04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (4782)

120. mál, skaði af ofviðri

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Það er í sambandi við till. hv. 9. landsk. á þskj. 353, sem ég vil segja nokkur orð, og það er sérstaklega með tilliti til þess máls, sent snýr að mínu kjördæmi. þ. e. a. s. aðgerð á bryggjunni á Blönduósi. Það mál er þannig vaxið, að ég hefi, eins og hæstv. fjmrh. og hv. fjvn. vita, lagt mikið kapp á að fá framlag til þessa mannvirkis, vegna þess að ef ekki verður gert við það á næsta sumri, þá eru allar líkur til þess, að það komi til með að kosta mörgum sinnum meira að gera við bryggjuna aftur. En í sambandi við það, hvort hægt væri að fá lán til þessarar viðgerðar, þá vil ég benda hv. þm. á það, að ef þessi till. verður samþ. óbreytt, verður viðkomandi hérað að leggja fram 22000 kr. til þessarar aðgerðar, svo að það er síður en svo, að nokkur vissa sé fyrir því, að hægt verði að fá lán ofan á það framlag sem fjvn. ætlast til, að héraðið leggi fram. Ég veit, að menn skilja, að þetta skiptir ekki svo miklu máli, þó að þetta yrði fært svona til, ef það væri tryggt, að lán gæti fengizt til þessa mannvirkis, en það er fjarri því, að svo sé, og að því leyti stendur þar alveg eins á, þó að um smærri upphæð sé að ræða, eins og með brimbrjótinn í Bolungavík.

Annars verð ég að harma það, að hv. fjvn. skuli ekki hafa getað gengið inn á að færa niður útgjöld ríkisins til einhverra mannvirkja, sem eru í nýbyggingu og ekki hlýzt tjón af, þó að frestað sé um eitt ár. Ég verð að segja, að mig undrar það t. d., að ekki skuli vera hægt að ganga inn á að fresta byggingu á þeim skólum, sem farið er fram á á þskj. 339. Ég hefði hugsað mér það auðvelt mál, án þess að mikið tjón hlytist af, að fresta ýmsum öðrum framkvæmdum, sem því fé nemur, sem þarf til þess að vera við þau mannvirki, sem nú eru í bráðri hættu og alls ekki má dragast fram yfir þetta sumar að koma í verk. Menn hljóta að sjá, að það er vissulega ólíku saman að jafna, nýjum mannvirkjum, sem eru þannig, að ekkert tapast, þó að dragist að koma þeim upp, og svo hitt, að gera við þau mannvirki, sem liggja undir skemmdum og stórtjón getur hlotizt af, ef ekki er gert við þau nú þegar. Það er sérstaklega það atriði, sem ég vil láta koma skýrt fram, og ég vænti, að hv. þm. sjái, að það mun vera heppilegast eins og sakir standa að fella þessa till. á þskj. 353, því að hún getur gert að engu þær ráðstafanir, sem hér að gera og fjvn. er áður orðin sammála um, að nauðsyn bæri til að gera.