill. á núgildandi fjárl., sem n. öll gæti orðið sammála um. Hann sagði, að það væri hægar sagt en gert að opna í spretti einstakar gr. og taka fé, þótt ekki sé nema 100 þús. kr. Í sambandi við það vil ég taka fram, að ég er algerlega mótfallinn till., sem minni hl. fjvn. ber fram á þskj. 339. Þarna er ráðizt á þrjár línur. Og það er eftirtektarvert, að það eru tveir skólar, sem eiga að leggja til meiri hl. þeirra bóta, sem hér á að greiða. En fé til þessara skóla hefir verið veitt af því að það var sannfæring meiri hl. þingsins, að þess væri full þörf.

Nú hefir frv. um gagnfræðaskóla verið fleygað svo í n., að það getur orðið nokkur töf á því að fá lagt fram á móti. Um hina skólana er engin ástæða til að ætla annað en styrkurinn verði notaður á þessu ári. Þetta er því úrræði, sem við getum ekki gengið inn á, að það sé æskulýðurinn og skólarnir í landinu, sem eigi fyrst og fremst að blæða, þegar gripið er til nýrra sparnaðarráðstafana. Og það liggur við, að ég efist um, að það sé hægt með einfaldri þál. að kippa burt stórkostlegum einstökum liðum, sem verður að skoða sem loforð þings og stj. um framlög. Og óneitanlega væri sá sparnaður réttlátari, sem kæmi jafnar niður, ef framkvæmanlegur væri, heldur en kippa alveg burt einstökum liðum. Ég hefi verið að reyna að finna leið, sem allir geti orðið sammála um, til að draga úr útgjöldum á fjárl. Og sú hefir orðið niðurstaðan af viðræðum við ýmsa menn, að ekki sé aðra leið að finna en þá, sem ég geri ráð fyrir á þskj. 353. Í stuttu máli: að sýslufélögin, þar sem tjónið hefir átt sér stað, verði studd til að fá lán, sem greiðist af tekjum ársins 1936, öldungis eins og þau leggja sig. Það má vera, að peningar — eins miklir og hér um ræðir — liggi ekki lausir fyrir, þó að það liggi fyrir loforð, og lánin verði greidd af tekjum næsta árs. En ég á erfitt með að trúa, að svo verði fast fyrir, að sýslufélögunum, með velviljaðri aðstoð ríkisstj. og þm. hlutaðeigandi kjördæma og annara góðra manna, takist ekki að fá lán í þessu skyni.

Það er mín skoðun, að ekki sé um annað að ræða en þetta. Viljinn til þess að verða að liði var svo almennur í n., að það varð eindregin niðurstaða um það að reyna að hjálpa, og verður þá að finna einhverja færa leið. Frá mínu sjónarmiði er hún hér, og þó að hún sé ekki glæsileg og skemmtileg, að ráðstafa þannig hluta af tekjum komandi árs, þá er það betra en að dengja á stj. að borga þetta út án þess að gera neinar ráðstafanir á móti. Því að þetta er fastur liður í fjárl. fyrir 1936, og stj. er við því búin að borga hann. En að leggja þetta á aukafjárl. sé ég ekki neitt unnið við.