31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (4798)

139. mál, landhelgisgæsla

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég býst varla við, þó till. þessi verði samþ., að hún nái þeim tilgangi, sem virtist vaka fyrir hv. frsm. fjvn., að vegna hennar verði hægt að ákveða breytingar á landhelgisgæzlunni næsta ár í sambandi við þau fjárl., sem fyrir liggja. — Þá hygg ég, að það sé óvarlegt að gera útboð á skipunum nema jafnframt sé ákveðið að selja þau. Það mun ekki vera algengt um einstaklinga, að þeir bjóði út slíka hluti án þess þeir ætli sér að selja, og ég hygg, að slíkt gæti þótt nokkuð mikið gabb af ríkisstjórn.

Að öðru leyti væri hér um stóra afturför að ræða á landhelgisgæzlunni, nema jafnframt því, að skipin væru seld, yrði tekið upp það skipulag, sem fjvn. bendir á, að hafa fjóra vopnaða báta auk varðskipsins. Meðan það er ekki gert er landhelgin gersamlega óvarin, þótt við höfum eitt skip og einn eða tvo lélega báta. Ég veit, að allir eru sammála um, að okkur er það mikilsvert að verja landhelgina, en það er vitanlega ómögulegt með einu skipi, sem útlendu togararnir og kannske þeir íslenzku líka vita alltaf, hvar er. Það er ekki einasta, að togarar frá sömu útgerðarhöfn séu í félagi um að láta hverjir aðra vita um, ef hætta er á ferðum, heldur er þessi félagsskapur víðtækari, og þar við bætist svo, að þetta eina skip er auk gæzlunnar mikið notað í óþarfar snattferðir. Ef þessu heldur áfram, þá er ástandið orðið svo lélegt, að ekki verður við unað, og getur enginn gert sér í hugarlund, hvert fjártjón við biðum af slíku ástandi. Ég hygg, að þótt keyptir yrðu fjórir varðbátar, einn handa Vestfjörðum, annar í Faxaflóa og tveir fyrir norðan og austan, þá þurfi auk þess tvö varðskip, sem gangi allt árið, og þess vegna megum við ekki selja nema eitt skipið. En ég er ekki sammála flm. brtt. á þskj. 420, því ég álít, að það eigi að selja Þór, en ekki Óðin, því að Þór er að engu leyti fullkomið gæzluskip, en það er Óðinn aftur á móti. Og ef þingið fellst á að leita tilboða í annaðhvort skipið, þá tel ég sjálfsagt, að það sé Þór, en að Óðni sé haldið. Þess vegna vil ég leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 420.