04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (4776)

120. mál, skaði af ofviðri

Gísli Guðmundsson:

Ég hefi lyft mér að bera hér fram á þskj. 380 brtt. við brtt. frá hv. 8. landsk., sem er á þskj. 359. Ég hafði nú frekar búizt við því, að það mundi ef til vill ekki þýða mikið fyrir mig á þessu stigi málsins að koma fram með þessa till. En svo þóttist ég sjá það, að fjvn., eða a. m. k. meiri hl. hennar, hefði fallizt á að mæla með áðurnefndri brtt. frá hv. 8. landsk., og þá taldi ég sjálfsagt að koma með þessa till. Efast ég ekki um það, að svo framarlega sem till. hv. 8. landsk. verður samþ., þá verði mín líka samþ. Það, sem hún fer fram á, er, að nokkur styrkur verði veittur — líklega um 1200 kr. í stað — til þess að gera við bryggjur á Þórshöfn í Norður-Þingeyjarsýslu og Kópaskeri. Bæði þessi þorp urðu mjög hart úti í ofviðrinu mikla síðastl. haust. Þannig fórust á Þórshöfn með öllu þrír mótorbátar og allmiklar skemmdir urðu á vörum og húsum, og ennfremur eyðilagðist bryggja að mestu leyti. Eins urðu á Kópaskeri allverulegar skemmdir á vörum, og allmiklar birgðir af olíu, sem bændur í héraðinu áttu, tók út. Lítil steinbryggja var á Kópaskeri, sem komið var upp á tveimur undanförnum árum og ríkið styrkti lítið eitt. Í þessu ofviðri urðu á bryggju þessari mjög tilfinnanlegar skemmdir, sem óhjákvæmilegt er að gera við, ef hún á ekki að eyðileggjast.

Ég vil þess vegna vænta þess mjög fastlega, að hv. þingmenn taki undir þessa sanngjörnu kröfu á þskj. 380 og greiði atkv. með nokkrum styrk til þessara staða. Hér er um ákaflega litlar fjárhæðir að ræða, og ég hefi algerlega bundið mig við fjárhæðina á Litla-Árskógssandi í till. frá hv. 8. landsk. Ég get sagt það, að ég er þeirri till. hlynntur. En hinsvegar mun ég greiða atkv. á móti henni, ef brtt. mín verður felld, því að það er engin sanngirni að gera mun á þessum stöðum, þar sem er algerlega eins ástatt.

Ég sé ástæðu til að minna á það í þessu sambandi, að það er ekki ákaflega oft, sem farið er fram á fjárveitingu til handa þessu héraði, Norður-Þingeyjarsýslu. Hún hefir lengi verið eitt af þeim héruðum, sem allra minnstan styrk hefir fengið frá hinu opinbera. Og það ætti heldur en hitt að verða til þess, að minna ætti að vera fundið til þess að verða við þessari litlu fjárbeiðni.

Viðvíkjandi þeim ummælum hv. 1. þm. Skagf., að ef þessi till. mín yrði ekki tekin aftur, þá mundi hann koma með brtt. viðvíkjandi bryggju á Haganesvík, þá hefi og ekkert við því að segja. En ég sem sagt álít, að þetta sé fullkomið sanngirnismál, og ég þykist þess fullviss, að því muni verða vel og sanngjarnlega tekið.