04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (4791)

120. mál, skaði af ofviðri

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Þegar ég kvaddi mér hljóðs, þá var það aðallega til þess að þakka fulltrúum flokkanna góðar undirtektir við mitt mál. því að allir flokkar höfðu lýst yfir því, að till. mín væri fullkomlega réttmæt, og mér skildist á þeim, að sjálfsagt væri að samþ. hana; aðeins lét hv. 1. þm. Skagf. þá fyrirspurn fylgja, hvers vegna báturinn hefði ekki verið vátryggður. Ég tók fram og skýrði frá því, hvernig á því stæði, að örðugt væri að fá báta við Húnaflóa vátryggða, a. m. k. báta á Hvammstanga og Blönduósi. Mér er um þetta vel kunnugt, því að fyrir 10 árum síðan var ég meðeigandi að vélbáti, sem gekk frá Blönduósi, og hann var ekki mögulegt að fá vátryggðan nema hann væri skrásettur á Ísafirði, og meðan báturinn gekk var hann skrásettur þar og vátryggður. Ég vil því vonast til þess, að þrátt fyrir það, að hv. þm. S.-Þ. virðist vera að taka aftur sín góðu meðmæli, þá feti aðrir hv. fjvn.menn ekki í hans fótspor og till. nái samþ. hér í þinginu, því að það getur ekki talizt neitt réttlæti að láta menn líða bótalaust samskonar skaða í einni sýslu og bættur er af ríkissjóðs hálfu í annari. Og ég get ekki séð, að það sé að gera þessa hjálp einskis virði, þótt 2—3 staðir bætist nú við, þegar talað er um það, að skaðana megi bæta um 75—50% eða eitthvað minna jafnvel. (JJ: En þetta er mikið, miðað við það, hvað upphæðin er lág). Nei, því að þessar skemmdir á Hvammstanga geta ekki verið virtar á meira en 2—3 þús. kr. Þótt sá skaði væri bættur um 75%, þá lækkar það aldrei 60 þús. kr. um helming, og menn í Þingeyjarsýslum eru ekki verr staddir en þessir menn á Hvammstanga. Þótt það sé ekki nema annar báturinn af tveimur, sem þar eru gerðir út, er farizt hefir, þá er skylt að bæta það tjón engu síður en þótt um 4—5 báta væri að ræða í Þingeyjarsýslu, sem farið hefðu sömu leið. Ég vænti því, að réttlæti verði látið njóta sín í þessu máli, án tillits til þess, þótt málið sé e. t. v. flutt með hagsmuni 2—3 héraða fyrir augum. Þarna eru menn, sem orðið hafa fyrir lítt bærilegum skaða, og það á ekki að gera þetta að bitbeini fyrir einhvern einstakan þm., sem ber hagsmuni sína héraðs sérstaklega fyrir brjósti. án tillits til annara.